Stefnuræða forsætisráðherra
Fimmtudaginn 03. nóvember 1988

     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Góðir Íslendingar. Fyrr á þessari öld fjallaði virtasti lærdómsmaður þjóðarinnar um vanda þess og vegsemd að vera Íslendingur, að hljóta í arf fagurt land og auðæfi hafs og fossa, að fara viturlega að ráði sínu og treysta undirstöðu framfaranna, að glata ekki sjálfræði sínu með skuldasöfnun, óráðsíu og óhófi.
    Þegar harðræði, fátækt og ofbeldi marka örlög þúsunda milljóna um heim allan, þá er það gæfa að vera Íslendingur, gæfa að búa við öryggi og velferð fyrir sjúka og aldraða, gæfa að bjóða öllum börnum braut mennta og menningar, gæfa að vera sjálfstæð þjóð í gjöfulu landi. Hamingja okkar sem nú erum á besta aldri er vissulega mikil. Feður okkar og mæður, afar okkar og ömmur breyttu fátæku þjóðfélagi fyrri alda í velferðarríki í fremstu röð. Þau lögðu hart að sér til að búa okkur allt í haginn. En við sem nú erum á besta aldri stöndum hins vegar á tímamótum. Ætlum við einnig að bjóða börnum okkar bjarta framtíð eða brestur okkur gjörvileik til að ráða við vandamálin sem við blasa? Verðum við kynslóðin sem fékk allt í arf en sólundaði honum á skömmum tíma og skildi eftir stóra skuldabagga á herðum þeirra sem við tóku?
    Á undanförnum árum hefur ríkt mikil óstjórn í okkar landi, ekki bara óstjórn á vettvangi ríkisins heldur einnig víða í atvinnulífinu, hjá fyrirtækjunum og forstjórunum, reyndar hjá öllum þeim sem eytt hafa stórlega um efni fram. Erlendar skuldir okkar Íslendinga hafa vaxið um marga milljarða á hverju ári og senn stefna þær í svo háar upphæðir að erlendir lánardrottnar gætu náð heljartökum á efnahagslegu sjálfstæði okkar. Síðustu ríkisstjórnir hafa á engan hátt ráðið við vandann. Þær hafa ár eftir ár skotið sér hjá erfiðum ákvörðunum, verið haldnar hugarfari sjúklingsins sem finnur dag frá degi að honum þverr þróttur en hefur ekki kjark til að horfast í augu við veruleikann.
    Á árinu 1986 skorti Þorstein Pálsson þáv. fjmrh. dug og þor til að glíma við hin erfiðu verkefni og skildi eftir sig tæplega þriggja milljarða kr. skuld. Og á árinu 1987 skorti hann einnig kjark, fyrst sem fjmrh. og síðar sem forsrh. Reikningurinn handa framtíðinni var í árslok rúmir 5 milljarðar. Fimm milljarða viðbót við skuldabaggann. Og á fyrstu níu mánuðum þessa árs var niðurstaða ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar 7 milljarða halli á greiðslureikningi ríkisins. Þessi maður kemur svo hér í kvöld og þykist hafa ráð undir rifi hverju. Um hann mæla verkin dýpri sannleika en allar þær ræður sem Sjálfstfl. mun flytja úr þessum stól á næstu mánuðum og á næstu árum.
    Það eru ekki nema rúmar fjórar vikur síðan ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar hrökklaðist frá við lítinn orðstír og að loknum einhverjum misheppnaðasta ferli sem um getur á síðari áratugum. Afleiðingar óstjórnarinnar blöstu við hvarvetna í okkar þjóðfélagi. Útflutningsfyrirtækin voru að loka og atvinnuleysi tugþúsunda verkafólks var yfirvofandi. Gjaldþrotatilkynningar voru daglegt brauð, smá

fyrirtæki og stór, verslanir og hótel, frystihús og iðnfyrirtæki. Alls staðar voru dauðamerki hruns og kreppu. Einstöku góðæri hafði verið sólundað á altari óstjórnar og óhófs. Það var komið að hinum stóru skuldadögum.
