Stefnuræða forsætisráðherra
Fimmtudaginn 03. nóvember 1988

     Guðmundur Ágústsson:
    Virðulegur forseti. Góðir áheyrendur. Eftir að hafa hlýtt á stefnuræðu hæstv. forsrh. og skoðað málefnasamning ríkisstjórnarinnar er ekki laust við að maður fái á tilfinninguna að nú loks sé komin ríkisstjórn sem ætli að taka á vandamálum þjóðarinnar. Þegar hins vegar er litið á fyrstu aðgerðir hennar kemur í ljós að hún virðist á engan hátt ætla að verða frábrugðin þeirri sem varð að hverfa af vettvangi og þeim öðrum sem hér hafa ríkt. Um er að ræða sömu bráðabirgðalausnirnar og fyrri ríkisstjórnir hafa gripið til. Sambland af gengisfellingu og millifærslu, ómarkvissar og tilviljanakenndar aðgerðir sem byggjast frekar á óskhyggju og bjartsýni en heilsteyptri og markvissri stefnu.
    Með aðgerðum ríkisstjórnarinnar, eins og þær koma fram í nýsettum bráðabirgðalögum, er fyrst og fremst verið að vega að hinum almenna borgara. Hann er látinn blæða fyrir sukkið og svínaríið sem viðgengist hefur á síðustu árum, jafnt hjá ríkinu og ríkisstofnunum sem og í einkageiranum. Ríkisstjórn jafnréttis og félagshyggju er bara orðin tóm.
    Hvað tekur við er bráðabirgðalögin hafa runnið sitt skeið á enda og hvernig verður þá umhorfs í þjóðfélaginu? Því svaraði hæstv. forsrh. ekki í sinni ræðu. Því miður er ástæða til að óttast ófrið á vinnumarkaði og stórfelldar gjaldskrár- og verðhækkanir, bæði hjá hinu opninbera og hjá einkaaðilum. Með verðstöðvuninni er einungis verið að búa til stíflu og eftir því sem lengra líður safnast meira fyrir og þegar hleypt verður frá má búast við flóðbylgju.
    Hvað er þá unnið með þessum aðgerðum? Það er skoðun Borgfl. að aðeins sé verið að fresta vandanum, en með þeim sé ekki verið að styrkja stoðir efnahagslífsins eða efla nýjan atvinnurekstur svo að þjóðfélagið geti betur varist baksveiflum í sjávarútvegi.
    Með aðgerðum ríkisstjórnarinnar er ekki verið að taka á meini íslensks þjóðfélags, útþenslu ríkiskerfisins, sjálfvirkni kaupgjalds og verðlags, erlendri skuldasöfnun og einhæfni undirstöðuatvinnurekstrarins. Þvert á móti boðar þessi ríkisstjórn bráðabirgðalausnir og áframhald fyrri stjórnarstefnu. Hver kannast ekki við nýjar skattaálögur, kjaraskerðingu, viðskiptahalla og aukna skuldasöfnun. En þessir þættir eru megininntak stefnuræðu forsrh.
    Það er ljóst, eins og með fyrri ríkisstjórnir, að þessari ríkisstjórn er einungis ætlað að halda hjóli atvinnulífsins gangandi frá degi til dags en hún hefur ekki markvissa stefnu sem tryggir atvinnustarfseminni starfsskilyrði og borgurunum mannsæmandi laun. Því miður, áheyrendur góðir, er þessi ríkisstjórn ekki líkleg til afreka frekar en fyrri stjórnir, enda var meira kapp lagt á við myndun hennar að festa sér ráðherrastóla en að taka á málum íslensks þjóðfélags. Ég spyr: Hvað erum við bættari með ríkisstjórn sem aðeins getur varist vantrausti en hefur ekki þingstyrk til að koma nauðsynlegum málum í gegnum báðar

