Eignarleigustarfsemi
Þriðjudaginn 01. nóvember 1988

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um eignarleigustarfsemi, en eignarleiga er nýyrði fyrir það sem í ensku máli er nefnt t.d. ,,leasing``, en það orð hafa t.d. frændur okkar í Noregi tekið óbreytt upp. Hér á landi hefur að vísu oftast verið talað um fjármögnunarleigu, sem mér finnst frekar óþjált orð, og eftir nokkrar viðræður við formann Íslenskrar málnefndar kom fram sú hugmynd að nefna þessa starfsemi samheitinu ,,eignarleiga``, eignarleigustarfsemi. En af henni eru síðan ýmsar greinar eins og t.d. rekstrarleiga, kaupleiga og svo fjármögnunarleiga. Þessi hugtök eru einmitt skilgreind nánar í 1. gr. frv. og í aths. með I. kaflanum. Frv. er samið af nefnd sem ég skipaði 16. febr. á þessu ári til að fjalla um starfsemina á fjármagnsmarkaðnum utan banka og sparisjóða og til að semja frv. að lagaramma um þá starfsemi. Nefndin samdi, eins og kom fram hér fyrr í umræðunum, frv. um verðbréfafyrirtæki og verðbréfasjóði sem ég hef þegar mælt fyrir í þessari deild.
    Eignarleigustarfsemin á sér langa sögu. En á síðustu tveimur áratugum hefur hún rutt sér mjög til rúms í viðskiptalífi Vestur-Evrópu. Þannig eru í Vestur-Þýskalandi yfir 50 fyrirtæki sem reka umsvifamikla eignarleigustarfsemi og í Noregi eru þau 25. Nú er víða unnið að því að setja lagaramma um þessa starfsemi, en víðast hvar vantar reyndar enn heildarlöggjöf um þetta efni. Þó hafa nýlega verið sett slík heildarlög í Belgíu og í Frakklandi. Eignarleigustarfsemin er alþjóðlegt fjármögnunarform sem í megindráttum er rekið á svipuðum grundvelli í öllum þróuðum ríkjum. Því hefur verið unnið að því að samræma almennar starfsreglur um eignarleiguna og hefur Evrópubandalagið m.a. haft þar forgöngu, ásamt Evrópusambandi eignarleigufyrirtækja, sem kallað er Leaseurope, sem hefur höfuðstöðvar sínar í Brussel. Við samningu þess frv. sem ég mæli fyrir í dag hafa verið sóttar fyrirmyndir til þessa samræmingarstarfs innan Evrópubandalagsins.
    Hér á landi starfa nú fjögur eignarleigufyrirtæki. Þau eru: Féfang sem var stofnað í lok desember 1986 og yfirtók þá eignarleiguþjónustu sem Fjárfestingarfélag Íslands hafði rekið. Glitnir hóf sína starfsemi árið 1985, Lind hóf sína starfsemi í ársbyrjun 1987 og Leasing hóf líka störf á því ári. En árið 1987 var einmitt mikill uppgangstími fyrir eignarleigurnar. Þá sexfaldaðist efnahagsreikningur þessara fyrirtækja og samtala leigusamninganna jókst um 3,4 milljarða kr. Þeir námu samanlagt í árslok 4,2 milljörðum eða sem svarar 1,7% af heildarlánum lánakerfisins.
    Undirstaðan undir þessa miklu aukningu var auglýsing fjmrn. í febrúar árið 1986 þar sem skýrt var frá því og skýrt fram tekið að leigugjöld af eignarleigusamningum væru ekki söluskattsskyld, en áður hafði leikið á því vafi og var yfirleitt talið að um söluskattsskyldu væri að ræða af leigugjöldunum. Aðrar skýringar á hinum öra vexti á árinu 1987 felast í auknu frelsi til vaxtaákvarðana, vexti verðbréfaútgáfu

og loks tilkomu almennra heimilda til að taka erlend lán til flestra véla- og tækjakaupa í atvinnuskyni vorið 1987. Reyndar voru nokkur brögð að því að einkabílar væru keyptir á kaupleigu og einnig smábátar, en að vísu ekki með erlendu lánsfé beinlínis.