    En hvað átti að gera? Átti að halda áfram á braut erlendrar skuldasöfnunar, vísa nýjum og nýjum lánum á herðar framtíðarinnar og grafa þannig jafnt og þétt undan efnahagslegu sjálfstæði þjóðarinnar? Eða átti að hefja tafarlaust víðtækt en erfitt björgunarstarf, grípa til nauðsynlegra ráðstafana þótt ýmsum kynni að finnast hart að sér gengið?
    Alþb. kaus að skipa sér í björgunarsveitina miðja. Okkur var vissulega ljóst að í mikið var ráðist og við urðum að gera málamiðlanir við samstarfsaðila okkar og æskilegra hefði auðvitað verið að hafa lengri tíma til undirbúnings. En á örlagastundu þarf oft að taka skjótar ákvarðanir. Og viðtökur fólksins í landinu hafa sannfært mig um það að ákvörðun Alþb. var rétt. Þjóðin beið eftir björgunaraðgerðum. Það var brýn nauðsyn á sterkri og samhentri ríkisstjórn, þeirri ríkisstjórn sem nú fer með stjórn landsins. Forsrh. hennar og formaður Framsfl. hefur í stefnuræðu sinni hér í kvöld gert grein fyrir fyrstu aðgerðum ríkisstjórnarinnar og utanrrh. og formaður Alþfl. hefur rakið þá dýrkeyptu reynslu, sem hann fékk af samstarfinu við Sjálfstfl., reynslu sem hefur leitt hann og Alþfl. til að hefja náið samstarf við okkur í Alþb.
    Það var vissulega fyrir löngu orðið tímabært að þeir tveir flokkar, sem hafa jafnaðarstefnuna að leiðarljósi, tækju höndum saman í stjórn landsins. Jafnaðarstefnan er hið sameiginlega vegarnesti okkar í Alþb. og félaga okkar í Alþfl. Við eigum að grafa ágreining frá gömlum tíma og láta þau þáttaskil, sem nú hafa orðið, vera upphafið að nýrri og langri samleið í íslenskum stjórnmálum.
    Það hefur lengi verið draumur félagshyggjufólks á Íslandi að eignast sterkt afl, að flokkarnir sem kenna sig við jafnaðarstefnu, félagslegt réttlæti og lýðræði taki höndum saman. Nú hafa örlögin skapað okkur nýtt tækifæri til að láta þann draum verða að veruleika. En til þess er ekki nóg að
gera bara kröfur til forustumanna flokkanna, ráðherranna í ríkisstjórninni eða þingmannanna hér í salnum, heldur þurfa félagar í Alþb. og Alþfl. í sérhverju byggðarlagi, í öllum kjördæmum að hefja viðræður sín á milli, í heimahúsi og á vinnustað, í flokksfélögum og í samtökum launafólks og í öllum áhugafélögum um félagslegt réttlæti, umbætur og betra mannlíf. Hreyfing íslenskra jafnaðarmanna verður aldrei sterk með því að gera bara kröfur til fáeinna forustumanna. Hún verður því aðeins lifandi afl að fólkið sjálft taki þróunina í sínar hendur.
    Virðulegi forseti. Fyrir tveimur dögum lagði ég fram á Alþingi fjárlagafrv. hinnar nýju ríkisstjórnar. Ég sagði þá og segi enn hér í kvöld: Þetta fjárlagafrv. flytur ekki gleðiboðskap. Það er hins vegar alvarleg tilraun til að bregðast við erfiðleikunum af raunsæi, nema staðar á hinni hættulegu braut erlendrar skuldasöfnunar. Fjárlagafrv. er einn af burðarásunum

í efnahagsstefnu nýrrar ríkisstjórnar. Því er ætlað að skapa skilyrði fyrir lækkun verðbólgu og vaxta á næsta ári með því að draga úr þenslu og koma í veg fyrir spennu í efnahagslífinu. Í þessum tilgangi er frv. lagt fram með tæplega 1200 millj. kr. tekjuafgangi, tekjuafgangi sem sumum kann að finnast ærinn þegar þeir hugleiða hve mörgum hefur verið neitað um fjármuni til brýnna verkefna. En þessi tekjuafgangur er hins vegar frumforsenda þess að það takist að skapa skilyrði fyrir efnahagslegu jafnvægi og þeirri stefnu að ríkissjóður taki engin erlend lán á næsta ári og við förum þess í stað að hefja það verk að greiða upp skuldir liðinna ára. Skuldirnar sem sumir þeirra manna, sem talað hafa fyrr í kvöld, hafa skilið eftir sig en vilja nú ekki við kannast.
