Verðbréfaviðskipti
Þriðjudaginn 01. nóvember 1988

     Hreggviður Jónsson:
    Hæstv. forseti. Það er töluvert langt síðan þetta frv. var til umræðu í þingsölum eða um hálfur mánuður, en það hefur verið komið inn á mörg þau atriði sem ég hef nú viljað endurtaka hér og stærsta málið í þessu er 30. gr. sem er bindiskylda. Eins og hv. 6. þm. Norðurl. e. kom réttilega inn á var bindiskylda banka sett á á sinni tíð vegna afurðalána. Ég held að það væri gaman að fá þeirri spurningu svarað af hæstv. viðskrh. hvað þessi bindiskylda kostar fólkið í landinu, hvað hún kostar það í hærri vöxtum til bankanna og í meiri útgjöldum. Seðlabankinn er orðinn gífurlega stórt og mikið bákn og þessi bindiskylda hefur orðið til þess að hann hefur þanist út, hefur hækkað vextina í landinu. Síðan hefur hluti af þessum fjármunum verið notaður til að fjármagna rekstrarhalla ríkissjóðs. Það væri út af fyrir sig fróðlegt dæmi að reikna út hvað það kostar. Ég held að 30. gr. eigi að falla út eins og ég sagði hér fyrir hálfum mánuði. Það er ekki nokkur vafi á að með henni er stefnt að því að hækka vextina í landinu því auðvitað verður fjármagnið dýrara ef það verður látið liggja inni í Seðlabankanum bundið. Ég vil þess vegna ítrekað koma því á framfæri til nefndarinnar að hún taki þessi mál til athugunar og skoði hvað það kostar að hafa þessa bindiskyldu.
    Hér var komið inn á nokkur önnur mál, þar á meðal sölu á ríkisbönkum, þar á meðal Útvegsbankanum sem hæstv. viðskrh. treysti sér ekki til að selja þegar hann fékk tilboð í hann á sl. ári. Má vera að það þurfi til að einhverjir sérstakir aðilar fái að gera tilboðið til að hann geti selt bankann. En ég tel að það ætti samt sem áður að taka allt bankakerfið til endurmats og skoða hvernig það er því að sannleikurinn er sá að við búum við niðurgreitt bankakerfi sem kemur fram í því að vextir af lánum eru miklu hærri en til þarf vegna þess að bankastarfsemin kostar allt of mikið. Þetta er stórmál fyrir þjóðina. Það er því ekki bara lánskjaravísitalan sem skiptir máli, eins og hér hefur verið komið inn á, heldur er það auðvitað þetta niðurgreidda bankakerfi. Það er niðurgreitt með þeim hætti að fólkið borgar miklu hærri vexti en annars staðar eru. Þetta verður að taka til athugunar.
    Ég ætlaði að óska Alþb. aftur til hamingju með fráhvarf þeirra ( Gripið fram í: Þeir eru allir farnir bara.) já, þeir eru allir farnir, það er rétt, þannig að við verðum að bíða með þær heillaóskir þangað til síðar. En ég tel að það verði að líta mjög vandlega á þetta frv. Það er alveg ljóst að í meginatriðum erum við sammála því sem hér stendur. En ég ætla að koma að öðru atriði sem ég minntist á síðast og það var spurningin um hvort það hefði verið horft á að í framtíðinni verða miklu meiri tölvuviðskipti höfð uppi en áður og svokölluð tölvubréf eru víða farin að ryðja sér til rúms. Ég hefði gjarnan viljað fá að vita það, ef hæstv. viðskrh. getur svarað því, hvort hugsað hefur verið fyrir því fyrirkomulagi sem tölvubréf bjóða upp á í framtíðinni. Ég held að það sé full ástæða til þess að gera ráð fyrir slíkum viðskiptum. Það er a.m.k. svo

að það eru aukin viðskipti erlendis með þessum hætti og gerir það viðskipti á ýmsan hátt einfaldari og fljótvirkari.
    Að öðru leyti þá ætla ég ekki að hafa þessi orð lengri, en ítreka að í meginefnum erum við í Borgfl. sammála frv.