    Vöxtur eignaleiganna á árinu 1987 byggðist m.a. á því að út voru gefin verðbréf á innlendum markaði, en hlutdeild erlendu lánanna var þó yfirgnæfandi. Í september árið 1987 var svigrúm þessara fyrirtækja til erlendrar lánatöku nokkuð þrengt með auglýsingu viðskrn. þar sem erlend lán voru þá takmörkuð við 70% af verðmæti leigu- og lánssamninga. Áður var ekki slík takmörkun. Í maí 1988 var þetta svigrúm enn nokkuð þrengt með breytingu á auglýsingu viðskrn. um erlendar lántökur þar sem þetta viðmiðunarhlutfall var lækkað.
    Heldur hefur nú hægt á vexti eignarleigunnar það sem af er þessu ári en hún er þó enn mjög mikil. Fyrstu sex mánuði ársins jukust útistandandi leigusamningar eignarleiganna um 36%, en reyndar var slík aukning í fyrra 167% á sama tíma. Þessar tölur bera með sér að mínu áliti að markaðurinn fyrir þessa þjónustu sé að byrja að mettast þannig að þeir aðilar sem hafa hag af þessu fjármögnunarformi hafi að mestu þegar notfært sér það. Þá má líka ætla að menn hafi hér á landi yfirleitt áttað sig betur á kostum og göllum þessarar þjónustu, en í upphafi þessarar starfsemi virtist sem viðskiptavinirnir veittu aðeins kostunum athygli. Hér skiptir m.a. máli að yfirlýsingar um hagstæða skattmeðferð til tekjuskatts, sem gefnar voru í auglýsingum ýmissa af eignarleigufyrirtækjunum í upphafi, voru ekki á rökum reistar.
    Í frv. sem ég mæli fyrir er lagt til að settur verði almennur rammi um starfsemi eignarleigufyrirtækja.
    Í I. kafla frv. eru, eins og ég nefndi áðan, ýmsar skilgreiningar á hugtökum, en íslensk heiti þeirra hafa verið nokkuð á reiki.
    Í II. kaflanum eru sett skilyrði fyrir eignarleigustarfsemi. Þar segir í 4. gr. að slík starfsemi sé einungis heimil fyrirtæki sem hafi starfsleyfi viðskrh. Skilyrði fyrir veitingu starfsleyfis eru þau að fyrirtækið sé rekið sem hlutafélag og að innborgað hlutafé nemi a.m.k. 10 millj. kr., meiri hluti
stjórnar félagsins sé búsettur hér á landi og einnig að framkvæmdastjórinn skuli vera íslenskur ríkisborgari eða ríkisborgari annars Norðurlandaríkis samkvæmt samningum okkar um norrænan vinnumarkað.
    Í 5. gr. er ráðherra heimilað að setja í reglugerð skilyrði varðandi eignarleigu á fasteignum. Íslensku eignarleigufyrirtækin hafa hingað til ekki starfað á fasteignamarkaðnum. Erlendis er hins vegar algengt að eignarleigufyrirtæki leigi fasteignir og er því gert ráð fyrir að þetta geti líka gerst hér á landi en að settar verði sérstakar reglur um slíka leigustarfsemi.
    Auglýsing fjmrn., sem ég nefndi áðan að hefði verið einn helsti hvatinn til þess að þessi starfsemi fór vaxandi, fjallar aðeins um vélar og tæki sem eru söluskattsskyld við sölu. Sala og leiga fasteigna er

undanþegin söluskatti og þarf þar enga sérstaka undanþágu að veita vegna eignarleigu. Það er því formlega ekkert því til fyrirstöðu að eignarleiga á fasteignum eigi sér stað en um það þarf þó að mínu áliti að setja sérstakar reglur.
    Í 6. gr. frv. er svo lagt til að eignarleigufyrirtæki sé óheimilt að stunda annað en eignarleigu eða skylda starfsemi. Það er sérstaklega tekið fram að því sé óheimilt að reka verðbréfamiðlun eða verðbréfasjóð því slík blönduð starfsemi á fjármagnsmarkaðnum felur í sér ýmsar hættur. Þá skal tilgangur fyrirtækisins, sem stundar slíka leigustarfsemi, afmarkaður skilmerkilega í samþykktum hlutafélagsins. Þetta þykir nauðsynlegt til þess að hægt sé að tryggja að eignarleigufyrirtæki fari eftir þeim reglum sem settar verða skv. frv., en hætt er við að það gæti vikið sér undan þeim með því að stunda fjölþætta starfsemi á fjármagnsmarkaðnum sem gerði erfiðara að líta eftir þessum þætti starfseminnar og hverjum einstökum þætti hennar.
