Grunnskóli
Miðvikudaginn 02. nóvember 1988

     Flm. (Salome Þorkelsdóttir):
    Hæstv. forseti. Ég hafði nú ekki reiknað með því að koma hér aftur og svara hv. 3. þm. Vesturl. en hv. 9. þm. Reykn. gaf mér einnig tilefni til þess að segja nokkur orð til viðbótar vegna hans athugasemda við frv.
    Ég vil taka það fram að ekkert er við því að gera ef hv. þingdeildarmenn eru svo bjargfastir í trú sinni að frv. sé ekki af hinu góða fyrir skólann. Þá hljóta þeir náttúrlega að óska þess að það verði ekki samþykkt, eins og hv. 3. þm. Vesturl. kom hér inn á. Hann taldi að hér væri ekki verið að fara inn á réttar brautir. Vinnuhópurinn, sem mig minnir að hafi starfað í tvö ár, fjallaði um þessi mál fram og aftur, mánuð eftir mánuð, og tók allt landið fyrir, bæði þéttbýli og dreifbýli, og ef við í nefndinni hefðum ekki verið sannfærð um réttmæti frv. í þessum víðtæka vinnuhópi, sem ég vil leyfa mér að nefna svo, hefðum við aldrei lagt til að það yrði flutt. Það var einungis gert vegna þess að við komumst að þeirri niðurstöðu að til þess að treysta og efla samstarf foreldra um innra starf skóla væri það eina ráðið að lögbinda slíkt skólaráð. Og ég er algerlega ósammála hv. 9. þm. Reykn. um að þetta sé ein silkihúfan í viðbót.
    Það var farið að gera því skóna hér að sumir grunnskólar, sem væru með nemendur frá 6--12 ára aldurs, færu kannski að velja fulltrúa nemenda úr 6 ára bekk í ráðið. Ég verð nú bara að leyfa mér að segja það að ef 6 ára gamall nemandi er svo bráðþroska, hann gæti verið það, væri allt í lagi að leyfa honum að sitja í nemendaráði og þjálfa hann upp í að taka ábyrgð í skólastarfi. Nú sé ég að hv. 3. þm. Vesturl. brosir í kampinn. Þetta fannst honum víst ekki skynsamlega sagt, en ég stend við það sem ég sagði. Það er ekki aldurinn sem skiptir máli. Hitt vil ég benda á að gert er ráð fyrir því í frv. að þar sem ekki er talinn grundvöllur fyrir stofnun skólaráðs sé hægt að sækja um undanþágur, og það mætti hugsa sér að skóli sem ekki hefði eldri nemendur en 6--11 ára teldi ekki ástæðu til þess að hafa skólaráð. Hins vegar gæti þá hinn hluti grunnskólans, sem hlýtur að vera einhvers staðar til og er fyrir nemendur að 9. bekk, fundið fulltrúa til þess að sitja í skólaráði. Svo að það er gert ráð fyrir þessum undantekningum. Það er útgönguleið hv. 3. þm. Vesturl.
    En ég er ánægð að sjá að hæstv. menntmrh. er nú kominn aftur niður í grunnskólann og til okkar hér í hv. Ed. Það voru aðeins örfá atriði sem hann kom hér inn á og ég var að vísu búin að svara að honum fjarstöddum, en ætla að leyfa mér að endurtaka það. Það sem vafðist fyrir hæstv. ráðherra og hann spurði um, sem kom mér í raun og veru nokkuð á óvart, var hvernig flm. hugsuðu sér að þessi réttur foreldra til áhrifa væri, þetta um að vera til ráðuneytis. Ég svaraði því hér áðan að mér finnst þetta liggja svo augljóslega fyrir því að í raun og veru er þessu svarað í 1. gr., þar sem talað er um að skólaráðið eigi að vera í hópi þeirra aðila sem eru til samráðs fyrir skólastjórann um starfsemi skólans, og svo jafnframt

í 3. gr., þar sem gert er ráð fyrir því að sjálfur hæstv. menntmrh. setji reglugerð og erindisbréf fyrir skólaráðin. En auðvitað er þetta fyrst og fremst hugsað til ráðuneytis, til þess að fylgjast með hvernig skólastarfinu er háttað og til þess að hafa áhrif. Ég lít ekki svo á að slíkt skólaráð séu til höfuðs skólamönnum, eins og virðist hvarfla að sumum hv. þingdeildarmönnum sem hér hafa talað að menn séu tortryggnir út í svona skólaráð. Ég lít alveg þveröfugt á þetta. Skólaráð er einmitt hugsað til þess að aðstoða og hjálpa skólamönnum til þess að búa sem best að börnum þeirra í skólunum, þetta er sameiginlegt hagsmunamál.
    En ég vil samt sem áður þakka hæstv. ráðherra fyrir hans áhuga á þessu máli og ég efast ekki um að hann muni vera því velviljaður og setja góða reglugerð og gott erindisbréf fyrir slíkt skólaráð ef við verðum svo heppin að frv. verði að lögum, þrátt fyrir að einhver andstaða sé við það á hv. Alþingi.