Verðbréfaviðskipti
Þriðjudaginn 01. nóvember 1988

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Herra forseti. Þær umræður sem fram hafa farið hér í þingdeildinni um frv. til laga um verðbréfafyrirtæki og verðbréfasjóði hafa verið mjög gagnlegar. Af yfirlýsingum stjórnarandstæðinga flestra ef ekki allra virðist mér mega marka að í meginatriðum njóti frv. stuðnings yfirgnæfandi meiri hluta þm. Ég fagna sérstaklega eindreginni stuðningsyfirlýsingu fulltrúa Kvennalistans, hv. 10. þm. Reykn.
    Hér er um mjög viðamikið frv. að ræða og það er auðvitað rétt að það þarf að fá ítarlega umfjöllun í þinginu. Ég geri mér samt vonir um það að sá almenni stuðningur sem frv. virðist njóta tryggi því skjóta og örugga afgreiðslu því það er eins og ég sagði í framsöguræðu minni afar brýnt að settar verði öruggar og sanngjarnar reglur um verðbréfafyrirtæki og verðbréfasjóði, m.a. til þess að efla sparnað sem fer fram á þessum vettvangi.
    Hv. 1. þm. Reykv. hélt hér alllanga ræðu daginn sem ég mælti fyrir frv. Sú ræða snerist þó að minnstu leyti um frv. sjálft heldur mestan part um aðra hluti, þar á meðal um bankakerfið, um vexti og lánskjaravísitölu og um hlutabréfamarkað. Þetta eru allt mikilvæg mál, en snerta aðeins að litlu leyti það frv. sem hér er til meðferðar. Þannig ætla ég ekki að fjalla ítarlega um þessi mikilvægu málefni í þetta sinn, en ætla þó aðeins að drepa á sumt af því sem kom fram í máli hv. 1. þm. Reykv. Það er auðvitað alveg rétt hjá þm. að ríkisbankarnir bera höfuð og herðar yfir aðrar íslenskar fjármálastofnanir.
    Ég hef ekki farið dult með þá skoðun mína að ég telji brýnt að ráðast í róttæka endurskipulagningu á íslenska bankakerfinu, m.a. í þá átt að draga úr afskiptum ríkisvaldsins af bankarekstri, en, og það er mikilvægast, að sameina og styrkja þær stofnanir sem eiga að þjóna atvinnulífinu sem viðskiptabankar og miðla sparifé landsmanna til þeirra sem fjárfesta og nýta féð í arðbærum atvinnurekstri. En það dugir ekki bara að tala um þetta. Ég minni hv. 1. þm. Reykv. og varaformann Sjálfstfl. á að í hans eigin flokki virðast vera mjög skiptar skoðanir á þessu máli þegar á hólminn er komið. Þaðan var því miður lítils atfylgis að vænta þegar til kastanna kom. Þetta sannaðist t.d. í síðustu ríkisstjórn þegar rætt var um að breyta t.d. öðrum ríkisbankanna í hlutafélag og selja hlutina í Útvegsbankanum.
    Svipuðu máli virðist gegna um stefnuna í vaxtamálum. Mér virðist að afar erfitt muni vera að samræma og samrýma skoðanir hv. 3. þm. Suðurl. og skoðanir hv. 1. þm. Reykv. í vaxtamálum. Það má vel vera að það sé hægt innan þingflokks Sjálfstfl. að brúa þetta bil, en ef marka má þær ræður sem fluttar hafa verið í þessari umræðu þá virtist mér sem mennirnir væru ekki alveg sammála.
    Ég ætla mér ekki að blanda mér í deilur um það sem kalla mætti ættfræði hugmyndanna um breytingar á lánskjaravísitölunni, en tvennt get ég fullyrt: Annars vegar að tillagan sem á endanum tókst um samkomulag í stjórnarmyndunarviðræðunum í

september kom ekki frá Alþfl. Hins vegar minni ég á að þáv. forsrh., 1. þm. Suðurl., lagði í september sl. fram tillögu sem gengur mjög í átt við það sem niðurstaðan varð hjá núv. ríkisstjórn. Tillaga hv. 1. þm. Suðurl. gerði að vísu ráð fyrir að vægi framfærsluvísitölu yrði 1 / 3 , vægi byggingarvísitölu 1 / 3 og vægi launavísitölu, allar skilgreindar á sama hátt og niðurstaða varð um hjá núverandi stjórnarflokkum, 1 / 3 . Ég fullyrði að í eðli sínu er þessi tillaga nánast hin sama og sú sem nú er stefnt að. Breytingar þessara vísitalna yrðu mjög ámóta og áhrifin af þeim líka. Ég ætla ekki að gera þarna upp á milli. Ég segi þetta ósköp blátt áfram. Svona var þetta.