    Í 7. gr. er sú krafa fram sett að eigið fé eignarleigufyrirtækjanna að viðbættum víkjandi lánum skuli á hverjum tíma ekki nema lægri fjárhæð en svarar 8% af heildarskuldbindingum þess. Með þessu ákvæði er gerð ströng krafa um trausta fjárhagsstöðu eignarleigufyrirtækjanna og er hún m.a. fram sett með tilliti til þess að eignarleigufyrirtækin eru umsvifamikil í útboði skuldabréfa á fjármagnsmarkaðnum og því nauðsynlegt að eiginfjárstaða þeirra sé í góðu lagi. Við eigið fé eignarleigufyrirtækja má leggja víkjandi lán sem í langflestum tilfellum eru lögð fram af eigendum fyrirtækjanna, en með heildarskuldbindingunum teljast ábyrgðarskuldbindingar sem fyrirtækið kann að hafa undirgengist.
    Næstu tvær greinar í frv., sú 8. og sú 9., fjalla um neytendavernd, þ.e. vernd fyrir viðskiptavini eignarleigufyrirtækjanna.
    Í 8. gr. er fjallað um upplýsingaskyldu þeirra og um að viðskiptavinir þeirra skuli njóta jafnræðis í viðskiptunum.
    Í 9. gr. eru settar fram lágmarkskröfur um efni eignarleigusamninga og ég ætla að vekja sérstaka athygli á ákvæðum 4. liðar, um rétt leigusala og leigutaka til að rifta eignarleigusamningi, en nokkuð hefur á því borið að réttur leigutaka til riftunar samkvæmt ákvæðum eignarleigusamnings hafi þótt heldur óljós og að réttur leigusalans hafi verið þar ríkari.
    Í III. kafla frv. er ítarlega fjallað um eftirlit með eignarleigustarfsemi.
    Í 11. gr. er lagt til að það verði falið bankaeftirliti Seðlabankans og því jafnframt veittar nauðsynlegar heimildir til að framfylgja eftirlitsskyldu sinni. Þá eru ráðherra veittar heimildir í 12. gr. til að knýja á um að eignarleigufyrirtækin fullnægi settum reglum og í 13. gr. til þess að afturkalla starfsleyfi eignarleigufyrirtækis við ákveðnar aðstæður. Hvort tveggja er hugsað til að stuðla að virkri framkvæmd eftirlitsins og þar með framkvæmd laganna.
    Í 14. gr. er krafist samþykkis ráðherra við samruna

eignarleigufyrirtækja og er þetta gert í því skyni að tryggja frjálsa samkeppni á þessu sviði. Væntanlega yrði slíkt samþykki veitt þar sem ekki væri um augljósa hættu á einokun að ræða því samruni eignarleigufyrirtækja kynni í sumum tilfellum að vera æskilegur í því skyni að leysa fjárhagsvanda sem slík fyrirtæki kunna að hafa komist í og þar með að tryggja hagsmuni viðskiptavina þeirra.
    Í IV. kafla frv. er svo að finna ákvæði um viðurlög við brotum á lögunum og loks í V. kafla ákvæði um gildistöku sem skýra sig að öllu leyti sjálf.
    Hæstv. forseti. Það er tilgangur þessa frv. að setja almennan lagaramma um þá starfsemi sem nú hefur rutt sér mjög til rúms á fjármagnsmarkaðnum á sl. tveimur árum. Löggjafinn og framkvæmdarvaldið marka þessari starfsemi farveg með þrennum hætti: Í fyrsta lagi með þessu frv. ef það verður að lögum. Í öðru lagi, og það er mikilvægt, með reglum um skattskyldu leigugjalda og frádráttarbærni þeirra til skatts samanborið við önnur form við fjármögnun. Í þriðja lagi með heimildum til erlendrar lántöku til véla- og tækjakaupa.
    Allir þessir þrír þættir hafa verið til umræðu og athugunar á sl. ári. Það er mikilvægt að reyna að skapa festu í starfsskilyrðunum með sanngjörnum og öruggum reglum. Ég legg því áherslu á að frv. verði sem fyrst að lögum og vænti þess að það fái skjóta og vandaða afgreiðslu í þingdeildinni. Ég legg til, hæstv. forseti, að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr.
og hv. fjh.- og viðskn.