Hvalveiðibann
Þriðjudaginn 01. nóvember 1988

     Ásgeir Hannes Eiríksson:
    Hæstv. forseti. Hv. alþm. Ég er hingað kominn í pontuna til þess að styðja frv. sem hér liggur frammi um að banna hvalveiðar. Við viljum öll líta á mannkynið sem frekar góðviljað spendýr þó að mín skoðun sé nú sú að maðurinn sé grimmasta dýrið í náttúrunni og aðeins gott orð í guðs og manna lögum haldi mannskepnunni í rauninni frá því að heyja lífsbaráttuna með kjafti og klóm.
    Fyrir 15 árum, árið 1973, átti hundurinn undir högg að sækja hjá mannkyninu hér á Íslandi. Þá var verið að launa honum 11 alda trúnað með því að gera hann brottrækan úr Reykjavík. Það átti að dæma hann í útlegð fyrir að vera eini íbúi landsins annar en maðurinn sem hefur haldið trú við manninn öll þessi ár og í rauninni tekið manninn að sér. Þá starfaði ég í Sambandi dýraverndunarfélaga á Íslandi og fylgdist vel með starfinu þar sem var alþjóðlegt.
    Árið 1973--1974, það eina ár sem ég var formaður þar, var að mörgu leyti markvert og það gerðist margt á þeim vettvangi hér á Íslandi. Hæst ber kannski í mínum huga gosið í Vestmannaeyjum. Mark Watson Íslandsvinur gaf hingað dýraspítala og við héldum dag dýranna í Austurbæjarbíói og vil ég, með leyfi forseta, lesa upp stuttan kafla úr ræðu sem Halldór Laxness hélt á þeim fundi, en þar sagði nóbelsskáldið:
    ,,Ég er nýkominn úr hálfs árs dvöl í Evrópu. Við bjuggum mestan part í Sviss. Landhelgisdeiluna heyrði ég varla nokkurn mann nefna í Evrópu. En þegar fólk vissi að ég var Íslendingur var ég oft spurður af bráðókunnugu fólki: Hvers vegna vilja Íslendingar endilega drepa besta vin mannsins?``
    Þá átti hundurinn undir högg að sækja. Síðan kom tímabil hjá okkur sem það var selurinn, þessi friðelskandi litli Íslandsvinur sem syndir hingað upp að ströndum landsins í leit að skjóli í íslenskri náttúru. Hann var ekki bara réttdræpur heldur var heitið fé til höfuðs honum. Hann er eini íbúi Íslands sem ég veit um á síðari árum sem hefur verið heitið fé til höfuðs, ekki til þess að nýta hann sem nytjastofn heldur til þess að ganga af honum dauðum. Sem betur fer komust þessar aðgerðir ekki í hámæli þannig að þær skyggðu á landhelgisdeilur okkar í öðrum löndum eins og viðhorf okkar til besta vinar mannsins, hundsins, á sínum tíma eins og Laxness greinir frá.
    En ég kynntist því líka í alþjóðlegu starfi okkar í dýraverndunarsamtökunum að þá þegar árið 1973 var haldið uppi sterkri baráttu fyrir því að friða hvalinn og barist gegn hvölum og fleiri dýrum eins og t.d. kengúrunni. Ég man að við héldum meira að segja dansleik til að styrkja baráttuna gegn útrýmingu kengúrunnar í Ástralíu. Við héldum dansleik í Klúbbnum og svo merkilega og skemmtilega vildi til að Kristján vinur minn Loftsson var einn af þeim gestum sem sóttu þann dansleik. Svona er nú Íslandssagan í rauninni lítil þegar hún er skoðuð í réttu sambandi.
    En á þessum árum var þegar byrjað að berjast fyrir verndun hvala og það var ekki það fólk sem við

köllum í dag grænfriðunga eða umhverfisverndarfólk, sem í aðra röndina er kallað hryðjuverkamenn og þaðan af verri nöfnum, heldur voru þetta sjálf dýraverndunarfélögin í Evrópu. Og í þeim kemur saman lunginn úr besta fólkinu í Evrópu og verkið sem þar er unnið er unnið af hugsjón og af tilfinningu. Þar er enginn maður að vinna til þess að láta á sér bera. Þar eru heiðursformenn yfirleitt þjóðhöfðingjarnir eða makar þeirra og þar eru saman komnir allir helstu kennarar, læknar og fleiri vísindamenn sem lúta að dýrum og dýravernd. Þetta fólk tekur allt saman þátt í starfinu á einn eða annan hátt. Það er vegna þess að andinn hjá öðrum þjóðum er öðruvísi í garð dýra en á Íslandi. Við lítum dýrin öðrum augum en aðrar þjóðir.
    Á þessum árum gerðist það að bresk kona, sem var flutt til Bandaríkjanna, var gerð arflaus vegna þess að faðir hennar, breskur aðalsmaður, hafði gefið dýraverndunarsamtökunum bresku allar sínar eigur. Konan kom aftur til Bretlands og höfðaði mál fyrir dómstólum til að fá föður sinn dæmdan elliæran. Dómarinn lýsti sérstakri vanþóknun á þessum málatilbúnaði dótturinnar og sagði að hún skyldi ekki halda að í Bretlandi það þætti merki um að vera viti sínu fjær að víkja góðu að dýrum.
    Það er þetta andrúmsloft sem við erum að berjast við og það er þetta andrúmsloft sem við getum aldrei sigrað með auglýsingum eða kynningu. Þó svo að grænfriðungar hafi hæst þá liggur þunginn í þessum þjóðum hjá þessu fólki. Við getum aldrei sigrað þetta almenningsálit. Þess vegna legg ég til að við hættum þessum leik núna þá hæst hann stendur.