Stefnuræða forsætisráðherra
Fimmtudaginn 03. nóvember 1988

     Þorsteinn Pálsson:
    Frú forseti. Góðir Íslendingar. Á dagskrá þessa fundar í kvöld samkvæmt þingsköpum er stefnuræða hæstv. forsrh. Hæstv. forsrh. hefur samkvæmt því talað hér í hálfa klukkustund, en hefur hann flutt stefnuræðu? Heyrði einhver stefnumörkun ríkisstjórnarinnar eða boðskap ríkisstjórnarinnar í máli forsrh.? Ekki fannst mér fara mikið fyrir því. Ekki heyrði ég þann boðskap.
    En hvert var þá erindi forsrh. hingað upp í ræðustólinn? Hann kom hingað með handlaug til þess að þvo hendur sínar af því sem hann telur að hafi farið úrskeiðis í stjórn þjóðarinnar á undanförnum árum þar sem Framsfl. hefur setið samfleytt í ríkisstjórn í 17 ár. Tökum tvö dæmi úr ræðunni. Hann segir í fyrri hluta ræðunnar:
    ,,Síðan 1985 hefur verið fylgt hefðbundnum vestrænum leiðum í efnahagsmálum.`` Og hann bætir við: ,,Um þessa leið voru að vísu skiptar skoðanir, en þeir sem ráðið hafa stjórn peningamála í landinu höfðu sitt fram.`` Verkstjórinn í þáv. ríkisstjórn 1985 réði engu. Hann bar enga ábyrgð. Og í síðari hluta ræðunar segir hæstv. forsrh.: ,,Það er kaldhæðnislegt að í góðærinu felst broddur erfiðleikanna`` og hann bætir við: ,,Ofneysla í nafni frjálshyggjunnar.``
    Í góðærinu jukust þjóðartekjurnar um 8% en launin um meira en 30%. Þá var hæstv. núv. forsrh. forsrh. í hið fyrra sinn, verkstjórinn um stjórn efnahagsmála. Hann bar enga ábyrgð á því að með þessum hætti voru fluttir milljarðar króna frá sjávarútveginum til neyslunnar í landinu. Það var ofneysla í nafni frjálshyggjunnar. Hverjir voru þessir ofneyslumenn frjálshyggjunnar? Voru það verkalýðsforingjarnir sem toguðu upp launin? Eða voru það bara samráðherrar hæstv. forsrh., sem lutu hans verkstjórn, sem báru ábyrgðina? Þetta er í raun og veru eini boðskapur hæstv. forsrh. hér í kvöld: að þvo hendur sínar. Og hann leggur á það áherslu að þetta hafi verið og sé eini tilgangur ráðherra Framsfl. í ríkisstjórn: að sitja þar án ábyrgðar. Og þetta er áframhaldandi tilgangur Framsfl. í ríkisstjórn.
    Tökum tvö dæmi héðan úr þingsölum síðustu daga. Hæstv. viðskrh., sem hér situr, bað alþm. fyrir nokkrum dögum að ræða ekki um lánskjaravísitöluna á meðan hún væri til athugunar í Seðlabanka vegna þess að það gæti komið ókyrrð á markaðinn. En þm. Framsfl. hlupu til og fluttu um það tillögu að taka lánskjaravísitölumálið úr höndum viðskrh. og setja það í sérstaka nefnd. Og hæstv. menntmrh., sem ekki er í þingsalnum núna, tók þá ábyrgu afstöðu þegar hann varð ráðherra að halda áfram skerðingu námslána. Þegar hann hafði tekið þessa ábyrgu afstöðu komu tveir þm. Framsfl. og fluttu um það frv. að ríkisstjórn og ráðherra mættu ekki upp á eigin spýtur, þegar vandi steðjar að í fjármálum ríkisins, skerða námslánin.
    Hæstv. menntmrh. stóð upp, og ég vorkenndi honum, og hann sagði: Ég styð þetta frv. En ég ber virðingu fyrir honum fyrir það að hann sagði: Þrátt fyrir þetta ætla ég að standa við orð mín og skerða

námslánin á næsta ári vegna stöðu ríkissjóðs. En svo ætlar hæstv. forsrh. að koma hér að ári og flytja stefnuræðu, koma með handlaugina sína og þvo hendur sínar og segja: Námslánin eru ekki Framsóknar, þau eru menntmrh. Vísitölukákið er ekki Framsóknar, það er viðskrh.
