Námslán og námsstyrkir
Miðvikudaginn 02. nóvember 1988

     Flm. (Finnur Ingólfsson):
    Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um breytingu á lögum nr. 72 frá 13. maí 1982, um námslán og námsstyrki, sem er að finna á þskj. 58 og er 56. mál þingsins. Flm. ásamt mér eru hv. alþm. Páll Pétursson, Guðrún Helgadóttir og Ragnar Arnalds.
    Ástæðan fyrir því að þetta frv. er nú flutt er sú að í málefnasamningi ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar er ekki að finna staf um málefni Lánasjóðsins. Ég legg því þann skilning í málefnasamninginn að ríkisstjórnin hyggist engar breytingar gera á lögunum frá 1982 um námslán og námsstyrki. Það samkomulag sem þá náðist var í raun og veru samningur sem gerður var milli námsmannahreyfinganna, þ.e. stúdentaráðs Háskóla Íslands, Bandalags ísl. sérskólanema og Sambands ísl. námsmanna erlendis, og þáv. menntmrh. Ingvars Gíslasonar.
    Þegar lögin um námslán og námsstyrki höfðu verið samþykkt var í október 1982 sett reglugerð á grundvelli laganna og er það reglugerð nr. 578 frá árinu 1982. Í 21. gr. þeirrar reglugerðar eru ákvörðunaratriði um lánsupphæðir, hvernig þær skuli reiknaðar, hvaða breytingum reiknaður framfærslukostnaður skuli taka með tilliti til þróunar verðlags, gengis og launa. Í a-lið 21. gr. segir svo, með leyfi forseta, að framfærslukostnaður á námsstað skuli breytast að öðru jöfnu með þróun verðlags og gengis. Sjóðsstjórnin skuli fylgjast með því hvernig þessar tölur þróist í samanburði við launatekjur.
    Frá því í október 1982 að þessi reglugerð var sett hafa verið gerðar fimm breytingar á reglugerðinni og á þessum eina staflið 21. gr. Það sem allar þessar reglugerðarbreytingar eiga sameiginlegt er að þær eru gerðar af menntamálaráðherrum Sjálfstfl. og eru til þess að skerða kjör námsmanna. Í desember 1984 gerði þáv. menntmrh. Ragnhildur Helgadóttir þá breytingu á a-lið 21. gr. að á árinu 1985 skyldu fjárhæðir láns vegna náms á Íslandi fylgja þróun meðaltalsráðstöfunartekna samkvæmt útreikningi Þjóðhagsstofnunar. Níu mánuðum síðar eða í september 1985 ákveður sami ráðherra að fella þessa reglugerð úr gildi.
    Í lok árs 1985 verða ráðherrastólaskipti í ríkisstjórninni sem þá sat. Þá verður menntmrh. Sverrir Hermannsson. Hans fyrsta verk eftir áramótin 1986 var að ákveða að lánsfjárhæðir til námsmanna á árinu 1986 skuli vera jafnháar og á tímabilinu september til nóvember 1985, þ.e. hann ákveður að skerða framfærsluna sem nemur verðlagshækkunum.
    Í apríl þetta sama ár ákveður menntmrh. enn eina lækkunina á framfærslukostnaði námsmanna. Hann lætur ekki þar við sitja því að 1. júlí 1986, þremur mánuðum síðar, er enn ein breytingin gerð. Þá er ákveðið að reglugerðin skuli hljóða þannig, með leyfi forseta, að framfærslukostnaður á námsstað skuli að öðru leyti breytast með þróun verðlags og gengis og sjóðsstjórnin skuli fylgjast með því hvernig þessar tölur þróist í samanburði við launatekjur.
    Með þessari breytingu hljóðar þessi stafliður 20. gr.

