Stefnuræða forsætisráðherra
Fimmtudaginn 03. nóvember 1988

     Málmfríður Sigurðardóttir:
    Virðulegi forseti. Góðir landsmenn. Forsrh. hefur nú haldið þá hefðbundnu tölu sem honum er skylt í upphafi nýs stjórnartímabils. Ræða hans var svo sem menn hafa heyrt ekki til þess fallin að vekja fögnuð með þingheimi né lyfta huganum á flug. Ekki var minnst á framtíðarsýn um betra og réttlátara þjóðfélag, ekki minnst á framtíðarlausnir á vandamálum efnahagslífsins, aðeins þulin þreytuleg upptalning á meintum orsökum þess efnahagsvanda sem hrjáir þjóðina og þreytuleg upptalning á þeim úrræðum sem þessi nýja en þó gamla ríkisstjórn hyggst grípa til til að bjarga málunum.
    Ég sagði nýja, en þó gamla. Þessi ríkisstjórn er nefnilega --- og við skulum ekki gleyma því --- að meiri hluta sú hin sama sem kom þjóðinni í þær efnahagskröggur sem við munum súpa seyðið af næstu árin. Forsrh. hóf mál sitt með því að segja að núverandi ríkisstjórn hafi hafið feril sinn með brýnum aðgerðum í efnahagsmálum, svo sem allar ríkisstjórnir á Íslandi hafi gert síðustu áratugina. Þarna er í hnotskurn lýsing á því stjórnarfari sem þjóðin hefur búið við síðustu árin og nú um langt skeið.
    Allar síðari tíma ríkisstjórnir hafa hafið göngu sína með brýnum aðgerðum. Aldrei hefur þeim tekist að koma á neinni festu í stjórn efnahags- og atvinnumála og þegar vanda bar að höndum hefur sífellt verið gripið til sömu bráðabirgðaráðstafana sem fólk hefur þó löngu tapað trú á. Allir aðrir en stjórnvöld virðast hafa séð að þær gagnast ekki.
    Í launamálum hafa viðmiðanir verið sóttar allt aftur fyrir Krists burð án þess þó í leiðinni að taka lærdóm af þeim fornþjóðum sem í góðæri lögðu fyrir fé til magrari ára.
    Forsrh. eyddi miklum tíma í að rekja aðdraganda efnahagsörðugleikanna sem nú leika þjóðina svo grátt. Allt var það á þeim nótum að helst mátti ætla að hann og hans flokkur hefðu þar hvergi komið nærri og enga aðild átt né ábyrgð borið á þeirri efnahagsmálastjórn, sem þjóðin bjó við í tíð síðustu ríkisstjórnar, sem birtist okkur nú í gífurlegum viðskiptahalla og greiðsluhalla á ríkissjóði upp á nokkra milljarða.
    Ég vil minnast hér á nokkrar af aðgerðum fyrrv. ríkisstjórnar sem ætlað var að bæta hag ríkissjóðs og hvernig fór um framkvæmd þeirra. Fyrir ári síðan var lagt fram hér á þingi frv. til fjárlaga sem boðaði nýja stefnu í ríkisfjármálum. Veigamesta atriði þeirrar stefnu var talið vera endurskoðun á tekjuöflunarkerfi ríkissjóðs í þeim tilgangi að gera kerfið einfaldara, réttlátara og skilvirkara. Einn helsti þáttur þessarar endurskoðunar var fækkun söluskattsundanþága og þar með tekinn upp hinn illræmdi matarskattur. Helstu rökin fyrir þeirri aðgerð voru þau að söluskatturinn yrði auðveldari í innheimtu og skilaði sér betur ef ekki væri um undanþágur að ræða. Auk þess skyldi stórlega hert á eftirliti og innheimtu.
