Námslán og námsstyrkir
Miðvikudaginn 02. nóvember 1988

     Páll Pétursson:
    Herra forseti. Mér fannst þeir flytja dálítið einkennilegar ræður áðan, hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson og hv. þm. Hreggviður Jónsson, því það var eins og þeir hefðu ekki lesið þetta frv. og voru að tala um efni sem alls ekki er getið um í frv.
    Það er svo að Framsfl. á heiðurinn af því námslánakerfi sem hér er við lýði. Vilhjálmur Hjálmarsson, fyrrv. menntmrh., átti drjúgan hlut að því að setja þetta kerfi og Ingvar Gíslason, sem einnig var menntmrh., vann einnig að því og ef ég man rétt voru núverandi lög um Lánasjóð ísl. námsmanna samþykkt í menntamálaráðherratíð Ingvars Gíslasonar og fyrir hans forgöngu og með tilstyrk annarra góðra manna hér á þinginu. Það er skynsamlegt fyrirkomulag sem þarna var samið um og menn prófuðu sig áfram, sniðu vankanta af eldri lögunum og voru komnir með nokkuð skynsamlegt form.
    Þrátt fyrir að e.t.v. mætti skilja annað á hæstv. fyrrv. menntmrh. er rétt að taka það fram að ríkisstjórn er ekki fjölskipað stjórnvald. Ég er ekki viss um að það sé heppilegt fyrirkomulag að hún skuli ekki vera fjölskipuð og hefði gjarnan oft viljað horfa upp á ríkisstjórnir, sem ég hef stutt, með minna einkavaldi einstakra ráðherra og meira samráði á milli stjórnarflokka. Reglugerðarbreyting er tvímælalaust málefni ráðherra en ekki allrar ríkisstjórnar og sama er að segja um breytingar á reglugerðum um Lánasjóð ísl. námsmanna. Það er málefni þess menntmrh. og framkvæmd á ábyrgð hans reglugerðarsetningin. Mér er ókunnugt um hvort reglugerðir eru yfirleitt teknar til umræðu á ríkisstjórnarfundum. Það kann að vera að einhver álitamál séu tekin þar til umræðu, en ég hef þá trú að yfirleitt gangi ráðherrar frá sínum reglugerðum og gefi þær út án íhlutunar annarra ráðherra.
    Í síðustu tveimur ríkisstjórnum hefur Framsfl. þurft að heyja stöðuga varnarbaráttu fyrir þeim skynsamlegu lögum um Lánasjóð ísl. námsmanna sem sett voru í tíð Ingvars Gíslasonar. Það hafa verið uppi kröfur um breytingar á þessum lögum sem yfirleitt áttu það sameiginlegt að þrengja mjög að rétti námsmanna og okkur tókst að koma í veg fyrir það, en við réðum ekki við að halda reglugerðinni óbreyttri því að ráðherravaldið var hjá sjálfstæðismönnum. Ég bið hv. þm. að lesa þetta litla frv. Það eru ekki eins og þetta séu byltingarkenndar hugmyndir sem þarna eru settar fram. Það er einungis beðið um það að sýna námsmönnum eðlilega mannasiði og gefa þeim tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Í 1. gr. frv. stendur:
    ,,Komi fram óskir eða tillögur um breytingar á útreiknuðum framfærslugrunni skal um þær fjallað af þriggja manna nefnd áður en þær taka gildi. Nefndin skal skipuð einum fulltrúa tilnefndum af menntmrh., einum tilnefndum sameiginlega af samtökum námsmanna auk hagstofustjóra eða fulltrúa hans sem skal vera formaður nefndarinnar.``
    Mér sýnist ekki verið að færa námsmönnum eitthvert alræðisvald um hvernig þessum málum skuli