    Heyrði einhver framtíðarsýn í stefnuræðu hæstv. forsrh.? Talaði hann eitthvað um þær breytingar, tæknibyltingar og þau áhrif á heimili og atvinnufyrirtæki í landinu sem hún skapar? Ekki orð um það. Ræddi hæstv. ráðherra um íslenska menningu og þjóðerni? Ræddi hæstv. ráðherra um íslenska menntastefnu? Ræddi hæstv. forsrh. um umönnun sjúkra og aldraðra í íslensku þjóðfélagi? Ekki eitt orð um það nema hvað lítillega var minnst á að draga úr tryggingabótum. Ræddi hæstv. ráðherra um það mikilvægasta verkefni sem blasir við íslenskum stjórnvöldum á næstu árum, umhverfismálin, verndun hafsins gegn mengun og uppgræðslu landsins? Ekki eitt orð. Snerti hann einn streng í þjóðernistilfinningu landsmanna? Engan.
    Það blæs á móti í íslenskum þjóðarbúskap í dag og við þurfum að móta okkar umræðu í samræmi við það. En heyrði einhver hæstv. forsrh. hafa neista af þeim eldmóði sem fyrsti íslenski ráðherrann hafði, sem kvað: Ég elska þig stormur, þegar á móti blés? Enginn slíkur neisti.
    Þó að hæstv. forsrh. hafi hér ekki flutt stefnuræðu, þá ber okkur þm. auðvitað að ræða hispurslaust og af hreinskilni um stöðu þjóðarbúskaparins í dag. Það hefur verið langvarandi vandi í íslenskum þjóðarbúskap að glíma við viðskiptahalla og halla á fjárlögum og ég játa hér hreinskilnislega og tek á mig ábyrgð á því að á skömmum tíma fyrrv. ríkisstjórnar tókst ekki að leysa þennan vanda. En fyrri ríkisstjórn tókst að lækka verðbólgu úr nálega 30% niður í u.þ.b. 10% í síðasta mánuði eða septembermánuði áður en hún fór frá. Henni tókst að lækka nafnvexti úr 40% niður í 25%. Og henni tókst að draga úr ofþenslunni umfram eftirspurn upp á 3--4 þúsund störf og koma á nánast jafnvægi í septembermánuði áður en hún fór frá. En henni tókst ekki að ná samstöðu um raunhæfar og nauðsynlegar aðgerðir í þágu atvinnuveganna í landinu.
    Það er rétt sem hæstv. forsrh. hefur minnt á að ég setti það skilyrði í
júlímánuði að það næðist slík samstaða um aðgerðir í ágústlok eða byrjun september. Við sjálfstæðismenn lögðum fram tillögur þar að lútandi, tillögur sem tóku tillit til þess að það er ekki hægt að taka á vandanum með raunhæfum aðgerðum nema horfast í augu við það að það þarf að breyta raungengi krónunnar. Við vorum hins vegar tilbúnir til málamiðlana í þeim tilgangi að skapa víðtæka pólitíska samstöðu. En við vildum horfast í augu við staðreyndirnar. Meginuppistaðan var því að breyta raungengi krónunnar. En þá sögðu ráðherrar Alþfl. og Framsfl.: Við viljum bíða. Við viljum ekki gera neinar raunhæfar aðgerðir. Við ætlum okkur að bíða. Og þeir mynduðu nýja ríkisstjórn til þess að lengja í

hengingaról atvinnulífsins.
    Nú hefur hæstv. forsrh. lesið upp það sem þeir kalla aðgerðir. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það sem þeir kalla aðgerðir í þágu atvinnulífsins. Forustumenn atvinnuveganna, sjávarútvegsins, iðnaðarins, jafnvel forustumenn SÍS hafa talað. Þeir tala allir einum rómi. Þeir tala allir í einum kór. Þeir segja eitt og það sama: Þessar aðgerðir duga ekki. Þær hafa enga þýðingu til þess að reisa við rekstur atvinnuveganna. Þær taka ekki á kjarna málsins.
    Hæstv. forsrh. flutti varnarræðu hér í Ed. fyrir nokkrum dögum og þá sagði hann orðrétt, með leyfi forseta:
    ,,Það er sannarlega viðurkennt að fyrstu aðgerðir ríkisstjórnarinnar skapa alls ekki viðunandi rekstrargrundvöll, alveg sérstaklega þegar til lengri tíma er litið, og á mörkum að þær geri það þann skamma tíma sem þeim mörgum hverjum er ætlað að gilda.``
    Við stjórnarandstæðingar þurfum ekki að hafa mörg orð. Við þurfum ekki að segja mörg stór orð. Við getum vitnað í þessa ræðu hæstv. forsrh. sem afsakar það í Ed. Alþingis og segir skýrum orðum: Þær duga ekki til skamms tíma og þær duga alls ekki til lengri tíma.