    Við kvennalistakonur mótmæltum því harðlega að lagður væri söluskattur á matvörur. Við mótmæltum matarskattinum. Við bentum á að hann kæmi verst

niður á þeim sem minnst hefðu og væri þar að auki skattheimta af þeim sem hingað til hefði verið hlíft við slíku. En í nafni einföldunar og réttlætis var þessi breyting knúin fram. Ég man ekki til að alþýðubandalagsmenn spöruðu stóryrðin í vandlætingu sinni á þessari skattheimtu þá. Nú hafa þeir tækifærið til að breyta og bæta um þó ekki sjái þess stað í nýju frv. til fjárlaga að uppi séu áform í þá veru.
    En hverjar eru svo niðurstöðurnar af þessari aðgerð til einföldunar og betri innheimtu? Í stuttu máli er það mat þeirra sem eftirlit hafa með ríkisfjármálum að ekkert bendi til þess að fækkun undanþága í söluskatti hafi leitt til betri skila.
    Í umræðum í fyrra höfðu ýmsir þm. uppi efasemdir einmitt um þetta atriði, sem nú er sannarlega komið í ljós að höfðu við rök að styðjast. Hertar innheimtuaðgerðir áttu einnig að skila 400 millj. kr. og víst er að þær hafa enn ekki sést í ríkiskassanum. Réttlætingin fyrir þessum aðgerðum í söluskattsmálunum, bætt skil, náðist ekki fram því framkvæmdin brást. Vanskilin á söluskatti munu nú vera að nálgast milljarðinn. Þannig er þessi skrautflík Alþfl. götótt og gagnslítil og hönnun og saumaskapur ekki til að stæra sig af.
    Því fjölyrði ég svo um framkvæmd söluskattsbreytingarinnar að hún var með nokkrum hætti túlkuð sem undanfari virðisaukaskatts sem væntanlega verður tekinn upp innan tíðar. Ég verð að segja að eftir allt það umtal um einföldun, réttlæti og skilvirkni söluskattsins, sem alls ekki hefur komið fram í reynd, þá sýnist mér ástæða til að hafa allan vara á um enn eina breytingu á þessum málum. Getum við á nokkurn hátt treyst því að betur takist til um framkvæmd virðisaukaskattsins? Gæti það ekki orðið að fara úr öskunni í eldinn? A.m.k. fækkar ekki mannahaldi á vegum fjmrn. við tilkomu hans.
    Breytingin á skattalögum í fyrra yfir í staðgreiðslu var ávallt túlkuð þannig af stjórnvöldum að hún yrði ekki til þess að auka skattbyrði fólks. Sú hefur þó ekki orðið raunin. Skattbyrðin hefur þyngst, ráðstöfunartekjur heimilanna dregist saman og launafrystingin auðvitað verkað á sama hátt. Ég
held það sé ekkert vafamál að þarna sé að leita orsaka fyrir minnkandi veltu sem virðist hafa komið fyrrv. ríkisstjórn í opna skjöldu þó að eitt af markmiðum hennar væri að draga úr þenslu. Þarna er enn ein orsökin fyrir rýrnun á tekjum ríkissjóðs.
    Þannig rak eitt sig á annars horn í þessum efnahagsráðstöfunum fyrrv. ríkisstjórnar. Aðgerðirnar í skattamálum skiluðu sér ekki til hagsbóta fyrir ríkissjóð. Þrátt fyrir fögur fyrirheit er hann verr á sig kominn nú en nokkru sinni fyrr. Og þessi nýju keisaralegu föt, sem þjóðinni voru gerð til að klæðast í, skattabreytingarnar, eru haldlaus og skjóllaus og allir sjá í gegnum þau.
    Ég vil enn benda á að sá efnahagsvandi, sem við búum við nú, er afleiðing stjórnarstefnu fyrri ára, stjórna sem ekki tóku mið af því í undangengnu góðæri að safna í varasjóði, stjórna sem leyfðu fjármagni að leika lausum hala meðan

útflutningsatvinnuvegirnir voru bundir á klafa, stjórna sem héldu taxtakaupi niðri með þeim afleiðingum að launaskrið fór úr öllum böndum en launafólk á töxtum hafði varla til hnífs og skeiðar, stjórnar sem sl. vetur beið með gengisfellingu þar til samningar höfðu verið gerðir og eyddi með því þeim kjarabótum sem náðst höfðu fram, og stjórnar sem aðhafðist ekkert að gagni þó auðséð væri hvert stefndi í málum útflutningsatvinnuveganna.
