Menningarsjóður félagsheimila
Mánudaginn 31. október 1988

     Flm. (Jón Kristjánsson):
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. á þskj. 32 um eflingu Menningarsjóðs félagsheimila sem ég flyt ásamt hv. 10. þm. Reykv. Guðmundi G. Þórarinssyni. Tillgr. er á þessa leið: ,,Alþingi ályktar að efla beri Menningarsjóð félagsheimila og felur menntamálaráðherra að láta fara fram endurskoðun á lagaákvæðum um sjóðinn. Endurskoðunin skal fela það í sér að sjóðurinn geti stuðlað að aukinni menningarstarfsemi á landsbyggðinni og auðveldað þeim menningarstofnunum, sem eiga að þjóna landinu öllu, að gegna því hlutverki sínu. Miða skal við að ný löggjöf um sjóðinn taki gildi á árinu 1989.``
    Þessi till. er endurflutt, till. sama efnis var flutt á síðasta Alþingi, en hlaut þá ekki afgreiðslu enda var liðið að lokum þings þegar hún kom fram.
    Í grg. segir að núverandi lagaákvæði um Menningarsjóð félagsheimila sé að finna í lögum nr. 107 frá 28. okt. 1970, um félagsheimili. Þá er gert ráð fyrir að í Félagsheimilasjóð renni skemmtanaskattur svo sem segir í lögum um skemmtanaskatt, en 10% af tekjum sjóðsins skuli varið til Menningarsjóðs félagsheimila sem hafi það hlutverk að stuðla að menningarstarfsemi í félagsheimilum. Einnig hefur sjóðurinn heimild til að styrkja menningarstarfsemi utan félagsheimila ,,ef sérstaklega stendur á,,, eins og það er orðað í lögunum.
    Það er full ástæða til að endurskoða þetta hlutverk Menningarsjóðs félagsheimila með tilliti til breytinga sem orðið hafa í þjóðfélaginu, efla hann og skapa honum grundvöll til að takast á við ný verkefni. Hlutverk félagsheimila í menningarlífi landsmanna hefur breyst og fleiri samastaðir eru nú fyrir menningarstarfsemi svo sem skólar, kirkjur og aðrar byggingar. Það er einnig ástæða til að kanna það sérstaklega með hverjum hætti sjóðurinn getur eflt stuðning við menningarstarfsemi á landsbyggðinni og stuðlað að því að tengja starfsemi menningarstofnana í höfuðborginni, sem eiga að þjóna landinu öllu, betur landsbyggðinni. Það má í þessu sambandi nefna Listasafn Íslands, Sinfóníuhljómsveitina og Þjóðleikhúsið, sem eiga að hafa sérstakar skyldur við að sinna henni. Það má geta þess að tónlistarflutningur Sinfóníuhljómsveitarinnar úti um land á seinni árum hefur mælst mjög vel fyrir. Einnig má geta þess að Listasafnið hefur nú fengið glæsilega aðstöðu hér í höfuðborginni og næsta skref ætti að vera að tengja starfsemi þess betur landsbyggðinni. Þjóðleikhúsið ætti að hafa sérstakar skyldur í þessu efni, en leiksýningar þess úti um landsbyggðina hafa verið takmarkaðar í seinni tíð og geta má þess að þeim hefur jafnvel frekar fækkað heldur en hitt.
    Efling Menningarsjóðs félagsheimila gæti létt undir með starfsemi þessara stofnana og er ekki síður nauðsynlegt að sjóðurinn haldi áfram að sinna áhugafólki sem starfar að menningarmálum. Þar er þörfin brýn og mikill áhugi fyrir hendi. Tillgr. kveður á um eflingu sjóðsins sem þýðir að auka verður tekjur hans. Nauðsynlegt er einnig að endurmeta hlutverk sjóðsins og marka honum framtíðarstöðu ekki síst þar

sem nú er rætt um breytingar á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Nauðsyn ber til að sjóðurinn verði öflugur um land allt og óháð því hvað verður ákveðið varðandi byggingu og rekstur félagsheimila í landinu.
    Rétt þykir að ráðrúm gefist til endurskoðunar og hugsanlegra lagabreytinga og því er gert ráð fyrir að ný löggjöf um sjóðinn taki gildi á árinu 1989 og ætti þá að gefast ráðrúm til endurskoðunar á hlutverki sjóðsins og marka honum stöðu í framtíðinni.
    Ég tel vart ástæðu til að fjölyrða um efni till. og vísa til rökstuðnings sem liggur fyrir frá síðasta þingi. Ég vil aðeins að lokum undirstrika það að till. felur í sér þann tilgang að ríkið styðji áfram við listflutning af því tagi sem sjóðurinn hefur stutt á undanförnum árum. Tillgr. miðar að því að auka sjálfstæði hans sem sérstaks sjóðs sem styðji þessi verkefni.
    Ég vil að lokum mælast til þess að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til hv. allshn.