Bygging ráðhúss í Reykjavíkurtjörn
Mánudaginn 31. október 1988

     Geir H. Haarde:
    Virðulegi forseti. Furðuleg er þáltill. sem hér er til umræðu en enn furðulegri var ræða hv. síðasta ræðumanns. Það verð ég að segja. Það er allt í einu orðið tilefni til þess að flytja Alþingi austur á land að löglega kjörin yfirvöld í Reykjavíkurborg hafa ákveðið að reisa ráðhús. Það er nú hvorki meira né minna. Sem betur fer er ofstæki af þessu tagi sjaldgæft hér í þingsölum og verður vonandi ekki fyrirmynd annarra í þessum umræðum, en þetta er allt dálítið kyndugur málflutningur hjá hv. síðasta ræðumanni með tilliti til þess að hann var að brigsla hv. 14. þm. Reykv. um svigurmæli í umræðunum.
    Þessi till. er öll hin furðulegasta, eins og ég sagði. Raunar er ástæðulaust að láta það koma sér á óvart með tilliti til þess hver flytur till. En staðreyndin er auðvitað sú að hv. flm. er að gelta hér upp í vitlaust tré með þessari till. Það er búið að kæra bókstaflega allt sem hægt er að kæra í sambandi við þetta mál og það er búið að úrskurða í öllum þeim kærum. Þess vegna er fráleitt að leggja það til við Alþingi að það athugi lagalegt réttmæti þessarar byggingar. Það er margbúið að því og, eins og hæstv. félmrh. lét getið um hér áðan, þá liggur sá úrskurður félmrn. fyrir. Það er ekkert athugavert við þetta byggingarleyfi.
    Ef hv. þm. Stefán Valgeirsson vill koma í veg fyrir þessa byggingu, sem hann greinilega vill, þá er auðvitað hreinlegast fyrir hann annaðhvort að fara með þetta mál fyrir dómstóla, eins og félmrh. hefur bent á að er rétta leiðin, eða gera það sem væri nú kannski enn hreinlegra og sennilega enn meira í takt við hugsunarhátt hv. þm., þ.e. að flytja lagafrv. um að banna Reykvíkingum að byggja ráðhús. Það er það sem vakir fyrir honum. Því kemur hann ekki með slíkt frv.?
    Nei, virðulegi forseti, ég mælist til þess að hv. þm. sjái Reykvíkinga í friði með þetta mál, sjái rétt kjörin yfirvöld í Reykjavík, sem hafa tekið löglega ákvörðun um þetta mál, í friði og abbist ekki upp á þessa framkvæmd sem reist verður fyrir reikning útsvarsgreiðenda í Reykjavík eins og allir vita. Það hefur engum stríðshanska verið kastað í þessu máli eins og hv. þm. Hjörleifur Guttormsson sagði, það er af og frá, og allur þessi málatilbúnaður er þeim til vansa sem að honum standa, eins og hv. 14. þm. Reykv. hefur þegar réttilega sagt.