Menningarsjóður félagsheimila
Mánudaginn 31. október 1988

     Hjörleifur Guttormsson:
    Virðulegi forseti. Sú till. sem hér er flutt öðru sinni af hv. þm. Jóni Kristjánssyni og Guðmundi G. Þórarinssyni um eflingu Menningarsjóðs félagsheimila er góðra gjalda verð. Það er út af fyrir sig rétt, sem fram kom í máli hv. síðasta ræðumanns, að oft vildi maður sjá meiri stuðning við slíkar till., einnig úr þeim flokkum sem viðkomandi þingmenn eru ættaðir úr og eru í eins og hér um ræðir, en ég vil samt ekki vera að gera lítið úr till. sem slíkri, hún sýnir væntanlega vilja þessara hv. þm. til málsins. Ég tel mér skylt að taka undir þessa till. því að ég tel að hún fjalli um mikilsvert málefni.
    Ég er alveg sammála því sem fram kom frá hv. þm. Málmfríði Sigurðardóttur um gildi menningarstarfsemi út um landið og þörfina á að bæta stöðuna í þeim efnum og þar ættu auðvitað félagsheimili á landsbyggðinni að geta gegnt talsverðu hlutverki. Þar háttar mjög misjafnlega til, hvernig að þeim málum er staðið, og mörg félagsheimilin eiga í miklum erfiðleikum varðandi sinn rekstur. Ég var því andsnúinn þeim hugmyndum sem lágu fyrir á síðasta þingi um breytingar á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga að því er snertir Félagsheimilasjóð og ég hygg að hv. 1. flm. þessa máls hafi einnig verið svipaðrar skoðunar og ég í þeim efnum. Sá sjóður hefur rýrnað stórkostlega í framkvæmd vegna þess að framlög úr honum hafa verið óverðtryggð og komin langt á eftir og ekki verið fylgt neinum skynsamlegum áætlunum um greiðslur úr þeim sjóði.
    Ég vil tengja þetta mál aðeins þeirri umræðu sem hefur verið í gangi og enn er ekki lokið um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Ég tel að þar hafi gætt allt of mikið þeirra sjónarmiða, þegar menningarstarfsemi af ýmsu tagi á í hlut, að ríkið eigi að hætta þar sem mest afskiptum sínum, ríkið eigi að láta sveitarfélögin um þetta. Ýmsir sveitarstjórnarmenn, ekki síst framkvæmdastjórar sveitarfélaga, hafa því miður tekið undir þennan málflutning. Ýmsir segi ég, langt frá því að það sé upp til hópa og ég efast satt að segja um að það sé meirihlutastuðningur við slík sjónarmið í hópi sveitarstjórnarmanna. Ég a.m.k. vona að svo sé ekki því ég held að rökin séu á misskilningi byggð. Spurningunni um að fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga geti verið með eðlilegum hætti á auðvitað að svara játandi. Það á að koma þeim skiptum í eðlilegt horf. Það á að tryggja það, og það er hlutverk okkar alþm. að tryggja það m.a., að framkvæmdarvaldið gangi þar ekki á hlut sveitarfélaganna með óeðlilegum hætti eins og því miður hefur gerst allt of oft og allt of mikið. En það breytir ekki þeirri staðreynd að það er engin lausn að ríkið fari að draga við sig örvandi stuðning við þætti eins og menningarstarfsemi af fjölmörgu tagi úti um landið. Slíkur stuðningur er í raun mun meira virði en svarar upphæðunum sem til þess renna. Þessi starfsemi á undir högg að sækja hjá sveitarfélögunum. Hún verður út undan þegar kemur að því að skipta allt of litlu fjármagni sem sveitarfélögin hafa haft handa á

milli og jafnvel þó að þar yrði einhver breyting á til bóta, sem ég vona að verði m.a. fyrir tilstuðlan núverandi ríkisstjórnar, tel ég samt ekki að það séu nein rök fyrir því að um stuðning ríkisins við starfsemi eins og félagsheimili, byggingu þeirra, og varðandi menningarstarfsemi, sem þar ætti að fara fram, fari ríkið að draga að sér höndina.
    Því miður eru þau félagsheimili allt of mörg út um landið sem ekki hafa sinnt því starfi sem þeim var upphaflega ætlað að rækja, fjölþættu félagsstarfi og menningarstarfsemi af ýmsu tagi og þar kemur ekki bara til fjárskortur, þar koma auðvitað til líka félagslegar aðstæður í strjálbýli víða um land þar sem skortir stuðning við menningarstarfsemina og örvun. Og það gildir hið sama um það og um frjálsa félagsstarfsemi almennt að þátttakan hefur dvínað, þær stundir sem fólk leggur í slíka starfsemi hafa orðið færri hvort sem manni líkar betur eða verr og erfiðara að fá fólk til að leggja þar mikið af mörkum. Skal ég þó ekki gera lítið úr því sem að er gert af fjölmörgum enn í dag.
    En okkur ber hér á Alþingi að veita þessari starfsemi stuðning og þess vegna vil ég greiða fyrir framgangi þessa máls og hliðstæðra mála sem hér eru fram lögð.