Námslán og námsstyrkir
Miðvikudaginn 02. nóvember 1988

     Flm. (Finnur Ingólfsson):
    Herra forseti. Ég vil koma á framfæri örstuttri athugasemd til að leiðrétta það sem kom fram hjá hv. 2. þm. Reykv. að það þyrfti 500 millj. kr. til þess að standa undir þeim útgjaldaauka hjá Lánasjóðnum ef námslánin hækkuðu um 17--20%. Í fyrsta lagi er nú ágreiningur milli námsmanna annars vegar og stjórnar Lánasjóðsins hins vegar um hvort þessi skerðing er 17% eða 20%.
    Ég er hérna með Morgunblaðið frá 20. okt. Þar kemur fram í viðtali við Þorbjörn Guðmundsson, framkvæmdastjóra Lánasjóðs ísl. námsmanna, að ef bæta eigi námsmönnum skerðinguna með 17% hækkun kosti það 275 millj. Ef menn hækka hins vegar framfærsluna um 20% kosti það 324 millj. Þetta er heildarútgjaldaaukinn fyrir Lánasjóðinn við þessa breytingu. En úr því að hv. 2. þm. Reykv. kvartaði undan því hér áðan að ekki hefðu verið til peningar í Lánasjóðnum þegar hann fór þar með völd og því hefði þurft að skera niður. Það má benda á það að hér hefur rækilega verið undirstrikað að peningar voru til í Lánasjóðnum til þess að færa frá þeim sem ekki þurftu á lánum að halda til þeirra sem ekki höfðu þörf fyrir lán. Til þess voru til peningarnir í ráðherratíð Birgis Ísl. Gunnarssonar í menntmrn., að færa þá frá þeim fátæku til hinna ríku.