Bygging ráðhúss í Reykjavíkurtjörn
Mánudaginn 31. október 1988

     Flm. (Stefán Valgeirsson:
    Virðulegi forseti. Ég hef leyft mér að flytja till. til þál. um athugun á lagalegu réttmæti byggingar ráðgerðs ráðhúss í Reykjavíkurtjörn o.fl. Tillagan er svohljóðandi:
    ,,Alþingi ályktar að kanna skuli sem ítarlegast öll lagaleg atriði sem tengjast ráðgerðri byggingu ráðhúss Reykjavíkurborgar í Reykjavíkurtjörn með tilliti til eignarréttar og grenndarréttar húseigna Alþingis við norðurenda Tjarnarinnar. Skal forsetum Alþingis falið að fá þrjá trausta lögfræðinga til að kanna lagaleg atriði málsins og gefa sérálit og einnig að fá könnun og sérálit þriggja manna sérfróðra um skipulags- og byggingarmál á málum sem tengjast ráðhúsbyggingunni. Jafnframt skal leitað til borgarstjórnar Reykjavíkur og hún beðin um að leggja fram sem ítarlegust gögn um lagalegar, skipulagslegar og aðrar forsendur sem ráðgerð ráðhúsbygging er reist á. Skal stefnt að því að hraða öflun þessara gagna og álita og leggja þau fram í greinargerð um málið á því Alþingi sem nú situr.
    Alþingi ályktar einnig að beina þeim tilmælum til borgarstjórnar Reykjavíkur að stöðvaðar verði án tafar framkvæmdir í Reykjavíkurtjörn og þær verði ekki hafnar aftur fyrr en ótvírætt liggur fyrir að framkvæmdirnar brjóti ekki gegn lögum eða löglegum og réttmætum hagsmunum Alþingis og Alþingi hafi gefist tækifæri til að álykta þar um. Dugi tilmæli Alþingis ekki til að stöðva framkvæmdir borgarstjórnar Reykjavíkurborgar í Reykjavíkurtjörn til bráðabirgða skal forsetum Alþingis falið að láta vinna að því fyrir dómstólum að stöðva framkvæmdirnar þar til ótvírætt liggur fyrir að framkvæmdirnar séu lögmætar.``
    Á fyrri hluta þessa árs hóf Reykjavíkurborg umfangsmiklar framkvæmdir í Reykjavíkurtjörn með byggingu ráðgerðs ráðhúss. Meðan Alþingi starfaði á sl. vori var um að ræða undirbúningsframkvæmdir. Annir á síðustu starfsdögum Alþingis, svo og að ráðhúsmálið var ekki kynnt alþm., ollu því m.a. að ég lét málið ekki til mín taka, enda lá fyrir að stjórnvöld höfðu þá ekki fjallað um mikilsverð atriði eins og byggingarleyfi fyrir ráðhúsið og áform borgaryfirvalda um húsið sættu talsverðum breytingum ef marka mátti blaðaskrif um málið.
    Að loknum miklum önnum síðustu starfsviku síðasta þings kom betur í ljós hve umfangsmiklar framkvæmdir við ráðhúsið voru og haldið var áfram framkvæmdum með hraða þótt ekki væri búið að staðfesta byggingarleyfi og graftrarleyfi fyrir húsið hefði verið fellt úr gildi. Sem alþm. er mér skylt að gæta hagsmuna Alþingis sem stofnunar og að lög Alþingis séu virt. Af þeirri ástæðu, auk annarra, skrifaði ég og sendi forsetum Alþingis opið bréf, sem birtist í Morgunblaðinu 1. júní 1988, þar sem ég spurðist fyrir um veigamikil atriði sem tengjast ráðhúsbyggingunni. Þetta opna bréf er fskj. I með þáltill. Mér sérstaklega hefur ekki borist svar við þessu opna bréfi og Alþingi sjálft eða borgarstjórn Reykjavíkur hefur ekki afhent mér eða sýnt nokkur gögn vegna ráðgerðrar ráðhúsbyggingar.

