Hvalveiðibann
Þriðjudaginn 01. nóvember 1988

     Sighvatur Björgvinsson:
    Herra forseti. Eftir að hafa hlýtt á ræðu hv. 5. þm. Reykv. hér áðan þá ættu menn að geta farið að hætta að hafa miklar áhyggjur af því að útlendingar hafi mikinn tíma til þess að tala um hvaladráp á Íslandi eftir að fyrir liggja niðurstöður af hundakosningu í Reykjavík og hundaveiðar hefjast þá í höfuðborginni að nýju. Hafa þá útlendingar væntanlega um annað að hugsa heldur en önnur mál okkar Íslendinga.
    Annars er það nú gott dæmi um tvískinnunginn í þessum umræðum, og vitna ég þá enn í þennan hv. þm., að einna fremst í gagnrýni á vísindaveiðar Íslendinga á hvölum standa þjóðir sem sjálfar éta hund. Ættu þær að líta sér nær þær ágætu þjóðir og lofa okkur að vera í friði og hugsa þá heldur um besta vin mannsins heima hjá sér.
    Hafi það hins vegar verið ætlun flm. þessa frv. að banna Íslendingum hvalveiðar þá hefur þeim illa skotist, því það er ekki gert í þessari frumvarpsgrein. Skv. 1. gr. frv. eru Íslendingum ekki bannaðar hvalveiðar heldur eru bannaðar hvalveiðar í fiskveiðilögsögu Íslands. Íslenskir hvalveiðimenn gætu þó þetta væri samþykkt haldið áfram hvalveiðum hvarvetna annars staðar en í fiskveiðilögsögu síns eigin lands. Það er heldur ekki gert ráð fyrir því í þessu frv. að vinnsla hvalaafurða sé stöðvuð á Íslandi. Og það er ekki heldur gert ráð fyrir því í þessu frv. að verslun með hvalaafurðir sé bönnuð Íslendingum eða á Íslandi. Þannig að hafi það verið tilgangur hv. flm. að stöðva hvalveiðar Íslendinga og verslun Íslendinga með hvalaafurðir og vinnslu hvalaafurða þá nær þetta frv. ekki tilgangi sínum. Það eitt út af fyrir sig sýnir að ekki hefur nú frv. verið ígrundað mikið áður en það var flutt og lagt fram því það nær auðsjáanlega ekki þeim tilgangi sem að er stefnt.
    Ég vil líka, þó að það hafi sjálfsagt komið fram hér í umræðunni, vekja athygli manna á því að það er afskaplega varhugavert að dæma umræðuna utan Íslands um þetta mál eftir umræðum hér. Jafnvel þó þetta mál sé daglegt fréttaviðfangsefni sjónvarps, útvarps og blaða hér á Íslandi, þá fer því víðsfjarri að svo sé erlendis. Vera má að þetta mál sé mikið rætt í hópum umhverfisverndarmanna og hjá forsvarsmönnum einstakra fyrirtækja sem þeir ræða við, eins og fram hefur komið, en það er langur vegur frá að almenningur á meginlandi Evrópu eða í Bandaríkjum Norður-Ameríku sé uppfullur af þeirri umræðu um hval og hvalveiðar sem hér á sér stað. M.a.s. fjöldinn allur af þeim aðilum sem við þurfum að semja við um sölu á okkar fiskafurðum lætur sig þetta mál engu varða og skiptir sér ekkert af því og hefur ekki á því nokkra skoðun. Við eigum því ekki að falla í þá gryfju að láta okkur koma það til hugar að sú umræða, sem er um þetta mál hér á Íslandi, endurspegli þá umræðu sem á sér stað um þetta mál á erlendis. Það er síður en svo.
    Herra forseti. Ég ætla ekki að fara út í frekari efnisumræðu um þetta frv., aðeins láta mér nægja að lýsa því yfir að ég er andvígur því vegna þess að málið fjallar í mínum huga ekki bara um bann við

nýtingu tiltekinnar náttúruauðlindar, lífrænnar náttúruauðlindar, heldur fjallar málið um það hvort Íslendingar ætla að láta svipta sig sjálfræðisréttinum á að nýta íslenskar náttúruauðlindir, þar á meðal auðlindir sjávarins. Ef við ætlum að gera það, ef við föllumst á slíka niðurstöðu, að láta svipta okkur þeim sjálfræðisrétti, þá erum við búin að afsala okkur hluta af okkar sjálfstæði og ég ætla ekki að leiða neinum getum að því hvar það muni lenda. En verði á það fallist af okkar hálfu að hætta hvalveiðum, jafnvel þó að sagt sé að það sé tímabundið þá er ég ansi hræddur um að það verði erfitt að hefja þann atvinnurekstur að nýju og langaði mig til að leiða það í ljós með tveimur spurningum, hæstv. forseti, og eru þær báðar til hæstv. sjútvrh.
    Fyrri spurningin er þessi: Telur hæstv. sjútvrh. að enn séu fyrir hendi óbreyttar þær forsendur sem lágu til þess að hann á sínum tíma heimilaði ekki veiðar á hrefnu? Séu þær forsendur breyttar að mati ráðherra, m.ö.o. telji hann ekki lengur að efnisleg rök standi til þess að ekki skuli veiða hrefnu vegna útrýmingarhættu, mun hann þá heimila veiðarnar að nýju og hvenær verður það gert? Sé niðurstaða hæstv. ráðherra sú að það séu ekki lengur efnisleg rök til þess að banna veiðar á hrefnu en hann treystir sér samt ekki vegna einhverra annarra sjónarmiða til þess að leyfa að þær veiðar hefjist að nýju, þá sjá menn hvað það þýðir ef íslenska þjóðin tekur ákvörðun um það að banna hvalveiðar tímabundið í þeirri trú að það sé hægt að hefja þá atvinnugrein að nýju til vegs innan tiltölulega skamms tíma.
    Herra forseti. Ég vil leggja mjög fast að hæstv. sjútvrh. að heimila á ný veiðar á hrefnu. Ég tek það fram að ég styð stefnu hans í hvalveiðimálunum að öllu öðru leyti en því að ég tel að hann eigi að taka tillit til þeirra efnislegu sjónarmiða, sem ég tel að hafi komið fram, að það séu ekki lengur rök fyrir því að koma í veg fyrir það að íslenskir sjómenn geti nýtt sér eina af þeim náttúruauðlindum sem lega landsins býður upp á og þar á ég við veiðar hrefnuveiðimanna. Þetta er eina ágreiningsatriðið á milli mín og hæstv.
ráðherra. Að öllu öðru leyti styð ég hans stefnu í þessu máli en vil enn og aftur biðja ykkur, hv. deildarmenn, að veita athygli þeim svörum sem hæstv. ráðherra gefur við þessum tveimur spurningum mínum. Í fyrsta lagi: Standa að hans mati enn efnisleg rök fyrir því að ekki hefjist veiðar á hrefnu? Í öðru lagi: Treystir hæstv. ráðherra sér til þess, ef svo er ekki, að heimila Íslendingum hrefnuveiðar á nýjan leik?