Grunnskóli
Miðvikudaginn 02. nóvember 1988

     Eiður Guðnason:
    Herra forseti. Svo sem fram hefur komið er frv. ekki nýtt af nálinni. Það hefur nokkrum sinnum áður verið flutt í þessari hv. deild en ekki náð fram að ganga. Ég hef þá jafnan lýst nokkrum efasemdum um ágæti þess og mun enn gera það, enda þótt frv. sé nú nokkuð breytt.
    Ég fæ ekki séð, eins og gert er ráð fyrir skipan mála í frv., að það hafi af sjálfu sér einhverjar umbætur í för með sér. Ég get tekið undir með hæstv. menntmrh. þegar hann fjallaði um 1. málsgr. 3. gr. frv., þ.e., með leyfi forseta: ,,Við hvern grunnskóla skal starfa skólaráð sem er stjórn skólans til ráðuneytis um innri mál hans, svo sem kennsluskipan, starfsáætlanir, skólatíma, slysavarnir, félagslíf í skólanum o.fl. sem varðar daglega starfsemi skólans.`` Ég held að með því fyrirkomulagi sem hér er lagt til að verði upp tekið sé í verulegum mæli verið að kippa burt starfsgrundvelli foreldrafélaganna við skólana vegna þess að þau annast nákvæmlega þessi mál sem hér eru upptalin sem verkefni skólaráðs. Ég held að það sé ekki til bóta að það séu tveir aðilar, annars vegar skólaráð og hins vegar foreldrafélag, að fjalla um sömu málin. Nú er það svo að foreldrafélög starfa sjálfsagt með mismunandi hætti og eru misvirk í starfi.
    Svo vill til að ég var formaður í foreldra- og kennarafélagi eins grunnskólans hér í Reykjavíkurborg um þriggja ára skeið. Þar var starfað með þeim hætti að alla fundi stjórnar foreldra- og kennarafélagsins sátu skólastjóri og a.m.k. tveir kennarar. Þar var fjallað um þessi mál öll, starfsáætlanir, skólatíma, slysavarnir og félagslíf. Raunar var foreldrafélagið ásamt með nemendum þátttakandi í félagslífi skólans. Auðvitað var það svo að varðandi kennsluskipanina var stjórn foreldrafélagsins miklu frekar sem áheyrnarfulltrúi. Menn gátu látið sínar athugasemdir í ljós en höfðu þar ekkert ákvörðunarvald svo sem gefur auga leið. Í mínum huga er það auðvitað skýrt að það eru skólastjóri og kennarar fyrst og fremst sem taka ákvarðanirnar um skólastarfið þó auðvitað sé ekki bara gott og nauðsynlegt heldur mjög æskilegt að það gerist í góðu samstarfi við foreldrana og foreldrafélögin.
    Ég sem sagt óttast að verði þessi háttur tekinn upp, sem frv. gerir ráð fyrir, séu í rauninni dagar foreldrafélaganna taldir vegna þess að þau hafa þá ekki lengur verkefni við að fást. Það er ekkert auðvelt að virkja fólk til þátttöku til starfs í þessum félögum. Það held ég að allir muni taka undir sem að þeim málum hafa komið. Það er hins vegar hægt og það hefur tekist og tekist ágætlega sums staðar. Og ég veit að það hefur orðið veruleg breyting t.d. á upplýsingaflæði frá skólunum inn á heimilin núna á síðustu árum.
    Af því að hæstv. menntmrh. vék að því að ekki væru til samtök foreldrafélaga . . . ( Menntmrh.: Landssamtök.) Rétt. Landssamtök eru ekki til en svæðissamtök eru til, a.m.k. hér í Reykjavík, sem hafa tekið sér það einkennilega nafn sem ég gagnrýndi oft

á fundum þeirra samtaka, það er þessi skammstöfunarárátta, og samtökin kalla sig SAMFOK, sem minnir mig satt að segja á eitthvað allt annað en Samtök foreldra- og kennarafélaga. Þau samtök hafa ekki verið mjög starfsöm. Ég hygg að starfsemi þeirra hafi aðallega verið fólgin í því að halda einn aðalfund á ári og einhverja blaðaútgáfu réðust þau í á sínum tíma sem ég held að hafi ekki haft neitt framhald. Það hafi orðið eitt tölublað eða svo.
    Ég held hins vegar að það sé mjög brýnt að t.d. menntmrn. beiti sér fyrir því að stofnuð verði landssamtök foreldra- og kennarafélaga. Ég hygg að slík samtök séu til á öllum Norðurlöndunum og starfi þar af töluverðum þrótti. Ég held að það sé miklu nær að reyna að blása lífi í þá félagsstarfsemi og þau samtök sem þegar eru fyrir hendi í skólunum en að vera að búa til nýtt ,,apparat`` mætti kannski segja við hliðina á þessu sem á að sinna sömu verkefnum. Ég held að hér sé verið að bæta við báknið og ég hef ekki neina sannfæringu fyrir því að þessi breyting muni verða til bóta í íslenska skólakerfinu. Það er hægt að hlaða upp endalausum nefndum og ráðum en það skilar ekki alltaf tilætluðum árangri. Þess vegna lýsi ég miklum efasemdum um ágæti þessarar tillögu. Ég veit að sjálfsögðu að flm. gengur gott eitt til. Ég held hins vegar að þeir hafi farið inn á ranga braut og ég er jafnsannfærður um það og ég hef áður verið að með því að búa til nýtt ráð sem á að fjalla um sömu verkefni og foreldrafélögin gera er verið að gera þeim félögum mikinn ógreiða og nánast að lýsa því yfir að þeirra sé ekki lengur þörf og þau hafi ekki starfsvettvang eða starfsefni því ef skólaráð á að fjalla um alla þessa hluti sé ég ekki að foreldrafélögin þurfi að gera það líka. Ég held hins vegar að foreldrafélög séu miklu æskilegri vettvangur fyrir þetta starf en eitthvert þriggja manna skólaráð og ég held að við ættum að kappkosta að styrkja tengslin milli foreldrafélaganna og skólanna, milli heimilanna og skólanna, með því fyrst og fremst að styrkja foreldrafélögin og efla þau. Mér er fullkunnugt um það að þau félög hafa engin fjárráð og geta þess vegna ekki látið til sín taka svo sem a.m.k. sum þeirra mundu óska. Nú endurtek ég það að þessi félög eru auðvitað ákaflega misvirk. Sums staðar starfa þau lítið sem
ekki og annars staðar starfa þau mjög vel og af miklum þrótti.
    Ég lýk þessum orðum, herra forseti, með því að ítreka efasemdir mínar um ágæti málsins, enda þótt flm. gangi vissulega gott eitt til.