Menningarsjóður félagsheimila
Mánudaginn 31. október 1988

     Karvel Pálmason:
    Virðulegi forseti. Ég skal ekki hafa langt mál um þessa þáltill. Það er að vísu slæmt að hæstv. menntmrh. skuli ekki vera viðstaddur umræðuna, ekki síst í ljósi þess sem gert er ráð fyrir í áframhaldinu að því er varðar skiptingu milli ríkis og sveitarfélaga að því er þennan málaflokk varðar.
    Ég tek að sjálfsögðu undir að auðvitað er hér áróðurstillaga á ferðinni. Það er engin spurning um það. Ég er ekki að ætla hv. flm. að þeir meini ekkert með þessu, en meiningin er sú að fylgja málinu fram þegar á reynir. Og hvar er það? Það er við afgreiðslu fjárlaga. Þá sést fyrst hvað menn meina með till. af því tagi sem hér er um að ræða. Það hefur gerst áður að hv. þm. Framsfl. hafa klikkað í þeim efnum, ekkert nýtt. Þetta er áróður. Þetta er sýndarmennska. Það er sýndarmennska að flytja hér þingsályktunartillögur sem stjórnarliðar vitandi vits að slíkar tillögur ná ekki fram að ganga. Það er helber sýndarmennska fyrir utan hitt að þáltill. eru yfirleitt saltaðar hjá hæstv. ríkisstjórnum svo að árum eða jafnvel áratugum skiptir, aldrei framkvæmdar. Hér er því auðvitað um sýndarmennsku að ræða. Því neitar enginn. Ég tala nú ekki um þingreynda menn sem hafa upplifað annað eins og þetta og kannski eitthvað verra.
    En ekki er ég að hafa á móti því að félagsheimilasjóðir verði styrktir. Þeir hafa gegnt sínu hlutverki í gegnum árin og hefði raunar þurft að styðja betur við bakið á þeirri starfsemi í gegnum fjöldamörg ár. En það er rétt, sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson sagði hér áðan, að auðvitað eru breyttir tímar og það þarf að svara breyttu þjóðfélagi með breyttum reglum og breyttri starfsemi frá því sem verið hefur. En þessi tillaga ein og sér gerir ekkert í þeim efnum.
    Ég hefði gjarnan viljað fá loforð eða vilyrði hæstv. menntmrh. eða hæstv. ráðherra annarra sem þetta mál flokkast undir, þar á meðal hv. framsóknarráðherra, forsrh., sjútvrh. o.fl. --- ég hefði viljað heyra þeirra viðbrögð við svona tillögu. Hvað ætla þeir að gera á næsta ári í þessum efnum? Menn geta leyft sér að flytja slíkar sýndarmennskutillögur. Ég tala ekki um ef menn búast við kosningum áður en langt um líður. Og mér sýnist á þessari tillögu að sumir séu að búa sig undir að kosningar verði fyrr en seinna, núverandi hæstv. ríkisstjórn haldi ekki lengi velli ef þetta á að vera borðleggjandi fyrir framhaldið. Ég skal engu spá um það. En mér finnst að hv. þm., og nú gæti ég tekið undir með hæstv. utanrrh. þá ræðu sem hann flutti hér fyrir nokkrum dögum, að Alþingi Íslendinga ætti að fara að gá að sér og fara sparlega með. Ekki þannig tekið að ég sé að draga úr í þessu tilviki, en það er víða sem má spara til að bæta einmitt þennan þátt upp.
    Það eru milljónatugir ef ekki hundruð milljóna sem mætti spara í öðrum þáttum og vel mætti við til að bæta t.d. þennan þátt og aðra slíka. Hér hefði auðvitað líka mátt fylgja að því er þessa tillögu varðar hvar ætti að taka peningana, hversu mikið. Hversu miklu vilja menn bæta við?

    Nú veit ég að hv. þm. Jón Kristjánsson veit alveg hvað er verið að tala um að því er varðar fjárlög næsta árs og hversu miklu á að bæta við og hvaðan á að taka það. Ég held að við hljótum að fara að athuga betur okkar gang. Þó að flest af þessum málum séu góð og þar á meðal þetta hljótum við einhvers staðar að þurfa að velja á milli, flokka málin í það sem við teljum mikilvægara og það sem kemur á eftir.
    Nú vil ég gjarnan spyrja hv. fyrri flm. sem talaði fyrir málinu: Hvaða hugmyndir hefur hann um það að bæta hér við í væntanlega púlíu komandi ára í krónum talið og þá hvernig á að taka slíka hluti, af hverju á að bæta við, skattheimtu eða færa á milli? Menn verða auðvitað að tala um þessa hluti samhliða. Annars meina menn ekkert með því. Það er enginn vandi að flytja tillögur af þessu tagi, en það er meiri vandi að koma þeim í reynd í framkvæmd til þess að þeir sem eiga að njóta hafi af því gagn. Ég vænti þess að við fáum upplýsingar um hvers má vænta að því er varðar hv. flm. Er honum kunnugt um hvað ætlað er á næsta ári að því er varðar Félagsheimilasjóð? Ef svo er, finnst honum það nóg? Ef ekki, hvað á miklu að bæta við og hvaðan á að taka það?
    Þetta er raunveruleikinn sem við stöndum frammi fyrir að svara og við hljótum að biðja um svör þar að lútandi.