Menningarsjóður félagsheimila
Mánudaginn 31. október 1988

     Flm. (Jón Kristjánsson):
    Virðulegi forseti. Aðeins örfá orð í lokin. Mér finnst dálítið sérkennileg ræða hv. 3. þm. Vestf. Hann segir að málið sé vissulega afar gott, en mér skilst á ræðu hans að þegar við framsóknarmenn flytjum mál sé það sýndarmennska, aðrar þáltill., sem fluttar eru í hv. Alþingi, sem vissulega skipta hundruðum, séu meintar í fullri alvöru og sjálfsagt kostar engin þáltill. peninga nema þessi. Mér er spurn hvort allir hafa gert grein fyrir fjármögnun á sínum þáltill. úr þessum ræðustól. Hins vegar er ég reiðubúinn að gera það. Ég reikna ekki með, enda hélt ég að hv. 3. þm. Vestf. hefði heyrt það sem ég sagði í síðustu ræðu minni, ég reikna ekki með að aukin fjárframlög til Menningarsjóðs félagsheimila verði tekin inn í fjárlög sem nú eru til afgreiðslu, en ég er reiðubúinn að standa að fjármögnun fyrir sjóðinn á árinu 1989 þegar starfssvið hans hefur verið endurskoðað. Ég tel enga ástæðu til þess að vera að nefna einhverjar upphæðir í því sambandi. Menntmrn. er ætlað að endurskoða starfsemi sjóðsins og gera tillögur um með hvaða hætti hann muni starfa og tillögur þess efnis munu koma fyrir hv. Alþingi á næsta ári við gerð fjárlaga fyrir árið 1990. Þá er ég reiðubúinn að standa að slíkri fjármögnun. Það er alveg hárrétt hjá hv. 3. þm. Vestf. að það má áreiðanlega spara ríkisútgjöld í þessu skyni og ég er reiðubúinn að standa að því.