Eiturefni og hættuleg efni
Miðvikudaginn 02. nóvember 1988

     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):
    Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um eiturefni og hættuleg efni, nr. 52/1988, sem er 72. mál Ed. á þskj. 74.
    Ég get reyndar verið stuttorður um frv. það sem ég mæli hér fyrir. Í raun er um að ræða leiðréttingu á lögum sem samþykkt voru á seinasta þingi um eiturefni og hættuleg efni, þ.e. lögum nr. 52 frá 1988 sem öðlast gildi frá og með nk. áramótum hvað snertir starfsemi eiturefnanefndar en sjálf lögin öðluðust gildi 1. júlí sl.
    Hins vegar var ákveðið að eiturefnanefnd sú sem nú situr sæti til áramóta og frá þeim tíma tæki til starfa ný nefnd í samræmi við ákvæði laganna. Inni í 1. mgr. 2. gr. laganna slæddist smámisskilningur sem ráðuneytið telur eðlilegt að leiðrétta. Þar kemur m.a. fram að einn nefndarmanna skuli vera efna- eða verkfræðingur með sérþekkingu á notkun eiturefna og hættulegra efna í landbúnaði, garðyrkju og til útrýmingar meindýra og skuli hann tilnefndur af landbrn. Aldrei var ætlunin, þó svo færi, að þessi aðili þyrfti að hafa efna- eða verkfræðimenntun, má að sjálfsögðu vera verkfræðingur, heldur að um væri að ræða aðila sem hefði sérþekkingu á notkun eiturefna og hættulegra efna í landbúnaði. Sú skipan hefur gilt til þessa og gefist vel.
    Sú breyting sem óvart varð hér á mundi útiloka núsitjandi fulltrúa landbrn. frá störfum í nefndinni. Sú var ekki ætlunin. Rétt er enn fremur að benda á að í nefnd þeirri sem gerði tillögur að nýjum lögum um eiturefni og hættuleg efni var lögð til óbreytt fyrirkomulag varðandi skipan þessa fulltrúa landbrn. að öðru leyti en því að hann kæmi inn sem fullgildur nefndarmaður samkvæmt nýju lögunum í stað þess að taka eingöngu sæti í nefndinni þegar fjalla skyldi um notkun eiturefna og hættulegra efna í landbúnaði, svo sem kveðið var á í eldri lögum.
    Eins og af framansögðu má ráða hafa hér orðið mistök en sem betur fer er hægt að leiðrétta þau í tíma þar sem lögin öðlast ekki gildi fyrr en frá og með nk. áramótum hvað snertir starfsemi eiturefnanefndar.
    Ég held það þurfi ekki að hafa fleiri orð um þetta frv., herra forseti, og legg ég til að því verði að lokinni 1. umr. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn. með beiðni um að málið fái skjóta afgreiðslu.