Íslenska skjaldarmerkið á Alþingishúsinu
Mánudaginn 31. október 1988

     Flm. (Árni Gunnarsson):
    Virðulegi forseti. Ég þakka þessa umræðu sem hér hefur farið fram og mér þykir bæði þörf og æskileg. Hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson kvartaði undan því að ég hefði ekki nefnt þetta við þáv. forseta þingsins. Þessi till. var nefnilega flutt á síðasta þingi. Ástæðan var afskaplega einföld. Ég vissi skoðanir þess virðulega forseta Sþ., sem þá var, á þessu máli, þannig að ég taldi tímasóun að ræða það á þeim vettvangi. Þess vegna taldi ég eðlilegt að flytja málið beint inn á Alþingi og heyra hugsanir og skoðanir þingmanna á því hvort við ættum, á löggjafarsamkundu þjóðarinnar, æðstu stofnun þjóðarinnar, að ganga inn í húsið undir dönsku konungsmerki áfram eða undir íslensku skjaldarmerki. Og ég vil segja það við þm. að það er stór munur á því hvort stytta af Danakonungi stendur fyrir framan Stjórnarráðið eða hvort æðsta stofnun þjóðarinnar, þing þjóðarinnar, þar sem fulltrúar þjóðarinnar sitja og ráða ráðum sínum, er merkt dönskum konungi. Það er stór munur á þessu tvennu. Og ég er viss um að ef menn hugsa þetta mál örlítið betur og átta sig á því að við eigum sjálfir fagurt skjaldarmerki, sem við notum allt of lítið, þá munu þeir komast að því að það er að minnsta kosti skynsamlegt að koma hinu fagra skjaldarmerki fyrir á Alþingishúsinu, þó að ég ræði ekki brottflutninginn á því merki sem fyrir er.
    Það er vitnað í þjóðminjavörð. Hv. þm. hafa nú ekki alltaf hlustað á það sem þjóðminjavörður hefur sagt. En það er auðvitað gott þegar farið er að vitna í þann ágæta mann og farið að taka mark á orðum hans. Það hefur allt of lítið verið að því gert á hinu háa Alþingi.
    Varðandi orð hv. þm. Eiðs Guðnasonar um það að till. hefði gjarnan mátt vera óflutt, læt ég mér það algerlega í léttu rúmi liggja hvað honum finnst um það. Það eru margar till. sem mega vera ófluttar. Ég held að dómur af þessu tagi hafi ekkert að segja inn í þessa umræðu. Hvert þetta leiðir okkur ef þessi ákvörðun yrði tekin, þetta leiðir okkur nákvæmlega ekki að neinu öðru marki en því að fjarlægja merki dansks konungs af þinghúsi Íslendinga. Lengra fer þetta mál ekki.
    Virðulegi forseti. Ég hef ekki meira um þetta mál að segja. Ég hefði talið að sú tilfinning fyrir þjóðrækni og þjóðerni væri svo sterk inni á hinu háa Alþingi að till. af þessu tagi fengi verulegan stuðning.