    Í orðsendingu frá forsetum Alþingis, sem birtist í Morgunblaðinu 14. júní 1988 og er fskj. II með þáltill., er birt eina skjalið sem mér er kunnugt um að ritað hafi verið í nafni Alþingis um hið ráðgerða ráðhús. Það er bréf forseta Alþingis til byggingarfulltrúans í Reykjavík, dags. 24. mars 1988, sem er svar við bréfi hans, dags. 25. febr. 1988. Bréf forseta Alþingis er mjög stutt. Í því kemur ekki fram að Alþingi hafi fengið nokkur gögn vegna þessa máls, svo sem uppdrætti, líkön, ályktanir eða annað, enda munu áform um ráðhúsbygginguna hafa breyst talsvert eftir þetta. Í svari forseta Alþingis er ekki vikið að rétti húseigna Alþingis sem ráðhúsbyggingin kynni að brjóta gegn. Aðeins er vikið að þörfum Alþingis til rýmis.
    Þessu bréfi forseta Alþingis frá 24. mars 1988 fylgja umsagnir tveggja arkitekta, Garðars Halldórssonar, húsameistara ríkisins, og Sigurðar Einarssonar arkitekts. Hvorugur þessara manna getur talist hlutlaus í þessu máli. Garðar Halldórsson á sæti í skipulagsstjórn ríkisins og hefur þar tekið þátt í afgreiðslu mála sem tengjast ráðgerðu ráðhúsi, svo sem Kvosarskipulagi, og Sigurður Einarsson hefur starfað að hönnun nýs þinghúss. Hljóta umsagnir þessara manna að metast í því ljósi að þeir eru ekki sérstakir kunnáttumenn um lagaleg atriði sem tengjast ráðhúsbyggingunni.
    Það er því undrunarefni hve lítið forsetar Alþingis hafa fengið að vita um þessa ráðgerðu ráðhúsbyggingu og mér virðist að aðrir alþm. hafi engin gögn fengið um þetta og ekki tækifæri til þess að álykta um málið. Það er óviðunandi niðurstaða. Mikilvægi málsins er slíkt að óhjákvæmilegt er að Alþingi sem stofnun láti málið til sín taka.
    Þótt þetta ráðhúsmál hafi ekki verið kynnt alþm. sérstaklega má þeim öllum vera ljóst að framkvæmdirnar skerða Reykjavíkurtjörn verulega og spilla henni sem djásni gamla miðbæjarins í Reykjavík. Framkvæmdirnar og síðar ráðhúsið, verði það byggt, hljóta að þrengja að dýralífi Tjarnarinnar og náttúru og spilla þeim einstæðu þjóðminjum sem Reykjavíkurtjörn er, en hún er tjörn fyrsta landnámsmanns Íslendinga. Stórbygging í Tjörninni, sem ráðgert ráðhús
er, hlýtur að takmarka möguleika Alþingis til að byggja yfir starfsemi sína sem er brýnt og margt fleira kemur til.
    Það versta við ráðgerða byggingu ráðhúss er þó lögbrotin sem virðast vera framin með þessari framkvæmd. Þau yfirskyggja allt annað. Hver er framtíð þeirrar þjóðar, þess löggjafarþings er lætur yfir sig ganga að gróflega séu brotin lög á því? Hversu langan tíma tekur að byggja upp traust á lögum og rétti komi til þess að brotið verði gróflega gegn lögum og réttindum Alþingis og minnisvarðinn um lögbrotin og valdníðsluna standi rétt sunnan við Alþingishúsið sjálft? Hér eru höfð uppi stór orð og hef ég þó ekki haft tækifæri til að kanna gögn nema takmarkað.
    Skal nú vikið að nokkrum atriðum í greinargerð

Dagnýjar Helgadóttur og Guðna Pálssonar arkitekta frá 17. nóv. 1986. Fyrir skipulagstillögu þeirra um Kvosina segir um afmörkun Kvosarsvæðisins:
    Svæðið sem unnið hefur verið með afmarkast af Geirsgötu að norðan ásamt athugun á hafnarsvæðinu, Lækjargötu að austan, lóðunum vestan Aðalstrætis að vestan, Tjörninni að sunnan. --- Ég hef það fyrir satt að þessir skipulagsarkitektar hafi ekki vitað fyrr en eftir að vinnu þeirra við skipulagsuppdrátt Kvosarinnar var sem næst lokið að ráðhús Reykjavíkur ætti að rísa við norðurenda Tjarnarinnar.