orðrétt eins og hann var í upphafi með reglugerð um Lánasjóðinn sem þáv. menntmrh. Ingvar Gíslason setti í október 1982.
    Það er ekki hægt að segja að þessi vinnubrögð veki traust því að það er augljóst að þessir tveir menntamálaráðherrar hafa ekki vitað á hvaða leið þeir voru, hvað þá að þeir hafi vitað hvert markmiðið var með öllu saman. Maður spyr því þeirrar spurningar: Til hvers var allt þetta gert? Eftir stendur að reiknaður framfærslukostnaður námsmanna hefur verið skertur á þessu tímabili um nálægt 20%.
    Það sem er kannski öllu verra er að þessi hringlandaháttur í svo viðkvæmu máli sem framfærslukostnaður námsmanna er hefur leitt til þess að margir námsmenn hafa þurft að hrökklast frá námi. Hjá hinum sem hafa haldið áfram hefur þessi hringlandaháttur skapað mikla óvissu hjá mörgum fjölskyldum. Tilgangur þessa frv. er því sá að koma í veg fyrir að menntmrh. geti fyrirvaralaust og án nokkurs samráðs gert breytingar á reiknuðum framfærslukostnaði námsmanna.
    Frv. gerir ráð fyrir því að ef fram komi óskir eða tillögur um breytingar á þessum framfærslugrunni, þ.e. grunnframfærslu einstaklings í leiguhúsnæði, skuli þær áður en þetta öðlast gildi samþykktar af þriggja manna nefnd. Í nefndinni skulu eiga sæti einn fulltrúi menntmrh. og einn fulltrúi sameiginlega tilnefndur af námsmannasamtökunum, þ.e. stúdentaráði Háskóla Íslands, Bandalagi ísl. sérskólanema og Sambandi ísl. námsmanna erlendis. Einnig skuli hagstofustjóri eiga sæti í nefndinni. Komist námsmannasamtökin ekki að samkomulagi um tilnefningu fulltrúans skal hann tilnefndur af Hæstarétti.
    Verði nefndin sammála um breytingar á grunnframfærslunni skal breytingin öðlast gildi þegar í stað. Komist nefndin hins vegar ekki að samhljóða áliti ákveður menntmrh. grunnframfærsluna.
    Með þessu frv. er því ekki verið að taka valdið úr höndum menntmrh., síður en svo. Það er hins vegar verið að reyna að koma í veg fyrir að námslánin séu
skert fyrirvaralaust og reynt einnig að koma í veg fyrir að slíkur hringlandaháttur, sem viðgengist hefur í þessu máli og mér liggur við að segja ábyrgðarleysi, geti endurtekið sig því það er alveg augljóst að við slíkar kringumstæður er mjög erfitt að búa fyrir námsmenn, að vita aldrei frá mánuði til mánaðar hver þeirra framfærsla verður.
    Því hefur verið haldið fram að íslenskir námsmenn búi við eitt besta námslánakerfi í heimi. Ég hygg að þetta sé rétt og af því megum við vera stolt því að sennilega er nám einhver hagstæðasta fjárráðstöfun sem hugsast getur. Hins vegar mega hvorki námsmenn né ríkisvaldið binda sig svo fast í núverandi kerfi og núverandi fyrirkomulag að engar breytingar komi til greina því að það þarf ekki endilega að vera að þetta sé hið eina og endanlega fullkomna lánakerfi námsmanna. En hvaða breytingar sem kunna að verða gerðar á námslánakerfinu í framtíðinni er ég þeirrar skoðunar að námslánakerfið þurfi að uppfylla fjögur meginmarkmið:

    1. Að hlutverk kerfisins verði að jafna aðstöðu manna til náms.
    2. Að það taki tillit til aðstæðna námsmanna meðan á námi stendur.
    3. Að við endurgreiðslur lánanna að námi loknu skuli tekið fullt tillit til tekna lánþega.
    4. Að endurheimtuhlutfall lánanna skuli vera sem hæst.
    Hæstv. forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frv. þessu verði vísað til hv. menntmn.