Námslán og námsstyrkir
Miðvikudaginn 02. nóvember 1988

     Birgir Ísl. Gunnarsson:
    Herra forseti. Ég vil gera hér örstutta athugasemd því að auðvitað átti hv. þm. að vita betur þegar hann vitnaði hér í Morgunblaðið. Tillaga hans eða tillaga í ákvæðum til bráðabirgða er að leggja eigi mat á framfærslu námsmanna eins og hún er við gildistöku laganna samanborið við framfærslu námsmanna eins og hún var í maí 1982.
    Þetta er tvíþætt. Annars vegar er skerðingin, sem er 17 eða 20%, en við skulum láta það liggja á milli hluta. Það eru þessar 275 millj., eða hvaða tala það var sem Þorbjörn Guðmundsson nefndi í Morgunblaðsgreininni. Hitt er endurskoðunin á framfærslugrunninum sem gerir það að verkum að talan verður 500 millj., sú endurskoðun liggur líka fyrir. Við megum því ekki gleyma að þetta er tvíþætt og hv. þm. tók bara annan þáttinn með í sínum tölum hér áðan.