Getraunir
Miðvikudaginn 02. nóvember 1988

     Hreggviður Jónsson:
    Hæstv. forseti. Það frv. sem hér liggur fyrir til laga um breytingu á lögum um getraunir er fyrst og fremst liður í nútímavæðingu getrauna, en um langt árabil hefur íþróttahreyfingin staðið fyrir því að selja getraunaseðla og menn hafa gert það í sjálfboðavinnu. Ég er einn af þeim mörgu sem hafa um árabil selt slíka miða og margir af félögum mínum hafa gert það í fjölda ára. Þetta hefur verið ómetanleg búbót fyrir íþróttafélög um allt land því að það hafa verið fyrst og fremst íþróttafélög og ungmennafélög um landið sem hafa fengið þessar tekjur. Hefur þetta verið það sem hefur haldið starfseminni gangandi víða og orðið til þess að hægt væri að halda uppi fjölbreyttu íþróttastarfi.
    Forsaga þessa máls er sú að félög á Reykjavíkursvæðinu, ef ég man rétt, KR, Víkingur og Valur, stóðu að getraunum fyrir fjölda ára og það var vísirinn að því sem er nú. Síðan var haft frumkvæði að því að koma getraunum á nýjan grundvöll, undir forustu m.a. formanns Borgfl. Alberts Guðmundssonar á sinni tíð, sem hefur æ síðan verið ríkur þáttur í fjáröflun þessara félaga. Það er því svo að ég vil styðja það og stuðla að því að frv. fái hraða afgreiðslu hér í deild. Ég tel að það sé mjög brýnt því að þegar hafa verið gerðar áætlanir um það og menn bíða eftir að farin verði sú leið sem hér getur, þ.e. í gegnum tölvukerfi með breyttu vinningshlutfalli.
    Það er hins vegar rétt sem kemur fram hjá hv. 2. þm. Norðurl. v. að í fjárlagatillögum, sem nú liggja fyrir frá ríkisstjórninni, eru kaldar kveðjur til íþróttahreyfingarinnar af því að þar á að leggja á 12% söluskatt. Það eru háar upphæðir, bæði hvað getraunir varðar og lottó, því að þetta er veruleg skerðing á því fjármagni sem er þar velt og verulegur samdráttur fyrir íþróttahreyfinguna og mun hafa alvarlegar afleiðingar.
    Þar að auki vil ég minna á að í fjárlögum fyrir næsta ár eru framlög til Íþróttasambands Íslands og Ólympíunefndar Íslands aðeins hækkuð um 10%, sýndist mér lauslega, sem þýðir að sú starfsemi mun standa mjög höllum fæti. Hér er mjög verulega skorið á fjármagn til íþróttahreyfingarinnar. Ég mun berjast harðri baráttu fyrir því á þinginu að þau framlög verði hækkuð og þessi 12% söluskattur verði felldur niður eða lækkaður sem frekast má verða. Ég held að það fari ekki á milli mála að þessi skattlagning er mjög slæm. Ég mun að öðru leyti reyna að greiða fyrir frv.