Menningarsjóður félagsheimila
Mánudaginn 31. október 1988

     Karvel Pálmason:
    Virðulegi forseti. Aðeins örfá orð. Ég er út af fyrir sig ekki sérstaklega að gagnrýna flm. þessarar þáltill. Það á við í mörgum tilvikum að menn flytja hér þáltill. án þess í reynd að hafa gert sér grein fyrir því hvernig eigi að koma þeim í framkvæmd. Og það er auðvitað meginmálið. Í þessari tillögu er gert ráð fyrir, með leyfi forseta, síðasta línan: ,,Miða skal við að ný löggjöf um sjóðinn taki gildi á árinu 1989``, þ.e. á næsta ári. Ég á von á því að sú löggjöf eigi að færa meira en nú er, ekki minna, á næsta ári. Innan ekki langs tíma hljóta menn að afgreiða hér fjárlög fyrir næsta ár og ég geri ráð fyrir að hv. þm. Framsfl., sem að þessu standa, muni standa að þeim væntanlegu fjárlögum. Þess vegna spyr ég: Hvað eru menn að tala um?
    Það er ekkert verið að tala um árið 1990 hér. Það er verið að tala um að lögin taki gildi 1989, strax á næsta ári. Ég held því að menn eigi að temja sér að vera nokkuð raunsærri en menn hafa verið til þessa og tala um staðreyndir, tala um hlutina eins og þeir eru, ekki eins og menn kannski vildu að þeir væru ef allt væri öðruvísi en það er. Það skiptir meginmáli. Við lifum við þessar staðreyndir. Hvernig getum við breytt um? Hvernig getum við komið því í framkvæmd að breyta þeim? Ekki bara tala um það, en breyta þeim í reynd. Þessi tillaga er um það að orða það, ekkert um að gera það í reynd.