Menningarsjóður félagsheimila
Mánudaginn 31. október 1988

     Flm. (Jón Kristjánsson):
    Virðulegi forseti. Ég þakka þeim hv. þm., sem hér hafa talað, fyrir góðar undirtektir við þá till. sem hér er til umræðu.
    Út af orðum hv. 4. þm. Vesturl. vil ég segja að hann virðist vera dálítið sár í hjartanu ef við framsóknarmenn flytjum mál og telur það ekki nógu gott, allra síst þegar það eru góð mál. Hann telur einnig að við gerð fjárlaga sýnum við annað andlit og ekki jafngæðalegt og þegar við erum að flytja till. á Alþingi.
    Ég vil taka það fram að mér er mikil alvara með þessum tillöguflutningi og ég vísa því algjörlega á bug að ekki fylgi hugur máli eins og hv. 4. þm. Vesturl. ýjaði að. Ég er ekki einn þeirra manna sem hafa staflað upp till. á Alþingi, en ég vil taka það fram í því sambandi að mér er alvara með þeim till. sem ég flyt. Ég vil ekki gera þingmönnum það upp að þeim sé ekki alvara með sínum tillöguflutningi og vísa því algjörlega á bug.
    Auðvitað felur þessi till. í sér að Menningarsjóður félagsheimila þarf að hafa vissan forgang um fjárframlög sem hann hefur ekki haft, en till. felur líka meira í sér. Till. felur í sér að hlutverk hans og starfsgrundvöllur sé endurskoðað og samin um hann ný löggjöf. Ég tel algjörlega ástæðulaust að hafa uppi einhverja hótfyndni í því efni að sá tillöguflutningur á Alþingi sé sýndarmennska.
    Nú segir hv. 4. þm. Vesturl. að við framsóknarmenn séum komnir í svo góðan félagsskap að það megi fyrirgefa okkur að við höfum verið í vondum félagsskap áður. Það getur vel verið að það komi í ljós að úr hendi hinna nýju stjórnarherrana komi miklir peningar til allra mála. Þó verð ég að segja að það er vafamál að við getum leyft okkur alla hluti í þessari ríkisstjórn. Ég spái því þó að tilgangurinn sé góður. En þess vegna fer till. ekki harðar í hlutina en að það er gert ráð fyrir að ný löggjöf um sjóðinn taki gildi á árinu 1989, það er gert ráð fyrir að þessi endurskoðun fari fram í vetur ef till. verður samþykkt og að mönnum gefist þá tími til að skoða fjármögnunina eftir að endurskoðunin hefur farið fram.
    Ég vil aðeins að lokum taka fram að það er eðlilegra að þessi till. gangi til hv. félmn. Sþ. en allshn., hún mun hafa verið þar til meðferðar á síðasta Alþingi, og vil ég biðja virðulegan forseta að bera það upp hvort hv. þm. eru því samþykkir að hún gangi til félmn.