Verðbréfaviðskipti
Þriðjudaginn 01. nóvember 1988

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Ég ætla að fara örfáum orðum um það sem fram hefur komið í seinni ræðum þeirra hv. 6. þm. Norðurl. e. og 1. þm. Reykv. Ég vil aðeins endurtaka hvað varðar brtt. hv. 6. þm. Norðurl. e. við 2. gr. frv. að mér virðist þar hreyft mikilvægu máli um nafnskráningu viðskipta með verðbréf. Ég lýsti eingöngu mínum fyrirvara um það hvort sú löggjöf sem gerð er tillaga um með frv. sé rétti staðurinn fyrir slíkar reglur. Þetta mál tel ég að þurfi að athuga vandlega í fjh.- og viðskn. og ég veit að nefndin mun kveðja til þá menn sem til þess eru bærir um þetta að fjalla. Það er síður en svo að ég telji þetta ekki eiga þarna erindi.
    Ég vildi þó benda á að sumt af því sem hv. 6. þm. Norðurl. e. gerði tillögu um að standi í lagatextanum færi að mínu áliti betur í reglugerð, enda væri einfaldari heimild til skráningar og skylda til skráningar væri í lagatexta. En eins og ég sagði hefur mér ekki tekist að fá sannfæringu fyrir því að verðbréfaviðskipta- og verðbréfasjóðafrv. sé rétti staðurinn fyrir skráningarreglur um fjárskuldbindingar vegna þess að ég tel að slíkar reglur þurfi að vera almennari en svo.
    Hvað varðar 30. gr., og þá eru náttúrlega alveg andstæð sjónarmið hjá þeim þingmönnum sem hér hafa talað öðru sinni, hv. 6. þm. Norðurl. e. og 1. þm. Reykv., annar vill herða þessar reglur mjög og hinn vill, ef ég skil hann rétt, fella 30. gr. niður úr frv. ( FrS: Eða breyta henni.) Já, eða breyta henni. Ég vil taka það fram að ég tel að þetta mál þurfi að athuga mjög vandlega og get skýrt frá því að í nefndinni sem að frv. vann voru t.d. fulltrúar Seðlabankans því fylgjandi að slíkt ákvæði væri í frv., þ.e. þeir menn sem kunnugastir eru framkvæmd þessara laga og framkvæmd bindiskylduákvæða, bæði hér og annars staðar.
    Ég er nokkurn veginn viss um að ef ég færi að tala við bankastjóra viðskiptabankanna væru þeir sem hagsmunagæslumenn fyrir sínar stofnanir sennilega til með að taka 30. gr. eins og hv. 6. þm. Norðurl. e. leggur til að hún verði. Til þess þarf ég ekki að hitta þá af því að ég veit að þeir hafa þessa skoðun. Það er líka rétt hjá hv. 6. þm. Norðurl. e. að þeir bera sig illa undan lausafjárkvöðum og bindiskyldu um þessar mundir. Það er ekki nýlunda. Og það má vel vera að þær reglur eigi að athuga, en það er eins og ég sagði víst fyrr í þessum umræðum annað mál sem ég kýs að ræða öðru sinni.
    En þetta vil ég svo eingöngu segja út af orðum hv. 1. þm. Reykv. um 30. gr.: Þótt ekki hafi reynt á þessar reglur í þeim rótgrónu fjármagnsviðskiptalöndum sem hafa slíkar reglur í lögum, það eru lönd eins og Bretland, Þýskaland, Japan og Frakkland sem ég nefndi, er það ekki sönnun þess að ákvæðin séu óþörf. Það er kannski sönnun þess að stíflugarðarnir hafi haldið, að varnargarðurinn sé þéttur og þetta sé þess vegna hið þarfasta ákvæði. Ég held þessu ekki fram. Ég bendi bara þingmanninum á þetta til umhugsunar. ( FrS:

Hvað segir hæstv. ráðherra um að breyta greininni?) Ég orðaði þetta nákvæmlega eins og ég vildi að það væri og hlyti að vera hverjum manni til umhugsunar hvort skýringin gæti ekki einmitt verið svona. Hins vegar er ég tilbúinn að ræða öll efnisatriði þessa máls og vona að þingnefndin geri það og bendi t.d. á að í bráðabirgðalögum sem sett voru í maí sl. af hv. 1. þm. Suðurl., þáv. forsrh., með atbeina hv. 1. þm. Reykv. voru sett 20% skyldukaupaákvæði spariskírteina á viðbót við verðbréfasjóði. Það er annað form fyrir þátttöku þessara stofnana á fjármagnsmarkaðnum í opinberri fjármögnun og að sínu leyti skylt lausafjárkvöðum og bindingum. Ég bendi líka á þá þróun, sem orðið hefur í mörgum nágrannalöndum okkar, að lausafjárkvaðir og bindiskylduákvæði beinist ekki að stofnunum heldur að einstökum tegundum viðskipta og reikninga. Það má vel vera að það sé þróun sem hér eigi eftir að festa rætur. Ég er hins vegar alveg ákveðinn í þeirri skoðun minni að svona ákvæði sé nauðsynlegt í þessari löggjöf til að vara menn við því að yfir þann vegg fara þeir ekki nema gjalda sömu kvaðir, sömu skyldur og þeir sem þar starfa. Það er þess vegna sem frv. er úr garði gert eins og raun ber vitni.
    Hv. 1. þm. Reykv. spurði hvort stjfrv. væru borin undir hv. 6. þm. Norðurl. e. Stefán Valgeirsson. Svarið er að honum eru kynnt stjfrv. Ég tel ekki ástæðu til að hafa áhyggjur af því í því máli sem við ræðum nú að ekki reynist þingstyrkur til að koma málinu fram, en að sjálfsögðu er þetta mál sem þarf að ræða frá ýmsum hliðum og auðvitað er það svo með hv. 6. þm. Norðurl. e. eins og aðra sem í þinginu starfa að þeir vinna vonandi að hverju máli út frá málefnalegum sjónarmiðum eingöngu og hafa sínar skoðanir á því og ég kvíði engu um að það verði til þess að tefja framgang góðra mála á þessu þingi.
    Síðan beindi hv. 1. þm. Reykv. til mín annarri spurningu um hvort tiltekið frv. eða þáltill., sem fram hefur verið borin hér nýlega af tveimur þingmönnum stjórnarflokka um endurskoðun lánskjaravísitölu, sé einkaframtak þeirra, hvort það hafi verið kynnt mér, hvort ég sé því hlynntur. Svarið er að ég lít á þetta sem einkaframtak þeirra. Þeir höfðu ekki kynnt mér það. Ég tel ekki sérlega nauðsynlegt að leggja það fram nú með tilliti til þess sem verið er að vinna í málinu. Ég segi ekkert um það frekar.
    Um aðdraganda tillagna um breytingar á lánskjaravísitölu hef ég raunar fáu við það að bæta sem ég sagði áðan. Ég sagði að Alþfl. hefði ekki flutt tillögu um að breyta lánskjaravísitölunni á þann hátt sem ráð er fyrir gert í málefnasamningi núv. ríkisstjórnar. Hann stendur hins vegar að þeirri samþykkt sem þar er lýst. Það er alveg skýrt. Ég minnti á að hv. 1. þm. Suðurl., þáv. forsrh., hefði flutt tillögu um breytingar á lánskjaravísitölunni sem væri svo nærri þeirri sem núv. stjórn hefur ákveðið að beita sér fyrir að ég tel þar engan eðlismun vera. Það getur vel verið að á þessu séu ýmsir hnökrar, en ég er sannfærður um að úr þeim má leysa.
    Ég vildi líka segja það um orð hv. 1. þm. Reykv.

um veðdeildirnar að ég er honum sammála um að það þarf að samræma þau ákvæði sem gilda um þeirra starfsemi, bæði hvað varðar skatta og bindiskyldu, því sem gildir um aðra lánastarfsemi. Ég hef alveg skömu skoðun á því máli og hv. 1. þm. Reykv. Hann spurði líka hvernig gengi að koma á reglum um að Íslendingar mættu kaupa erlend verðbréf. Svarið er að það liggja fyrir drög að auglýsingu sem heimilar slík kaup eftir ákveðnum reglum. Álit þeirra sem um þetta fjalla, fyrst og fremst Seðlabankans, er að þeir skilyrða þessa auglýsingu við það að frv. sem við ræðum hér nú verði orðið að lögum og þar með sé skilgreindur farvegur fyrir slík viðskipti. Það tel ég eðlileg sjónarmið og svarið er þá vonandi fengið fyrir hv. 1. þm. Reykv. Um það hvort af slíkum viðskiptum hlytist sérstakur vandi vegna ákvæða 30. gr. vil ég ekki segja margt á þessu stigi, en tel að á því mundi unnt að finna lausnir.
    Að lokum um hlutabréfamarkaðinn. Það er alveg rétt, sem fram kom hjá hv. 1. þm. Reykv., að frádráttarheimild vegna ákveðinna hlutabréfakaupa var veitt á því árabili sem nefnt var, líklega á árinu 1984 í ráðherratíð hv. 5. þm. Reykv. Alberts Guðmundssonar. Ég tel það hins vegar ekki vera fullnægjandi svar í málinu og það veit ég að hv. 1. þm. Reykv. tekur undir með mér einmitt vegna þess að hann hefur sjálfur beitt sér fyrir því að samdar verði ítarlegar tillögur um breytingar á þessu sviði þannig að varla var það nóg sem þá var að gert. Reyndar tel ég að það hafi hvergi nærri verið og varla teljandi til stóráfanga í málinu. En rétt er það, og rétt skal vera rétt, að slík breyting var gerð á þessu bili ára. ( FrS: Ætlar hæstv. ráðherra að halda því starfi áfram?) Já, hann ætlar að halda því starfi áfram.
    Að lokum, hæstv. forseti, tek ég undir það með hv. 1. þm. Reykv. að huga þarf að ákvæðum 3. gr. hvað varðar heimildir til að taka þátt í þessum viðskiptum. Þessar tillögur eru alls ekki hugsaðar til að bægja mönnum frá þessum störfum sem til þess hafa traustan undirbúning og það veit ég að hv. fjh.- og viðskn. þessarar deildar mun taka til athugunar.