Námslán og námsstyrkir
Miðvikudaginn 02. nóvember 1988

     Kristín Halldórsdóttir:
    Virðulegi forseti. Mér fannst það heldur ómaklegt að lemja á þeim hv. þm. sem bera fram þetta frv. með hæðnislegum tilvísunum til fortíðarinnar. Batnandi mönnum er að sjálfsögðu alltaf best að lifa. En ég tek engu að síður undir þær athugasemdir sem hafa verið bornar fram hérna varðandi það að flm. eru fjórir þingmenn úr tveim flokkum sem standa að núv. ríkisstjórn, en einn ríkisstjórnarflokkurinn á ekki fulltrúa í þessum hópi. Það kann að segja sína sögu og verður alls ekki hjá því komist að fá svar við því hjá hv. flm. hvort sá flokkur, Alþfl., sem ekki á fulltrúa að þessu þingmáli, styður þetta þingmál eða ekki.
    Það vekur líka upp spurningar um hvort hv. flm. hafi ekki verið kunnugt um hlut Lánasjóðs ísl. námsmanna í nýframkomnu frv. til fjárlaga. Það er reyndar fremur ótrúlegt þar sem á þessu þingmáli eru tveir fulltrúar Alþb. og Alþb. á ráðherra í þeim ráðuneytum sem málið er skyldast, þ.e. fjmrn. og menntmrn. En af nýframlögðu fjárlagafrv. er augljóst að það er ekki gert ráð fyrir auknu umfangi sjóðsins og það þarf ekkert að velta vöngum yfir því að þegar ákvæði til bráðabirgða, ef þetta frv. yrði að lögum, hefur verið framkvæmt kallar það vitanlega á aukið fjármagn til námslána.
    Framfærsluviðmiðunin, sem nú er í gildi, er augljóslega afar naum. Sú fullyrðing er ekkert út í bláinn. Námsmenn hafa lengi barist fyrir því að framfærslugrunnurinn verði leiðréttur og ég hygg að flestir sem hér eru inni kannist við þau mál. Framfærsla námsmanna var endurmetin fyrir tæpu ári eftir mikla baráttu námsmanna fyrir því og m.a. baráttu ýmissa þingmanna hér inni, en að beiðni þáv. menntmrh. var svokallaðri framfærslunefnd sjóðsins falið að kanna hvort núverandi framfærsluviðmiðanir við útreikning námslána væru orðnar úreltar. Þessi framfærslunefnd skilaði skýrslu í júní og hana skipa tveir fulltrúar ríkisvaldsins og námsmanna. Niðurstöður þessarar skýrslu sýna mjög ótvírætt að framfærslan sem miðað er við er ekkert í samræmi við raunveruleikann. Í þeirri skýrslu kemur fram að skýrslugerðarmenn lögðu reyndar ekki í sérstaka könnun á framfærslukostnaði námsmanna þar sem hún væri bæði tímafrek og kostnaðarsöm, en þeir reyndu að leggja mat á framfærsluþörf námsmanna eftir tiltækum og nothæfum gögnum um almennan framfærslukostnað. Þá höfðu nýlega birst niðurstöður framfærslukönnunar Hagstofu Íslands þar sem fást upplýsingar um framfærslukostnað eftir fjölskyldustærð og með því að færa niðurstöðu könnunarinnar til verðlags í maí 1988 fengust eftirfarandi upplýsingar um meðaltalsframfærslukostnað eftir fjölskylduhópum: einstaklingar 667.876 kr. á ári, einstætt foreldri 902.894 kr., barnlaus hjón 1.198.388 kr. og hjón með börn 1.563.902 kr. Af þessu má sjá eftirfarandi: Að neysluútgjöld einstaklings eru 55.656 kr. á mánuði, neysluútgjöld einstæðs foreldris eru 2350 kr. umfram útgjöld einstaklings, neysluútgjöld barnlausra hjóna eru tæplega 80% hærri en útgjöld einstaklings og

neysluútgjöld hjóna með börn eru 3655 kr. hærri en útgjöld barnlausra hjóna.
    Út frá þessum tölum er síðan gengið, þ.e. miðað við að meðalútgjöld einstaklinga samkvæmt þessari könnun séu 55.656 kr. á mánuði, en það er vissulega ekki gengið út frá því að þá tölu nákvæmlega þurfi að leggja til viðmiðunar þegar framfærslugrunnur er fundinn fyrir námsmenn heldur leggja þeir sjálfstætt mat á það, bæði fulltrúi ríkisstjórnarinnar og fulltrúi námsmanna, og komast að ofurlítið mismunandi niðurstöðum sem búast mátti við. Fulltrúi ríkisstjórnarinnar kemst að þeirri niðurstöðu að framfærsluþörf námsmanns í leiguhúsnæði geti vart verið undir 42.122 kr. á mánuði --- og ég legg áherslu á það að hér er miðað við verðlag í maí --- en fulltrúi námsmanna hefur eilítið hærri tölu og það er 46.685 kr.
    Þetta vildi ég láta koma hérna fram. Þetta er athyglisverð skýrsla, sem ég hygg að menntmrh. hafi í sínu ráðuneyti og sömuleiðis fjmrh., og þessar niðurstöður sýna mjög ótvírætt að fulltrúar beggja þessara aðila eru þeirrar skoðunar að framfærsluviðmiðunin, sem nú er lögð til grundvallar, sé ekkert í samræmi við veruleikann. Ég held að það komi hér fram að nú er framfærslan metin á rúmlega 30 þús. kr.
    Þetta misræmi er auðvitað afleiðing þess að það var verið að krukka í viðmiðun framfærslu sem var í gildi og ég er sammála hv. flm. að það sé nauðsynlegt að reyna að setja einhvern hemil á inngrip ráðherra í þessi mál. Þetta varðar hag og afkomu þess fjölda fólks sem hefur framfæri sitt af þessum lánum og okkur er ekki stætt á því, það er ekki sómi að því að það sé verið að þvæla fram og aftur með þessi mál. Þess vegna fagna ég frv. sem hér er fram komið og vona að það fái verðuga umfjöllun og athugun í nefnd, en vænti að svar við spurningum sem hér hafa verið fram bornar komi fram á eftir.