    Það liggur í augum uppi að það er ákaflega brýnt að fá botn í þetta mál. Seðlabankanum var falið það sama daginn og stjórnin var mynduð að framkvæma breytingar á lánskjaravísitölunni í samræmi við samþykkt ríkisstjórnarinnar sem hefur það markmið að draga úr hættunni á misgengi lánskjara og launa. Stjórn Seðlabankans hefur enn ekki svarað, en hefur tilkynnt að hún muni gera það á næstu dögum. Ég tel að frekari umræða um lánskjaravísitöluna sé best geymd þar til álit og tillögur Seðlabankans hafa borist og verið ræddar af ríkisstjórninni. Þetta á líka við þau orð sem hv. 3. þm. Suðurl. lét falla um þetta efni. Þetta segi ég af því að ég tel að það sé ákaflega óskynsamlegt að efna nú til kappræðna og deilna um svo mikilvægt hagsmunamál almennings og almannasjóða. Þegar ábyrgir stjórnmálaflokkar, allir sem í landinu starfa, hafa lagt fram eðlislíkar tillögur um þetta mál, þá virðist mér nokkuð öruggt að þingfylgi sé fyrir þeim breytingum sem þarna er verið að stefna að. Um þær má svo deila eins og önnur mannanna verk, en þetta bið ég þingheim að hafa í huga þegar menn standa hér upp til þess að fjalla um þetta mál.
    Þá kem ég að hlutabréfamarkaðinum og þeim orðum sem hv. 1. þm. Reykv. lét falla um þau málefni. Auðvitað er nauðsynlegt að efla hér markað fyrir hlutabréf. Ég er sammála hv. þm. um það. Það þarf að setja hér lög og reglur sem gera hlutabréfaeign að fýsilegum sparnaðarkosti við hlið annarra. Hér er fyrst og fremst um það að ræða að samræma skattmeðferð eigna- og fjármagnstekna innbyrðis og reyndar að samræma hana skattlagningu annarra
tekna. Ég minni á að það gerðist nákvæmlega ekkert marktækt í þessu máli þann tíma sem Sjálfstfl. fór með fjmrn. heilt kjörtímabil á árunum 1983--1987. Vafalaust hafa verið á því skýringar, en í tíð síðustu ríkisstjórnar var unnið að undirbúningi þessa máls. Því miður tókst ekki að koma því fram. En ég vek athygli á því að það frv. sem við ræðum hér í dag, frv. um verðbréfafyrirtæki og verðbréfasjóði, er einmitt samið með tilliti til þess að senn verði ráðist í það að koma hér á laggirnar hlutabréfamarkaði og það gerir beinlínis ráð fyrir því að sjóðirnir hafi innan sinna vébanda hlutabréf.
    Það er greinilegt að hv. 1. þm. Reykv. hefur um þessar mundir miklar áhyggjur af innlendum sparnaði. Það er virðingarvert. Hann hefur m.a. lagt hér fram í

þinginu þáltill. um að fela ríkisstjórninni að gera átak til eflingar frjálsum sparnaði. Um þetta er ekkert nema gott að segja. Frv. um verðbréfafyrirtæki og verðbréfasjóði er einmitt flutt til þess að eyða óvissu um lagaramma þessarar starfsemi og þar með að tryggja hag sparifjáreigenda sem kjósa að ávaxta sinn sparnað á þessum vettvangi. Þar með fellur það í sömu átt og ósk hv. 1. þm. Reykv., sú að stjórnin beiti sér fyrir því að menn spari meira. Frv. er því tvímælalaust liður í því að efla innlendan sparnað. Ég vil þó minna á í því sambandi að til þess að efla innlendan sparnað skiptir nú langmestu máli að koma á jöfnuði í ríkisfjármálunum.
