Hvalveiðibann
Þriðjudaginn 01. nóvember 1988

     Flm. (Hreggviður Jónsson):
    Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mjög mikið. Ég þakka þeim hv. þm. sem hér hafa tekið til máls. Það hefur komið margt fróðlegt fram í þeirra máli, bæði með og móti þessu frv. Ég get tekið undir mest af því sem hv. 1. þm. Vestf. sagði í sinni ræðu og ég get tekið undir margt af því sem hv. 12. þm. Reykv. sagði í sinni ræðu. Ég get einnig tekið undir allt það sem hv. 16. þm. Reykv. sagði um þetta. Þetta mál er að sjálfsögðu viðkvæmt. Ég tel að það hafi verið rétt að taka þetta til umræðu hér. Það er svo að það er slæmt að hafa málatilbúnað úti í bæ á einni hendi. Ég held að það sé rétt að sjútvn. fái tækifæri til að fara ofan í málin, kanna þau frekar og segja sína skoðun á þeim. Þannig að ég tel að þetta hafi verið rétt.
    Það er auðvitað ekki hægt að ásaka neinn í þessu máli, hvorki til né frá, því að við erum þegar allt kemur til alls veiðiþjóð og höfum alist upp við það að veiða, fram hjá því er ekki hægt að líta. En við verðum samt að horfa á það sem er að gerast í kringum okkur, taka tillit til þess og meta þá niðurstöðu sem út úr því kemur hverju sinni. Ég vil ekki hafa þessi orð lengri og hef lokið máli mínu.