Verðbréfaviðskipti
Þriðjudaginn 01. nóvember 1988

     Páll Pétursson:
    Herra forseti. Ég vil láta það koma fram að ég fagna þessu frv. og það er mjög mikilvægt að það skuli vera komið hér til meðferðar. Umræður hafa reyndar dregist um of á langinn, þ.e. afgreiðsla við 1. umr. hefur tekið lengri tíma en æskilegt hefði verið, og þess vegna ætla ég ekki að lengja þessa umræðu mjög.
    Þetta frv. fer til nefndar sem ég er í fyrirsvari fyrir og verður athugað þar vandlega, svo og þær brtt. sem fram koma eða fram kunna að koma. Þetta er reyndar, eins og er búið að lýsa hér, glögglega stjfrv. og Stefán Valgeirsson hefur athugað þetta mál eins og önnur stjfrv. sem fram kunna að verða lögð í þessu stjórnarsamstarfi. Hann styður þessa ríkisstjórn og þess vegna eru stjfrv. borin undir hann.
    Ég hef ekki orðið var við neina stefnubreytingu hjá Alþb. varðandi þetta mál. Ég held að Alþb. hafi eins og aðrir stjórnarflokkar óskað eftir að löggjöf yrði sett um þetta efni og þessa löggjöf hefur vantað sárlega og um það höfum við held ég öll verið sammála. Það er ánægjulegt að þetta frv. skuli eiga svo víðtækum stuðningi að fagna sem raun ber vitni.
    30. gr. verður að sjálfsögðu athuguð í nefndinni eins og aðrar greinar í frv. Lánskjaravísitalan er ekki til umræðu hér þó að menn hafi ofurlítið minnst á hana, sérstaklega hv. 1. þm. Reykv., en ég held að við eigum að ræða hana undir öðrum dagskrárlið þegar þingmál koma hér til umræðu sem um hana fjalla. M.a. er tillaga Guðmundar G. Þórarinssonar og Ólafs Þ. Þórðarsonar eitt af þeim málum sem er kjörið til að ræða lánskjaravísitölu á breiðum grundvelli. Mér finnst þessi lánskjaravísitala vera mikil vandræðaskepna og mjög mikilvægt að reyna að komast út úr þeim vítahring sem hún hefur skapað. Lánskjaravísitalan hefur magnandi áhrif á sjálfa sig. Þau minnka að vísu með fyrirhugaðri breytingu, en ég óttast að hún gangi ekki nógu langt og gott væri ef hér sköpuðust skilyrði til þess að hægt væri að afnema hana.