Hvalveiðibann
Þriðjudaginn 01. nóvember 1988

     Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir:
    Herra forseti. Ég held að það hafi verið hv. 2. þm. Austurl. sem lét eitthvað að því liggja í sinni ræðu hvort á bak við þessa tillögu væru umhverfissjónarmið. Fyrir sjálfa mig get ég sagt að auðvitað er það. Ég held að ég hafi verið umhverfisverndarmaður svo lengi sem ég man eftir. Að vísu hef ég ekki tekið mjög mikinn þátt í félagsskap um þau mál og það er kannski af því að ég hef verið önnum kafin við annað, kannski vegna þess að ég tilheyri þeim hópi fólks sem vinnur að sinni umhverfisvernd í garðinum sínum við að stinga niður trjásprotunum sínum, með því að fylgjast með lífinu í náttúrunni í kringum sig og með því að kenna afkomendum sínum að bera lotningu fyrir lífinu og ást til móður náttúru. Sumir framkvæma í orðum, aðrir í verkum. Best er að þetta fari hvort tveggja saman. Það gerir það hins vegar ekki alltaf og því ráða ýmsar aðstæður.
    Þegar síðasta geðveikiskasti mannkynsins, heimsstyrjöldinni síðari, lauk breyttist náttúrlega margt í heiminum. Kjarnorkan kom til sögunnar, eiturvopn komu til sögunnar, stóriðja óx meira en hollt var og margt og margt slíkt. Dóná svo blá varð að drullupolli, trén féllu unnvörpum fyrir súru regni, mengunin lagðist yfir allt. Vísindamenn og náttúruverndarmenn mótmæltu auðvitað, en það gerðist ekki mikið. Stjórnvöld í þeim löndum, sem verst urðu úti, hafa vafalaust afsakað sig með því sama og stjórnvöld hér gera alltaf. Þau höfðu ekki efni á að ráðast til atlögu við þetta eins og hefði þurft. Almenningur á meginlandinu, bæði austan hafs og vestan, horfði á með vaxandi skelfingu og gat lítið aðhafst og hefur kannski verið eins og ég, ekki tekið virkan þátt í því að gera eitthvað annað en svona í kringum sig.
    Það er upp úr þessu öllu saman sem myndast félagsskapur eins og grænfriðungar. Þessi félagsskapur vinnur allt öðruvísi en hefur verið unnið að þessum málum og ekki alltaf eins og mér líkar vel, en hann tók á. Hann tók á málunum. Við höfum séð hann í sjónvarpi t.d., hérna uppi á Íslandi. Við höfum séð þá róa á bátskænum og reyna að hindra stór skip frá því að fleygja eiturúrgangi í hafið. Almenningur hefur tekið þessum mönnum nokkuð fagnandi. Þeir eru mjög áróðurslega sterkir. Þeir eru það meira að segja hérna uppi á Íslandi. Ég vildi sjá ríkissjónvarpið okkar eyða eins miklum tíma og jafnvel fjármunum í margt annað og þeir hafa eytt í grænfriðunga eða hvalavini þegar þeir hafa verið að gera eitthvað hér. Það má vel vera að auðmenn styrki þá eitthvað. Við getum varla trúað því að þó að maður sé auðmaður, stundum fyrir tilviljun, þá geti hann ekki haft auga fyrir umhverfinu, verið náttúruunnandi eða umhverfisverndarmaður.
    Ég held líka að almenningur í þessum löndum hafi mjög mikinn áhuga fyrir þeim og mikla samúð með þeim. Ég get ekki betur séð en að við getum haft fulla samúð með þeirra áhugamálum, kannski fyrir utan hvalveiðarnar. Þær hafa verið okkur þyrnir í augum. Þær virðast vera sumum mönnum svo mikil

ástríða að þeir geta ekki hugsað sér að láta af þeim. Menn bera fyrir sig vísindi og aftur vísindi. Síðan þetta hvalamál kom upp á borðið svona mikið og var farið að ræða það hef ég gert mér far um að hlusta alveg lon og don á það sem vísindamenn hafa að segja. Og viti menn, þeir segja algjörlega sitt hvað. Hverju á svona fólk eins og ég að trúa? Sumir segja: Hvalveiðar voru bannaðar áratugum saman og það hafði engin áhrif á lífríki sjávar, aðrir segja að það sé alveg stórhættulegt að veiða ekki þessi 70 kvikindi sem við erum að veiða núna á sumrin af því að lífríkið bara eyðileggst. Ëinn sagði að útflutningur á hval væri svona sem svarar 1% af þjóðartekjum, aðrar sjávarafurðir væru um 80%. Eigum við kannski að leggja þessi 80% í hættu fyrir þetta 1%? Það hljóta að vera margar spurningar í þessu máli.
    Ég er meðflm. að þessari tillögu af ýmsum ástæðum, t.d. þeim sem ég er nú þegar búin að rekja. Ég hef alltaf haft hálfgert ógeð á þessu hvaladrápi, og alltaf verið ákaflega fegin þegar ég hef komist fyrir Hvalfjörðinn án þess að þar væri hvalur í skurði, en lítið lagt þar til mála eins og kannski í mörgu öðru. Ég tel að þetta sé tapað stríð, það stangist á við alla skynsemi að vera að halda þessu áfram. Ég sé ekki nokkra skynsemi í þessu. Ég sé enga líkingu með þessu og landhelgisdeilunni. Þá vorum við að berjast fyrir lífi okkar og lífshagsmunum. Ekki nú.
    Ég tek undir það sem hv. 1. þm. Vestf. sagði, við eigum að hafa samband við þetta fólk. Við eigum að hafa samband við þessa grænfriðunga. Við eigum að ræða við þá án þess að vera með hnefann í borðinu og fullyrða að þetta sé óþjóðalýður sem ekki sé ræðandi við.
    Ég ætla ekki að fara að gera mikinn hávaða eða læti í þessu máli. Kannski hefur sú framkoma sem við höfum orðið fyrir af hálfu Bandaríkjanna núna á síðustu dögum slævt svolítið þann hasar sem hefur verið í manni. Ég er sama sinnis og hv. 1. þm. Vestf., ég fagna því hvernig utanrrh. tók á þessum málum.
    Þetta frv. fer nú í nefnd. En ég held að menn eigi ekki að öllu leyti að gera þetta að svona miklu tilfinningamáli eins og þeir gera sem vilja endilega vera að veiða þessa hvali. Þeir gera þetta að miklu meira tilfinningamáli en við. Ég held að menn ættu að fara að hugsa þetta pínulítið öðruvísi. Og svo
vona ég alveg eindregið að það verði skynsemin en ekki þrjóskan sem sigrar í þessu máli.