    Ég ætla þá að koma að eina efnisatriðinu í ræðu hv. 1. þm. Reykv. sem beinlínis varðar frv. sem við ræðum hér í dag, en það varðar 30. gr. frv. þar sem eru ákvæði um það að ráðherra geti heimilað Seðlabankanum að láta sömu reglur gilda um verðbréfafyrirtæki og verðbréfasjóði að því er varðar bundið fé og settar eru á innlánsstofnanir. Eins og ég rakti í framsögu minni er þessi grein í frv. þar inn sett fyrir mitt tilstilli. Um hana náðist ekki samkomulag í nefndinni sem að öðru leyti samdi frv. Ég ætla ekki að endurtaka nú rökstuðning minn fyrir nauðsyn þess að hafa slíkt ákvæði í lögum um verðbréfafyrirtæki og verðbréfasjóði. Það er þarna fyrst og fremst, eins og ég sagði þá, sem stíflugarður til þess að koma í veg fyrir að þarna þróist viðskipti sem séu eðlisskyld viðskiptabanka- og sparisjóðarekstri þótt þau hafi annað form. En efasemdum hv. þm. um að slík ákvæði séu í lögum okkar nágrannalanda vísa ég á bug því að samkvæmt öruggum heimildum frá Efnahagssamvinnu- og framfarastofnun Evrópu hafa slík ákvæði um árabil verið í lögum í Bretlandi, Frakklandi, Japan og Vestur-Þýskalandi. Ég hef ekki beinar upplýsingar um beitingu þessara ákvæða, en hins vegar jafntrausta heimild fyrir því að slík ákvæði séu í lögum eins og unnt er að hafa. Kann að vera að þessi ákvæði séu einmitt í löggjöf þessara landa sömu náttúru og það ákvæði sem ég geri tillögu um, nefnilega eins konar varnargarðar. Ég ætla ekki að fullyrða um þetta, en varpa því hér fram til umhugsunar.
    Ég legg ríka áherslu á það að í frv. sé um heimildarákvæði að ræða sem ekki yrði beitt nema svo færi að verðbréfafyrirtæki eða verðbréfasjóðir færi starfsemi sína inn á svið innlánsstofnananna. Svo er ekki nú í aðalatriðum. Að vísu var eitt fyrirtæki sem nú er horfið af vettvangi með starfsemi sem jaðraði við þetta og ég vil að það sé alveg fyrir það girt að slíkt geti komið fyrir.
    Ég er hins vegar ekki samþykkur brtt. hv. 6. þm. Norðurl. e. Stefáns Valgeirssonar en hann vill að bindiskyldan gildi undantekningarlaust um verðbréfafyrirtæki og verðbréfasjóði og að sömu reglur gildi um bundið fé eins og gilda um þær stofnanir. Þetta tel ég of langt gengið og það tekur ekki tillit til þess að starfsemi verðbréfafyrirtækja og verðbréfasjóða er ólík hefðbundinni starfsemi innlánsstofnana, sérstaklega að því leyti að yfirleitt er fjármagn

verðbréfasjóðanna langtímasparnaður en ekki veltufé eins og víðast er um innstæður í bönkum og sparisjóðum.
    Hv. 6. þm. Norðurl. e. gerir einnig brtt. við 2. gr. frv. sem lýtur að upplýsingaöflun um viðskiptavini verðbréfafyrirtækjanna, m.a. með nafnskráningu og ýmiss konar upplýsingasöfnun. Hann hefur lagt fram sérstaka brtt. á þskj. um þetta mál. Hér er hreyft máli sem á er tekið í málefnasamningi ríkisstjórnarinnar þar sem talað er um að settar verði reglur um almenna nafnskráningu fjárskuldbindinga. Ég er hins vegar ekki viss um að þau ákvæði, sem hv. 6. þm. Norðurl. e. gerir tillögu um, eigi heima í þessari löggjöf um verðbréfafyrirtæki og verðbréfasjóði. Mér finnst að slík ákvæði kynnu betur að fara í almennri löggjöf. Þar á ég við skattalög, lög um Seðlabanka, lög um almenna starfsemi á fjármagnsmarkaði, fremur en að binda þetta eingöngu við þessar nýju stofnanir. Þetta mál þarf að athuga vel í nefnd og ég treysti því að þeir verði þar til kvaddir sem gefið geta um þetta holl ráð. En ég tek það fram að með þessu hreyfir hv. 6. þm. Norðurl. e. máli sem þörf er á að fjalla um.