    Þetta eru staðreyndir málsins. Þetta staðfestir það sem hér hefur verið sagt, að Alþfl. og Framsfl. tóku ákvörðun um að bíða, bíða með það að horfast í augu við raunverulegan vanda og gera það sem raunverulega þarf fyrir atvinnuvegina í landinu.
    Og nú hefur hæstv. fjmrh. lagt fram fjárlagafrv. Í hverju er það fólgið? Hvaða stefnu boðar það fyrir atvinnuvegina? Hærri skatta á atvinnuvegina. Á sama tíma og ríkisstjórnin eys með annarri hendinni erlendum lánum í atvinnufyrirtækin, sem eru ofhlaðin af lánum fyrir, þá ætla þeir að taka meiri skatta af atvinnufyrirtækjunum, jafnvel söluskattinn af sjávarútveginum að nokkrum hluta til. Það þarf ekki í mörgum orðum að segja hvað þetta þýðir fyrir íslenskt atvinnulíf. Í stað þess að örva atvinnulífið, sjávarútveginn og iðnaðinn, þá er verið að herða að. Hæstv. fjmrh. talar um það í fjölmiðlum að fjárlagafrv. hans boði aðhald og niðurskurð. Það stendur þó skýrum stöfum í frv. að það felur í sér 1% aukningu ríkisútgjalda. Og þegar tölurnar eru nánar skoðaðar kemur í ljós að það stendur engin ákvörðun á bak við töluna um lækkun launaútgjalda, að það er vanáætlun eða ofáætlun réttara sagt á tekjum ríkissjóðs af innflutningi. Og þeir gleyma því að taka með 800 millj. kr. sem hæstv. sjútvrh. hefur tilkynnt að eigi að falla á ríkissjóð af þeirri upphæð sem leggja á í Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins. Þegar upp er staðið er ekki afgangur á fjárlögum næsta árs upp á 1,2 milljarða, heldur halli upp á 1 milljarð kr.
    Svo eru það skattarnir. Hátekjuskattarnir samkvæmt orðum fjmrh. eru lagðir á alla þá sem hafa tekjur yfir 60 þús. kr. Hátekjuskattarnir eiga þannig að leggjast á fiskverkakonuna sem vinnur í bónusvinnu og kannski nokkra tíma í aukavinnu. Og svo á að leggja skatta á eyðsluna. Hver er eyðslan? Eyðsluskattarnir

eru skattar á þau samtök frjálsra borgara í landinu sem hér hafa lyft grettistaki í velferðarmálum og til þess að skapa æskufólki góða íþróttaaðstöðu. Er nema furða þó sumir segi: Hér eru á ferðinni öryrkjaskattar, íþróttamannaskattar og menntamannaskattar.
    Þessi ríkisstjórn hefur boðað nýja stjórnlyndisstefnu. Hulinn verndarkraftur þessarar ríkisstjórnar, hv. þm. Stefán Valgeirsson, hefur lýst þessari stjórnarstefnu svo að hún sé í því fólgin að hafa puttana á sjóðakerfinu, að hafa puttana á atvinnufyrirtækjunum, að hafa puttana á því hvaða fyrirtæki lifa í dag, að hafa puttana á því hvaða fyrirtæki deyja á morgun.
    Ég var á fundi í Siglufirði á sunnudaginn var. Þar stóð upp gamalreynd baráttukona. Hún sagði þessi orð: ,,Stjórnmálamenn hafa aldrei lyft atvinnulífinu út úr eða upp úr erfiðleikum. Það hefur fólkið sjálft gert.`` Í þessari einföldu setningu felst meiri og gildari boðskapur en í mörgum, mörgum ræðum af því tagi sem hæstv. forsrh. hefur flutt hér í kvöld. Í þessum orðum baráttukonunnar úr Siglufirði felst það að stjórnvöld eiga að tryggja almennan rekstrargrundvöll fyrir atvinnulífið í landinu, en leyfa stjórnendunum og fólkinu að hafa athafnafrelsi og svigrúm til þess að takast sjálft á við verkefnin og lyfta atvinnulífinu upp úr erfiðleikunum.
    Í þessum orðum baráttukonunnar úr Siglufirði felst hin frjálslynda
umbótastefna sem Sjálfstfl. berst fyrir, barðist fyrir í síðustu ríkisstjórn og mun berjast áfram fyrir í þágu atvinnuveganna í landinu, fyrir menntun æskufólksins á Íslandi, til varðveislu fyrir þjóðerni og tungu Íslendinga, fyrir framtíð Íslands í breytilegum heimi.