Menningarsjóður félagsheimila
Mánudaginn 31. október 1988

     Málmfríður Sigurðardóttir:
    Virðulegi forseti. Svo sem fram hefur komið er sú till., sem hér er til umræðu, endurflutt og var áður borin fram á síðasta þingi. Þá lýsti ég, af hálfu Samtaka um kvennalista, þeirri skoðun að þennan sjóð væri nauðsyn að efla og koma starfsemi hans í markvissara horf.
    Í félagsheimilum vítt um land fer fram mikilvæg menningarstarfsemi, bæði fyrir þá sem að henni vinna og fyrir þá sem njóta og ekki síst í dreifbýli. Menningarstarfsemi í félagsheimilum fer fram á margvíslegan hátt, í formi tónlistar, kórastarfsemi, leiklistar, myndlistarsýninga, auk þess sem þar fer fram margháttuð félagsleg starfsemi, sem vissulega er af menningarlegum toga.
    Það starf að menningarmálum og listum sem fram fer er því fjölþætt en allt um það skiptist þessi starfsemi þó í tvo þætti, þ.e. heimafengið efni og aðfengið. Heimafengna efnið er að mestu unnið í sjálfboðavinnu þar sem enginn ætlast til launa heldur vinnur fólkið að þeim málum sér til ánægju, lífsfyllingar og þroska. Laun þess eru fyrst og fremst gleði yfir góðu starfi í góðum félagsskap. En því er þó ekki að leyna að oft verður fjárhagslegur halli á slíkri starfsemi og sveitarfélag verður þá að hlaupa undir bagga og stundum af litlum efnum. Aðfengna efnið, hvert sem það er, leikur, söngur, tónlist eða myndlist, er vissulega ekki ómerkari þáttur en kostar oft ærið fé sem aðgangseyrir hrekkur ekki til að greiða og í þeim tilvikum sem ég hef nefnt gegnir Menningarsjóður félagsheimila mikilvægum tilgangi, auk þess sem hann á að vera hvati til ræktar við listir og menningu vítt um land. Og það hefur hann líka verið. Hann hefur ótrúlega víða komið við sögu þó af litlum efnum sé því að hann hefur búið við það að framlög til hans hafa sífellt verið skert svo sem verða vill um þá sjóði sem eiga sitt undir mörkuðum tekjustofnum. Því verður að kippa í lag því að hér er hægt að vinna mikið án stórvægilegra fjárútláta, a.m.k. miðað við margt annað. Menningar- og listastarfsemi býr víða við erfið skilyrði úti um land sökum mannfæðar í byggðarlögum og á heimilum og því er fengur að hverju því sem þessum málum má verða að liði og ýtir undir félagastarfsemi og samheldni. Menn þarfnast menningar og lista, fagurra hluta og sköpunar og eigin þátttöku í þessum greinum og tækifæra til að njóta þeirra. Efling landsbyggðar byggir á fleiru en atvinnumöguleikum og efnahag. Hún er ekki síður fólgin í því að búa vel að menntunar- og menningarmálum. Og væri Menningarsjóður félagsheimila efldur og honum skapað víðara verksvið en nú er, eins og rætt er um í grg., er það tvímælalaust til eflingar landsbyggðarinnar og kæmi til styrktar því atvinnu- og áhugafólki sem starfar að menningarmálum um dreifðar byggðir landsins.
    Hv. flm. hefur gert góða grein fyrir tilgangi þessa máls og ég kom hér í stól til að lýsa yfir stuðningi við það.