deildir Alþingis? Til hvers er að hafa ríkisstjórn sem getur ekki tekið á vandamálum sem til staðar eru í þjððfélaginu, sérstaklega nú þegar viðsjárverðir tímar eru fram undan? Það hefur hingað til kallast óðs manns æði og hættuleg sjómennska að leggja úr höfn á illa mönnuðu og hripleku skipi vitandi það að óveður er í aðsigi.
    Þegar svo er ástatt sem hér er lýst hvarflar að manni sú hugsun að þessari ríkisstjórn séu ekki ætlaðir margir lífdagar. Tilgangur hennar sé sá einn að fresta vandamálum og bíða eftir tilefni til að rjúfa þing og efna til nýrra kosninga. Sú ríkisstjórn sem nú hefur verið mynduð er ekki starfhæf. Þeir stjórnarhættir sem hún hefur tileinkað sér, að stjórna með bráðabirgðalögum, er ekki aðeins móðgun við Alþingi, heldur alvarleg atlaga að lýðræðinu í landinu. Við Íslendingar eigum ekki að láta það viðgangast ár eftir ár að ríkisstjórnir geti komist upp með það að hrifsa til sín völd og stjórna með fálmkenndum bráðabirgðalögum. Slík vinnubrögð eru andlýðræðisleg og stórhættuleg, sérstaklega þegar svo er komið að það telst sjálfsagt að skerða helgustu mannréttindi þegnanna með slíkum lögum. Það þekkist hvergi í lýðræðisþjóðfélögum, sem hér á landi er orðið að aðalreglu, að setja bráðabirgðalög til lausnar efnahagsvanda. Það bara samrýmist ekki lýðræðishugtaki grannríkjanna og þeirri grunnhugsun með stjórnarandstöðu að vera til aðhalds stjórnvöldum.
    Borgfl. dróst skamma stund inn í síðustu stjórnarmyndunarviðræður og lýsti því yfir að hann væri tilbúinn til að ganga inn í stjórnarsamstarf þeirra flokka sem mynda núverandi ríkisstjórn. Það var ekki á málefnalegum grunni sem upp úr slitnaði, svo langt komust viðræðurnar ekki, heldur orðaleiknum um félagshyggju og vinstri stjórn og því að of hættulegt væri fyrir núverandi stjórnarflokka að taka Borgfl. inn í ríkisstjórnina. Á þeim tíma var ekki hugsað um þjóðina og nauðsyn þess að sú ríkisstjórn sem mynduð yrði hefði öruggan meiri hluta að baki sér og gæti komið knýjandi málum í gegnum báðar deildir Alþingis. Það var þá og er enn skoðun Borgfl. að nauðsyn krefði að tekið yrði á markvissan hátt á aðkallandi vanda þjóðarbúsins. Kjarninn í þeim aðgerðum ætti m.a. að vera: Stórfelldur niðurskurður og aðhald í ríkisrekstrinum. Matarskattur yrði lækkaður eða afnuminn. Vísitölutengingar og
sjálfvirkni yrðu óheimilaðar. Vextir yrðu lækkaðir og bankastofnanir skyldaðar til hagræðingar. Fyrirtæki með útflutnings- og samkeppnisgreinum yrðu búin viðunandi rekstrarskilyrði. Átak yrði gert til eflingar íslensks iðnaðar. Síðast en ekki síst að samhliða endurskipulagningu ríkiskerfisins og samdrætti yrðu völd færð til landshlutanna. Því miður fór sem fór og þjóðin situr uppi með þessa ríkisstjórn sem af eigin stuðningsmönnum er dæmd til að falla.
    Góðir áheyrendur. Nú þegar hafið þið hlýtt á fulltrúa tveggja núverandi stjórnarflokka ásamt fulltrúa þess flokks sem hrökklaðist frá völdum og áttið ykkur á hvernig umhorfs var í síðustu ríkisstjórn og við hverju má búast af þeirri sem nú fer með völd, sjáið

þið einhverjar breytingar? Hafið þið ekki heyrt þetta allt einhvern tíma áður? Er ekki kominn tími til að skipta þeim út og láta nýja flokka og þá um leið nýja strauma líða um sali Alþingis og Stjórnarráðið?