    Enn vil ég undirstrika að meiri hluti núverandi ríkisstjórnar var þátttakandi í ríkisstjórn sem þannig skipaði málum. Hver er ábyrgð þeirra? Hvernig ætla þeir nú að hafa hemil á hruninu?
    Vegna þeirra flokka sem sitja í ríkisstjórninni, þá mætti vænta þess að hún hefði tiltrú launafólks í landinu. En skyldi sú vera raunin? Skyldi þjóðin gleyma strax offorsi Alþfl. við að koma á matarskattinum, illræmdustu stjórnvaldsaðgerð síðustu ára? Skyldu menn vera sáttir við þá afstöðu Framsfl. að þykjast aldrei nærri koma óvinsælum stjórnarathöfnum þrátt fyrir
stjórnarsetu í fast að því 20 ár? Skyldu allir sem stutt hafa Alþb. vera sáttir við samþykki flokksins við launafrystingu og fjötraðan samningsrétt? Með því hefur Alþb. tekið þátt í svo ranglátri og vitlausri aðgerð að jafna má til matarskattsins. Stjórnin er þegar búin að gera þá árás á verkalýðsstéttina sem aldrei verður tekin til baka.
    Efni stefnuræðu hæstv. forsrh. einkennist mjög af áformum og ákvörðunum um aðgerðir í efnahagsmálum. Ég nefni bráðabirgðalögin frá því síðast í september sem eiga að koma útflutningsatvinnugreinunum til hjálpar.
    Eitt helsta hjálpartækið er svonefndur Atvinnutryggingarsjóður sem að hluta til skal fjármagnaður með þeim framlögum ríkisins sem annars ættu að fara í Atvinnuleysistryggingasjóð. Sú skerðing er réttlætt með því að með því þau renni í Atvinnutryggingarsjóð sé verið að fyrirbyggja atvinnuleysi. Ekki er víst að einhlítt sé að það takist og satt að segja ekki verjandi að hróflað sé við tekjum Atvinnuleysistryggingasjóðs í ljósi þess að fjöldauppsagnir fólks blasa nú við sem afleiðing fyrri stjórnarstefnu og verulegur samdráttur er í atvinnuhorfum. Hvar eru nú þeir verkalýðssinnar sem hafa staðið vörð um þennan sjóð undanfarin ár? Eru þeir ekki í ríkisstjórn?
    Atvinnutryggingarsjóður er nú tekinn til starfa án þess að lög um hann hafi hlotið staðfestingu Alþingis. Hvað gerist ef huldumaðurinn kemur ekki út úr steininum og lögin verða ekki staðfest? Vitað er að fram munu koma breytingartillögur við þær lagagreinar sem varða þennan sjóð svo e.t.v. er best að fara sér hægt í útdeilingu fjárins áður en tilvist hans er komin á hreint.
    Ég drep ekki á fleira nú af fyrirætlunum þeim sem komu fram í stefnuræðu hæstv. forsrh. Ég vil aðeins nefna að málefni eins og fræðsla, uppeldi, menntun, menning og vísindi voru þar afgreidd með tveim setningum. Hvergi í þessari ræðu kemur neitt fram um

framtíðarlausnir.
    Bráðabirgðaúrræði eru einkenni máls hans og frestun á vanda. Menn hljóta að bera ugg í brjósti um hvað gerist á útmánuðum þegar ákvæði bráðabirgðalaganna falla úr gildi. Hvað gerist þá? Kannski einhver stjórnarsinni vilji svara því. Það er nefnilega spurning sem brennur nú á launafólki þessa lands hvers sé að vænta af þeirri stjórn jafnréttis og félagshyggju sem hefur starfsferil sinn með taxtalaunin fryst og samningana í fjötrum. --- Góða nótt.