Grunnskóli
Miðvikudaginn 02. nóvember 1988

     Margrét Frímannsdóttir:
    Herra forseti. Ég kom hér fyrir rúmu hálfu ári síðan og lýsti yfir stuðningi við frv. sem hv. þm. Salome Þorkelsdóttir hafði þá lagt fram sama efnis og það sem hér er flutt aftur örlítið breytt. Það kom fram seint á síðasta þingi og mér fannst þá í umræðunni að sumir hv. þm. gæfu sér það jafnvel fyrir fram að frv. yrði aldrei afgreitt frá þinginu vegna þess hve það kom seint fram. Nú er ekki því að heilsa. Nú höfum við góðan tíma til þess að skoða frv. og afgreiða það. Ég lýsti því yfir þá að stuðningur minn við frv. var tilkominn vegna þess að ég hafði sem kennari og sem foreldri starfað í ráði eins og því sem hér er lagt til að verði sett á stofn, við grunnskóla á Stokkseyri. Það var þó ekki lögbundið, heldur frekar áhugamannahópur sem var afskaplega vel þeginn af kennrurum og skólastjóra skólans til þess að hafa með sér. Þetta ráð fjallaði einmitt um nákvæmlega þá þætti sem um getur í 3. gr. þessa frv.
    Við vorum ráðgefandi, höfðum ekki beinan ákvörðunartökurétt en gátum tekið þátt í umræðu og í að móta stefnu skólans um innra starf hans. Sú reynsla sem ég fékk í þessum starfshópi, sem þá var kallaður svo, sem fulltrúi foreldrafélags og aftur seinna sem kennari við sama skóla, var mjög góð þannig að ég fagnaði því sérstaklega að fram kæmi frv. frá einum hv. þm. um þetta efni. Ég hafði reyndar hugsað mér ásamt kennurum grunnskóla Stokkseyrarhrepps að útbúa slíkt frv. en við sáum síðan að hv. þm. Salome Þorkelsdóttir hafði reyndar áður hreyft þessu máli.
    Það er vissulega rétt sem kom fram hjá hæstv. ráðherra að þegar sett eru lög um slíka starfsemi sem þessa, innra starf grunnskóla, þarf að vanda til lagasetningar, en ekki bara þar heldur um allt annað sem ákveðið er um starfsemi grunnskóla landsins. Ég held hins vegar að það væri ekki rétt að setja lög um starfsemi foreldrafélaga. Starfsemi þeirra þrífst ekki öðruvísi en að hún sé sprottin af áhuga fólksins á því starfi sem fram fer innan grunnskólans og rétti þess til að ákveða hvernig slíkt félag skuli starfa.
    Skólar landsins eru ákaflega misjafnlega útbúnir, bæði að tækjum, starfsliði og húsnæði og áhugasvið viðkomandi foreldrafélaga fer oft eftir því við hvaða skóla slíkt félag er starfandi, hvernig sá skóli er útbúinn. Hins vegar tel ég að með skólaráði eins og hér er talað um, og nefni það sérstaklega af því að 3. gr. hefur orðið að umræðuefni, meira en aðrar greinar þessa lagafrv., og á að vera til ráðuneytis um innra starf skólans, kennsluskipan, starfsáætlanir, skólatíma, slysavarnir og félagslíf í skólum, sé á engan hátt verið að ganga á starfsemi foreldrafélaga eða taka af þeim starfssvið vegna þess að í mörgum minni skólum, a.m.k. úti á landi, eru slíkir hópar nú þegar starfandi sem taka þátt í mótun einmitt þessara þátta, þó svo að blómleg starfsemi foreldrafélaga sé til staðar. Það að nemendur, kennarar og foreldrar eða fulltrúar þessara hópa starfi saman að því að skipuleggja innra starf skólans hlýtur að vera af því góða og fulltrúi foreldrafélags hlyti þar af leiðandi að flytja inn í slíkt

samstarf það sem foreldrafélagið hefði til málanna að leggja varðandi þessa ákveðnu þætti.
    Ég gerði það í fyrra að kynna það frv. sem þá var lagt fram fyrir starfsmönnum grunnskóla á Suðurlandi, bæði kennurum og skólastjórum, og einnig hafði ég samband við fulltrúa foreldrafélaga og sýndi nemendum úr nemendaráðum, sem oftast voru fulltrúar 9. bekkjar hvers skóla, þetta frv. Það kom ekki fram frá einum einasta aðila óánægja eða athugasemd, ekki einum einasta. Og ég kem hér enn og aftur til þess að lýsa stuðningi mínum við frv. og skora á þá hv. þm. sem eiga sæti í þeirri nefnd sem um frv. fjallar að afgreiða það fljótt og vel.