    Þá vík ég að því að hv. 10. þm. Reykn. fannst á stöku stað ekki kveðið nógu fast að orði í frv. eins og það stendur nú. Þm. nefndi sérstaklega 34. gr. frv. þar sem segir að bankaeftirlitið geti lagt til við ráðherra að hann afturkalli rekstrarleyfi verðbréfafyrirtækis á verðbréfasjóði þyki rekstur hans athugaverður og hann hafi ekki bætt þar úr við ábendingar. Þm. leggur til
að í stað orðanna ,,getur það lagt til`` komi: er því skylt að leggja til. Ég er sammála þm. um að þessi breyting væri æskileg og ég bið hv. fjh.- og viðskn. þessarar deildar að taka það mál til athugunar.
     Hv. 11. þm. Reykn. gaf í skyn í sinni ræðu að honum virtist ákvæðið um innborgað hlutafé í verðbréfafyrirtæki, sem í frv. er ákveðið a.m.k. 10 millj. kr., vera of strangt. Með öðrum orðum að ekki væri víst að starfandi fyrirtæki hefðu bolmagn til þess að uppfylla þetta ákvæði. Ég tel mikilvægt að hér verði í engu slakað. Það er einmitt helsta forsenda þess að viðskiptavinir verðbréfafyrirtækjanna geti verið öruggir um sinn hag að fjárhagur fyrirtækjanna sem stunda þessa starfsemi sé sem traustastur.
    Hv. 2. þm. Vestf. vék í sinni ræðu að nauðsyn samræmdrar skattlagningar á tekjur án tillits til þess hvort þær eru fengnar af vinnu eða af fjármagnseign. Ég tek undir þetta með honum en bendi á að þetta er nú ekki beinlínis til meðferðar í frv. Hann veltir því fyrir sér, líkt og komið hafði til umræðu fyrr í umræðunum, hvort einhverjar óeðlilegar tafir hefðu orðið á því að frv. væri lagt fram. Ég vil lýsa því hér yfir að ég tel að slíkar tafir hafi ekki orðið í meðferð frv. í tíð fyrri ríkisstjórnar. Það var skoðanamunur um 30. gr. í nefndinni og í fyrri ríkisstjórn. Sá skoðanamunur varð ekki til þess að tefja málið. Það var einfaldlega ekki tilbúið fyrr en í sumar og er hér borið fram jafnskjótt og aðstæður leyfðu.
    Hv. 3. þm. Suðurl., og ég hef áður nokkuð vikið að orðum hans í mínu máli, fagnaði framkomu frv. og ég lýsi yfir ánægju minni með það. Hann vék að vísu

að því hvernig á því stæði að ekki væri talað um verðbréfaþingið í þessu verðbréfafrv. Ég bendi á að það er engin þörf á því í þessu frv. að vísa til verðbréfaþingsins, það lifir sínu lífi og stundar sína starfsemi skv. þeim lögum sem um það fjalla þótt ekki sé til þess vísað í frv., enda engin sérstök ástæða til þess.
    Ég mun ekki fjölyrða um eignarleigufrv. að sinni, þótt hv. 3. þm. Suðurl. véki að því. Hann lýsti eftir betra málfari á því frv. og það er svo sannarlega ekki minn ásetningur að hér séu málleysur lögfestar og ég veit að sú þingnefnd sem fær það frv. til meðferðar mun hyggja að því. Ég vil hins vegar leiðrétta þann misskilning sem mér virtist gæta í máli hv. 3. þm. Suðurl., að þarna væri verið að opna dyr til erlendrar lántöku, einhverjar bakdyr að mér skildist. Það er ekki. Um það mál er ekki fjallað í því frv., en ég kem að því hér á eftir.
    Að lokum, hæstv. forseti, vil ég að nýju lýsa yfir ánægju minni með það hversu almennan stuðning þetta frv. virðist hafa hér í hv. þingdeild og vona að það fái þingmeðferð í samræmi við það.