Efnahagsaðgerðir
Þriðjudaginn 01. nóvember 1988

     Halldór Blöndal:
    Herra forseti. Það vekur athygli varðandi fsp. mína varðandi virðisaukaskattinn að hæstv. menntmrh. Svavar Gestsson sagði að virðisaukaskattur kæmi ekki til framkvæmda 1. júlí, en að öðru leyti hefði málið ekki verið rætt í ríkisstjórninni, en hæstv. forsrh. tók undir hans mál. Hins vegar stendur í því fjárlagafrv. sem lagt var fram í dag að miðað væri við að gildistöku laganna yrði frestað til 1. jan. 1990. Það vekur margar spurningar að hæstv. fjmrh. skuli setja þessa setningu inn án þess að bera undir forsrh. eða menntmrh. Er af þeim sökum bagalegt að hann skuli ekki vera hér í þingsalnum til þess að svara spurningum sem vakna af þessu tilefni. Ég vil samt sem áður ítreka og nú spyr ég hæstv. forsrh. í trausti þess að hæstv. fjmrh. hafi ekki skrifað þessi orð í fjárlagafrv. á bak við hæstv. forsrh.: Er það ætlunin að virðisaukaskatturinn 1. jan. 1990 verði eins þreps skattur eða tveggja þrepa skattur? Mér finnst ekki óeðlilegt þó að þessi spurning komi fram og því fremur sem hvorugur ráðherranna fékkst til þess að svara spurningunni hér fyrr í dag.
    Í öðru lagi minni ég á að fsp. mínar til hæstv. menntmrh. um afstöðu Alþb. til varaflugvallar og álverksmiðju hafa komið þannig við hann að hann kýs að þegja. Kannski að það sé merki um það að hann ætli að gleypa hvort tveggja og er hann þá kokvíðari en ég hélt satt að segja að hann væri.
    Mér þykir merkilegt og þakka hæstv. forsrh. fyrir þær upplýsingar að Framsfl. hafi viljað breyta skiptakjörum sjómanna. Það var mjög nauðsynlegt að fá þetta innlegg í umræðurnar því auðvitað er ekki hægt að lækka kjör sjómanna almennt með niðurfærsluleið án þess að hreyfa við skiptakjörum bæði varðandi frystitogarana, þá sem selja á innlendum markaði, íslenskum fiskmarkaði og víðar. Ég ítreka því enn fsp. mína til hv. 3. þm. Vestf., og enn fremur til hv. 9. þm. Reykn. Karls Steinars Guðnasonar, hvort Alþfl. hafi verið sammála því að breyta skiptakjörum sjómanna. Formenn beggja þessara stjórnmálaflokka, bæði Jón Baldvin Hannibalsson og Steingrímur Hermannsson, hafa í sjónvarpsþáttum og víðar látið það flakka að þeir hafi verið reiðubúnir til þess að standa sameiginlega að niðurfærsluleiðinni og ég vil vænta þess að formaður Alþfl. hafi vitað hvaða hug formaður Framsfl. bar til sjómannastéttarinnar. Þess vegna er nauðsynlegt að báðir þessir þm. upplýsi hvort þeir hafi gengið inn á það með Framsfl. að skiptakjörum sjómanna yrði breytt. Ég held að fyrir alla umræðu í landinu sé nauðsynlegt að þetta komi fram til þess að menn viti hvort þessir tveir flokkar stóðu saman að því að vilja fara niðurfærsluleið.
    Hæstv. forsrh. sagði að það væri misskilningur sem ég sagði um það, að það að Sjálfstfl. féllst ekki á niðurfærsluleiðina hefði valdið stjórnarslitunum að hans mati. Í ræðu hans segir orðrétt, með leyfi hæstv. forseta, um þetta. ( Forseti: Hv. þm. er að gera stutta athugasemd.) Ég er að leiðrétta það sem hæstv. forsrh. sagði rangt. Um það snýst mín athugasemd: ,,Upp úr því stjórnarsamstarfi slitnaði vegna þess einfaldlega að

við náðum ekki samkomulagi um þessa leið.`` Þetta eru orðrétt ummæli hæstv. forsrh.
    Ég vek athygli á því að hæstv. forsrh. er fallinn frá þeirri gengisstefnu sem hann hafði á fyrsta blaðamannafundi eftir að ríkisstjórnin var mynduð. Það er mjög eftirtektarvert. Ég vil líka vekja athygli á því, sem hæstv. forsrh. staðfesti, að Atvinnutryggingarsjóðurinn hefur ekki ríkisábyrgð umfram þá 2 milljarða kr. sem ég var reyndar búinn að tala um áður. Það sýnir auðvitað að baktryggingin sem lofað er í lögunum, 5 milljarðar kr., er einungis mórölsk ábyrgð en ekki fjármálaleg ábyrgð.
    Að síðustu vil ég, herra forseti, þakka fyrir umburðarlyndi í minn garð. En hlýt að lokum að spyrja hæstv. forsrh., vegna hans ummæla, hvernig hann hugsi sér að snúast við tregðu Seðlabankans sem mér skilst að komi í veg fyrir það að vaxtastefna ríkisstjórnarinnar nái fram að ganga. Það nær auðvitað ekki nokkurri átt að Seðlabankinn skuli með því sem hæstv. ráðherra kallar tregða koma í veg fyrir að vaxtastefna ríkisstjórnarinnar gangi fram.
    Að síðustu lýsi ég mig gjörsamlega ósammála þeim ummælum hæstv. forsrh. sem hann gaf hér áðan í skyn að gengisfellingar í gegnum sögu okkar hefðu aðeins dugað um nokkurra mánaða skeið eða tvær til þrjár vikur eða eitthvað þvílíkt. Það hefur ekki verið svo að menn hafi þurft að leiðrétta gengi svo ört í gegnum tíðina. En á hinn bóginn hefur löngum verið skilningur á því í Stjórnarráðinu að við gætum ekki haldið uppi sjávarútvegi hér á landi né grynnkað á erlendum skuldum öðruvísi en þannig að gengi krónunnar væri í samræmi við getu útflutningsatvinnuveganna. Ég bið forláts verð ég víst að segja vegna þess hversu ég hef níðst á þolinmæði hæstv. forseta.
    Ég vil að síðustu aðeins segja að ég sakna þess að hv. 4. þm. Vesturl. hafði ekki tækifæri til að hlusta á hin lofsamlegu orð sem hv. 4. þm. Vestf. hafði um hann hér áðan. ( EgJ: Hann les þau.)