    Í fjárlagafrv. er leitast við að stöðva útgjaldaþenslu ríkisins án þess þó að skerða þjónustu sem veitt er á sviði velferðarmála, menningar og umhverfisverndar. Það er dregið verulega úr fjárfestingu ríkisins sjálfs, framkvæmdum er frestað og öðrum beint inn á lengri tíma. Þessar margháttuðu aðgerðir til sparnaðar og aukins aðhalds duga hins vegar ekki til að ná nauðsynlegu jafnvægi og vega upp þá skuldasöfnun sem fyrri stjórnir hafa skilið eftir sig. Þess vegna er óhjákvæmilegt að taka einnig ákvarðanir um nýja tekjuöflun í formi aukinna skatta.
    Skattar eru vissulega ekki vinsælt orð í okkar máli. En þeir eru óhjákvæmileg forsenda þess að okkur takist að ná jafnvægi í efnahagsmálum og lækka þar með verðbólgu og vexti. Sjálfstfl. hefur sérstaklega hér í kvöld reynt að efna til óveðurs vegna þessara óhjákvæmilegu ákvarðana um viðbótarskatta. Þau orð eru þó innantóm því að þeir sem mæla gegn slíkri nauðsynlegri hækkun tekjuöflunar ríkisins verða að svara því hvernig þeir ætla að greiða niður skuldir liðinna ára. Hvar ætla þeir að skera niður og þá hve mikið? Það dugir ekkert annað en skýr svör við slíkum spurningum. Og þeir sem bera stærstu ábyrgð á skuldasöfnun fyrri ára ættu að sjá sóma sinn í því að tala af hógværð við þá sem nú ganga í hið nauðsynlega verk að afla meiri tekna.
    Það er fáránlegt sem Sjálfstfl. hefur sagt undanfarna daga að skattaákvarðanir þessarar ríkisstjórnar feli í sér 50--60 þús. kr. aukna skatta á hverja fjölskyldu í landinu. Það er fáránlegt vegna þess að við höfum ákveðið að sækja þessa tekjuauka fyrst og fremst til þeirra sem háar hafa tekjur, miklar eiga eigur og eru með gífurlega umframeyðslu í okkar þjóðfélagi. Það sést m.a. á því að við höfum ákveðið sérstakan háeignaskatt á þá sem eiga yfir 12 millj. kr. skuldlausa eign. Við höfum ákveðið að loka margvíslegum götum sem eigendur fyrirtækja hafa notað í skattakerfinu til að hygla sjálfum sér. Við höfum ákveðið að veðdeildir og fjármagnsstofnanir eigi nú að greiða tekjuskatt. Og við höfum ákveðið að beita margvíslegum, óbeinum sköttum sem fyrst og fremst leggjast á þá sem hafa verulegt fjármagn til eyðslu.
    Þessa skatta ætlar svo Sjálfstfl. að umreikna í eitthvert meðaltal á fólkið í landinu. Það er álíka

fáránlegt eins og að segja við tvo menn, þar sem annar á fjóra bíla og hinn engan, að þeir eigi tvo að meðaltali.
    Virðulegi forseti. Góðir Íslendingar. Við eigum fagurt land. Við búum að miklum auðæfum frá náttúrunnar hendi og við erum menntuð þjóð og getum nýtt okkur ávexti vísinda og þekkingar. Við eigum í reynd öll hin bestu skilyrði til að skapa hér samfélag í fremstu röð og tryggja börnum okkar örugga framtíð, en við þurfum þá að halda þannig á málum okkar að við glötum ekki efnahagslegu sjálfstæði okkar. Við þurfum að hafa þor og vit til að taka erfiðar ákvarðanir. Ef við gerum það og ef við tökum höndum saman, þá getum við sagt að nokkrum árum liðnum með rétti við börnin okkar, dætur okkar og syni: Við gerðum það sem gera þurfti til að tryggja ykkur jafnbjarta framtíð og feður okkar og mæður, afar okkar og ömmur sköpuðu okkur sjálfum fyrr á árum. --- Góða nótt.