Efnahagsaðgerðir
Þriðjudaginn 01. nóvember 1988

     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Herra forseti. Hv. 2. þm. Norðurl. e. beindi til mín spurningum áðan í þeirri glöggu og yfirgripsmiklu ræðu sem hann flutti og afskaplega fróðlegu, nýstárlegu, sérstaklega frá hv. þm., og hefði verið gaman ef hann hefði lesið þennan lestur yfir síðustu stjórn. Það gerði hann einhverra hluta vegna ekki, en hann spurði mig um virðisaukaskattinn sérstaklega. Að því er hann varðar, þá hefur verið ákveðið í ríkisstjórninni að virðisaukaskatturinn komi ekki til framkvæmda á miðju næsta ári. Að öðru leyti hefur þetta mál ekki verið rætt í núverandi ríkisstjórn.