    Það er um þennan uppdrátt sem bréf borgarstjórans í Reykjavík, Davíðs Oddssonar frá 2. okt. 1987, til borgarskipulags er, en í því segir:
    Á fundi borgarstjórnar í gær var til afgreiðslu 30. liður fundargerðar borgarráðs frá 28. fyrra mánaðar, deiliskipulag miðbæjarins. Borgarstjórn samþykkti skipulagstillöguna og er borgarskipulagi falið að ganga frá gögnum ásamt drögum að erindi til skipulagsstjórnar varðandi staðsetningu skipulagsins.
    Seinna í sama mánuði, þ.e. 27. okt. 1987, skrifar borgarstjórinn í Reykjavík aftur, að þessu sinni skipulagsstjórn ríkisins. Í því bréfi segir, með leyfi forseta:
    Skipulagsstjórn ríkisins hefur til afgreiðslu deiliskipulagstillögu að miðbæ Reykjavíkur sem borgarstjórn samþykkti 1. okt. sl. Þess er farið á leit að skipulagsstjórn hlutist til um að afstöðumynd væntanlegs ráðhúss Reykjavíkur verði sýnt á skipulagsuppdrættinum. Ráðhúsið mun rísa á lóðunum nr. 11 við Tjarnargötu og nr. 11 við Vonarstræti og hefur borgarstjórn samþykkt að byggt verði eftir þessari tillögu sem hlaut 1. verðlaun um samkeppni um ráðhús Reykjavíkur. Ráðhúsið verður tvær samtengdar byggingar, 2--3 hæðir. Samanlagt byggingarmagn verður um 4600 fermetrar og um 14 þús. rúmmetrar auk bifreiðageymslu á þremur hæðum í kjallara. Á uppdrætti sem fylgdi skipulagstillögunni þegar hún var auglýst var byggingarreiturinn sýndur og í greinargerð með tillögunni er tekið fram að byggingarmagn og hæð ráðhússins liggi ekki fyrir fyrr en að afstaðinni samkeppni.
    Ég nefni þetta sérstaklega því að mér virðist vinnubrögð óvönduð og lögbrot að færa ráðgert ráðhús inn á skipulagsuppdrátt sem búið er að kynna, auglýsa og staðfesta í borgarstjórn Reykjavíkur. Og það er skipulagsstjórn ríkisins sem er beðin um að vinna verkið sem átti að liggja fyrir í upphafi. Auðvitað var ekki samstaða í skipulagsstjórninni um þessa afgreiðslu. Meiri hlutinn samþykkti þó að staðfesta skipulagið.
    Annað sem ég vil nefna og tel að sé ekki í samræmi við lög er framkvæmd kynningar og staðfestingar nýja Kvosarskipulagsins. Ekki liggur fyrir að gerð hafi verið í upphafi sérstök ályktun borgarstjórnar Reykjavíkur um endurbyggingu þess byggingarreits sem Kvosarskipulagið tekur til skv. 1. mgr. 23. gr. skipulagslaga nr. 19/1964 og heldur ekki að eigendum og umráðamönnum fasteigna á svæðinu hafi verið tilkynnt skriflega um hana samkvæmt

ákvæðum 2. gr. 23. gr. skiplulagslaganna. Bréf byggingarfulltrúans í Reykjavík til Alþingis, dags. 25. febr. 1988, getur ekki verið slík skrifleg tilkynning. Dagsetning bréfsins bendir ekki til þess --- heldur ekki miðað við fskj. II með þáltill. Það bréf á auk þess heldur ekki við t.d. Alþingishúsið sjálft, húseignir Alþingis við Kirkjustræti og Þórshamar. Þá væri fróðlegt að vita hvort forráðamenn húsa við Kvosarreitinn, svo sem Menntaskólahússins gamla, Stjórnarráðshússins, Dómkirkjunnar og Landsbankahússins, hafi fengið skriflega tilkynningu skv. 2. mgr. 23. gr. skipulagslaga og hver svör þeirra hafi verið. Önnur atriði sem VI. kafli skipulagslaganna kveður á um í sambandi við framkvæmd eldra skipulags virðist einnig vanta.