hagað. Það er einungis að það verði fjallað um mál áður en ráðherra tekur sína ákvörðun. Og það er ekkert verið að taka valdið af menntmrh. Það er hans að kveða upp síðasta orðið. Það er hans að ákveða endanlega hvernig reglugerðin verður, enda er það sjálfsagður hlutur, en það er verið að koma í veg fyrir að hann freistist til þess að koma í bakið á námsmönnum og kippa undan þeim fótunum kannski á miðju námsári. Vald ráðherrans er óskert og ég vil taka það fram hér og nú að ég treysti núv. menntmrh. prýðilega til að fara með þetta vald. Hann hefur látið sig málefni Lánasjóðs ísl. námsmanna miklu skipta á undanförnum árum og hann hefur haft á þeim ákveðnar skoðanir og ég veit að þær hafa ekkert breyst þó að hann taki nú við starfi menntmrh.
    Í ákvæði til bráðabirgða er lagt til að kortlögð verði staðan og að skoða hvort ástæða er til að breyta þessu. Þetta er dýrt kerfi, námslánakerfið. Það þarf mikið fé í það. Það er eðlilegt að reyna að halda því í skynsamlegu formi. Ég tek fram að það er ekki eins og sé verið að gefa námsmönnum peninga. Það er verið að lána þeim peninga meðan þeir eru að mennta sig, peninga sem þeir síðan endurgreiða þegar þeir eru komnir til starfa. Ég held að þetta sé skynsamleg fjárfesting. Ég held að það sé skynsamleg meðferð á fjármunum að fjárfesta í menntun.
    Sem betur fer kemur flest þetta fólk til starfa í íslensku þjóðfélagi og er íslensku þjóðfélagi til þrifa að námi loknu. Það kann að vera að sú hugmynd sé réttmæt að herða endurgreiðslureglur hjá þeim sem ákveða að eyða starfsævi sinni í öðrum löndum. Mér finnst vel geta komið til greina að þeir endurgreiði hraðar en aðrir lánþegar ef menntun þeirra kemur íslensku þjóðfélagi ekki til góða. Það er kannski vandmeðfarið að setja um þetta sanngjarnar og eðlilegar reglur, en ég legg á það megináherslu og það er aðalpunkturinn í þessu að þessa peninga á að endurgreiða og þeir endurgreiðast hér um bil allir.
    Ég held að það þurfi líka að skoða hvort ástæða er til að opna fyrir fleiri námsmannahópum eða e.t.v. að þrengja aðgöngu að Lánasjóðnum. Mér finnst að að sumu leyti sé nokkuð handahófskennt hverjir það eru sem eiga rétt á námslánum og hverjir ekki og ég held að það þurfi að fara yfir það með
sanngirni og með opnum huga hvort ástæða er til að breyta þarna einhverju vegna þess að mér finnst að það gæti handahófs í því hverjir hafa lent þarna og ég sé ekki alveg rökin fyrir öllum. Það getur vel verið að einhverjir standi hins vegar utan við sem ættu að vera þarna, einhverjir hópar. Það getur líka verið. Svona atriði er eðlilegt að skoðuð séu.
    Við framlagningu fjárlagafrv. fyrir næsta ár reyndist ekki svigrúm til að bæta við Lánasjóðinn. Við hefðum sjálfsagt allir, stjórnarliðar, gjarnan viljað sjá hærri upphæðir til Lánasjóðs ísl. námsmanna. En ríkisstjórnin er engin skemmtinefnd fremur en hreppsnefndin í Mosfellssveitinni í Innansveitarkróníku og það reyndist bara ekki hægt. Eins og fjmrh. tók fram á blaðamannafundi í gær eru þetta aðhaldsfjárlög og er reynt að sporna við útþenslu og þetta eru

niðurskurðarfjárlög og reyndist ekki mögulegt að ánafna Lánasjóði ísl. námsmanna hærri upphæð en þarna stendur. Vonandi siglum við í bjartara efnahagsástand einhvern tíma í framtíðinni og þá verður kannski svigrúm til að hækka þetta. Við skulum vona það þó maður sjái það ekki alveg handan við hornið.
    Varðandi það hvort Framsfl. standi að þessu frv., þá er þetta mál sem undirbúið var í fyrra, en látið liggja af tillitssemi við þáv. menntmrh. vegna þess að hann af einhverjum óskiljanlegum ástæðum leit á þetta sem eitthvert vantraust á sig. Það var eins og hann vissi upp á sig einhverja skömm. Hann vildi síður fá fram frv. Þá vorum við búnir að bera þetta undir okkar þingflokk og hann sá ekkert athugavert við að flytja það, enda var þetta ekkert vantraust á hæstv. þáv. menntmrh., síður en svo, heldur beinlínis til að hjálpa honum að koma kurteislega fram við námsmenn.
    Það er rétt að geta þess að hæstv. núv. ráðherra vissi a.m.k. ekki upp á sig neina skömm. Hann fann ekkert að því að við flyttum þetta mál. Og ég á von á því að hans flokksbræður muni líka styðja þetta. Mér finnst að þetta sé svo einfalt og vandalítið mál að ég trúi ekki öðru en það hafi ágætan stuðning hér á Alþingi.