Bygging ráðhúss í Reykjavíkurtjörn
Mánudaginn 31. október 1988

     Guðmundur H. Garðarsson:
    Virðulegi forseti. Ég var farinn að hafa nokkrar áhyggjur af því að ég gæti ekki tekið undir neitt í ræðu hv. þm. Ásgeirs Hannesar Eiríkssonar. Mér fannst þar stefna í þá átt, a.m.k. um tíma í ræðu hans. En mér er sönn ánægja að því að ég get tekið undir það sem hv. þm. sagði réttilega að till. hv. þm. Stefáns Valgeirssonar muni þjappa Reykvíkingum saman um byggingu ráðhúss Reykjavíkur og styrkja stöðu þess manns sem hefur haft forustu í þeim efnum, sem er borgarstjóri Reykjavíkur, Davíð Oddsson. Hann mun hafa sóma af því að hafa tekið af skarið um það að höfuðborgin þyrfti og yrði að eignast ráðhús þó nokkur ágreiningur hafi orðið um það eins og að líkum lætur þegar ráðist er í eitthvað sem horfir til framtíðarinnar.
    Ég vil, virðulegi forseti, ræða nokkuð um þessa þáltill. og ræðu flm. hennar, hv. þm. Stefáns Valgeirssonar 6. þm. Norðurl. e. Ræða hv. þm. var ekki góð og er þá vægt til orða tekið. Ræðan, eins og þáltill., felur í sér ákveðna og mjög mikla óvild í garð Reykvíkinga. Skoðun hv. þm. er greinilega sú að Reykvíkingar megi ekki ráða því sjálfir hvort þeir byggja ráðhús og þá hvernig. Og það sem er alvarlegra er það að hv. þm. vill beita valdi Alþingis gegn hagsmunum Reykvíkinga. Hv. þm. vill beita valdi Alþingis gegn löglegum ákvörðunum sem þetta sveitarfélag, sem er Reykjavíkurborg, hefur tekið í þessu efni.
    Hv. þm. Stefán Valgeirsson vill ónýta lögmætar ákvarðanir borgarstjórnar Reykjavíkur og koma í veg fyrir löglegar framkvæmdir. Það þýðir ekki fyrir hv. þm. að mótmæla því eða neita að borgarstjórn Reykjavíkur hefur ákveðið að reisa ráðhús. Um það var nokkur ágreiningur en sú ákvörðun var tekin með lögmætum hætti og framkvæmd í samræmi við það. Því er þessi þáltill. furðulegt plagg --- nema hún sé hluti af einhverju samkomulagi á bak við tjöldin hjá stjórnarflokkunum. En því vil ég ekki trúa að óreyndu enda mun það væntanlega koma fram síðar hér í þessum umræðum. En þessi þáltill. er þvílíkt einsdæmi í sögu Alþingis að það er ekki hægt að sitja aðgerðarlaus hjá og hlusta á það sem þar hefur verið sagt í sambandi við till. og án þess að fjalla um efni hennar.
    Ákveðin atriði í till. og grg. eru svo ólýðræðisleg í eðli sínu að það vekur mikla furðu að hv. þm. skuli leyfa sér að leggja þetta plagg fyrir þessa virðulegu stofnun, Alþingi Íslendinga. Með leyfi forseta vil ég vekja athygli á eftirfarandi atriðum. Í sjálfri þáltill. segir m.a.: ,,Dugi tilmæli Alþingis ekki til að stöðva framkvæmdir borgarstjórnar Reykjavíkurborgar í Reykjavíkurtjörn til bráðabirgða skal forsetum Alþingis falið að láta vinna að því fyrir dómstólum að stöðva framkvæmdir þar til ótvírætt liggur fyrir að framkvæmdirnar séu lögmætar.``
    Ég veit ekki til þess að plagg svipaðs eðlis hafi verið lagt fyrir hv. Alþingi, þar sem dómstólum er stefnt á sveitarfélag með þeim hætti sem þáltill. gerir ráð fyrir. Enn fremur segir, með leyfi forseta, í grg.

með till.:
    ,,Flm. vill að lokum bæta því við, þótt það sé ekki höfuðatriði málsins hver hans skoðun er, að ýmis atriði benda til þess að ekki hafi verið réttilega og löglega að málum staðið í sambandi við samþykkt Kvosarskipulags og ráðgerða byggingu ráðhúss; margt er óljóst sem lög kveða á um og tengist þessu.``
    Í þessu felast miklar aðdróttanir. Ekki bara gagnvart borgarstjórn Reykjavíkur, heldur ekki síður gagnvart hæstv. félmrh. sem er sem betur fer mætt hér í salnum. Hæstv. félmrh. hefur veitt tilskilin leyfi til þess að þessi bygging gæti risið. Hvað er hv. þm. Stefán Valgeirsson að fara? Hver er staða einstaklinga eða sveitarfélaga ef alþm. ætla að viðhafa svona vinnubrögð, eins og fram kemur í þessari þáltill. og grg. með henni?
    Ég mótmæli því fyrir hönd Reykvíkinga og ég mótmæli því fyrir hönd sjálfstæðra sveitarfélaga að till. sem þessi skuli lögð fyrir Alþingi og alþm. beðnir um að taka afstöðu með henni. Þetta er ólýðræðisleg till. og er Alþingi til vansæmdar. Þetta er tilræði við sjálfstæði sveitarfélags, þetta er tilræði við Reykjavíkurborg og Reykvíkinga og því mótmæli ég harðlega. Ég mótmæli því einnig að alvarlegar aðdróttanir eru hafðar uppi um það að meiri hluti borgarstjórnar Reykjavíkur hafi ekki breytt samkvæmt lögum og reglum við undirbúning að byggingu ráðhúss Reykjavíkur. Þetta er auðvitað út í hött. Ég vil endurtaka það enn einu sinni að allar ákvarðanir borgarstjórnar Reykjavíkur eru lögmætar. Það vita allir hv. þm. Þess vegna er þessi þáltill. út í bláinn og varla umræðuhæf.
    En vegna þess hvaða hv. þm. er flm. þessarar till. nú, þ.e. helsti stuðningsmaður núv. ríkisstjórnar, guðfaðir ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar, þá tel ég nauðsynlegt að hæstv. félmrh. Jóhanna Sigurðardóttir geri hv. þm. Stefáni Valgeirssyni grein fyrir því hér á hv. Alþingi að ráðherra hafi í samræmi við lög og reglur farið yfir öll atriði varðandi byggingu ráðhússins og veitt tilskilin leyfi. Ég óska þess hér með og krefst þess að hæstv. félmrh. lýsi hér á Alþingi yfir lögmæti þessara framkvæmda og
að öll tilskilin byggingarleyfi séu fyrir hendi. Þar með hefur þessi þáltill. fengið maklega afgreiðslu og verið dæmd dauð og ómerk.
    Að lokum, virðulegi forseti, þessi þáltill. er einstakt tilræði við sjálfstæði sveitarfélags. Þetta er einstakt tilræði við hagsmuni Reykjavíkur og það verður ekki liðið. Ég treysti því þess vegna að hv. alþm. felli þessa till. Það væri smán fyrir hv. Alþingi ef einhverjir alþm. styddu þessa ómerkilegu þáltill.