    Hvenær var haldinn að tilhlutun borgarstjórnar Reykjavíkur sameiginlegur fundur eigenda fasteigna á Kvosarreitnum skv. 4. mgr. 23. gr. skipulagslaganna? Hefur farið fram mat á eignum og hefur verið stofnað félag um endurbyggingu Kvosarreitsins eins og kveðið er á um í VI. kafla skipulagslaganna? Ekkert af þessu hefur átt sér stað svo að mér sé kunnugt um. Til þessa hefur verið byrjað á tveimur húsum, byggðum í samræmi við nýja Kvosarskipulagið, ráðgert ráðhús og Aðalstræti 8. Hafa framkvæmdir verið stöðvaðar við Aðalstræti 8 að tilhlutun nágranna og einnig er vitað um mikla andstöðu við byggingu ráðgerðs ráðhúss meðal nágranna þess. Ekki er í mínum
huga vafamál að Reykjavíkurtjörn er merkar náttúruminjar samkvæmt ákvörðun 1. mgr. 29. gr. laga nr. 47 frá 1971, um náttúruvernd, og svo er um marga fleiri. Það er heldur ekki vafamál að ráðgert ráðhús breytir svip Tjarnarinnar varanlega rísi það. Þess vegna er spurt: Hefur Náttúruverndarráð samþykkt þessar framkvæmdir og hvað hefur menntmrn. sagt, en það fer með yfirstjórn náttúruverndarmála? Þjóðminjalög nr. 52/1969 miða að því að vernda þjóðminjar Íslendinga. Reykjavíkurtjörn er tjörn fyrsta landnámsmannsins og einstakt að þjóð eigi slíkar þjóðminjar. Er því ástæða til að spyrja: Liggur fyrir samþykkt þjóðminjayfirvalda á byggingu ráðgerðs ráðhúss í Reykjavíkurtjörn? Hafi samþykktin verið veitt, hafa þá ekki orðið þar mistök?
    Í byggingarreglugerð nr. 292/1979, III. kafla, um byggingarleyfi, gr. 3 1.2, segir:
    ,,Ekki geta aðrir lagt fram umsókn en eigandi, lóðarhafi eða fullgildur umboðsmaður hans og skal hann undirrita umsóknina eigin hendi.`` Í bréfi borgarfógetaembættisins í Reykjavík, dags. 4. nóv. 1987, sem ég hef hér ljósrit af, segir:
    ,,Varðandi fyrirspurn í bréfi þínu dags. í dag um skráðar eignarheimildir um Reykjavíkurtjörn skal hér með upplýst að ekki er vitað til þess að slíkar heimildir sé að finna hér við embættið.``
    Hvernig var þetta atriði leyst í sambandi við ráðgert ráðhús? Það liggur ekki fyrir, enda treysti félmrn. sér ekki til að taka afstöðu til þess hver ætti byggingarsvæðið. Félmrn. benti á að það yrði að fara dómsleiðina í því máli. En undrun sætir að félmrn. skyldi treysta sér til að staðfesta byggingarleyfi með

vísun til greinds ákvæðis byggingarreglugerðarinnar og yfirlýsingar borgarfógetaembættisins.
    Þá þarf að athuga af sérfræðingum hver grenndarréttur fasteigna Alþingis er, ekki aðeins lóðanna að Vonarstræti 12, Tjarnargötu 5a og nr. 10 að hluta og 10b við Vonarstræti sem spurt var um í bréfi byggingarfulltrúans í Reykjavík, heldur einnig annarra eigna, svo sem Alþingishússins sjálfs.
    Ég hef nú rakið nokkur atriði sem tengjast byggingu ráðgerðs ráðhúss og ég tel að brjóti gegn lögum og rétti Alþingis. Það er mögulegt að ég hafi rangt fyrir mér í einhverjum þessara atriða, en ég tel hafið yfir allan vafa að ég á sem alþm. rétt á að fá allar upplýsingar og gögn um byggingu ráðgerðs ráðhúss. Ég tel einnig rétt, þar sem um er að ræða mikilsverð mál Alþingis, að fengnir verði sérfróðir menn, lögfræðingar og menn sérfróðir um skipulag, til þess að kanna þessi mál og gefa Alþingi skýrslu um þau. Að sjálfsögðu er eðlilegt að fá gögn og greinargerðir frá borgarstjórn Reykjavíkur sem hún vill láta af hendi. Að þessu markmiði miðar þáltill.
    Virðulegi forseti. Margt er hér eftir sem ég hefði viljað taka fram en ég mun reyna að koma fram með í síðari ræðu minni og vil ég ekki níðast á velvilja virðulegs forseta.