Stefnuræða forsætisráðherra
Fimmtudaginn 03. nóvember 1988

     Þórhildur Þorleifsdóttir:
    Virðulegi forseti. Góðir áheyrendur. Það sem einkennir öðru fremur ræðu hæstv. forsrh. er einhvers konar barnsleg undrun blandin iðrun eða e.t.v. iðrunarblandin undrun yfir því hvernig komið er fyrir íslenskri þjóð. Hann orðar það sjálfur eitthvað á þá leið, með leyfi forseta, að við höfum verið á hraðri ferð fram af hengifluginu, hneppt í hnappheldu, segir hann, fjármagnsfjötra og tapreksturs. Þetta séu afleiðingar óstjórnar og síendurtekinna rangra ákvarðana sem ekki báru þann árangur sem menn ætluðu eða vonuðu.
    Þetta segir sá maður sem hefur átt sæti í hverri ríkisstjórninni af annarri og jafnvel setið þar í forsæti. En rétt áður en við fórum fram af hengifluginu spyrntu tveir flokkar fyrrv. ríkisstjórnar við fótum og lýstu ríkisstjórnina óalandi og óferjandi. Maður vonar svo sannarlega að það hafi verið af heilindum gert og með hag landsmanna í huga en ekki til að geta hlaupið í hlutverk bjargvættanna með geislabauginn gljáfægðan og áruna heila. En þannig komu þeir óneitanlega fyrir sjónir þegar þeir blésu í lúðra til að safna nýju liði.
    Þær stjórnarmyndunarviðræður sem í hönd fóru og einkenndust af flýti og asa snerust fyrst og fremst um málefnasamning sem Framsfl. og Alþfl. höfðu komið sér saman um. Þar var vissulega margt gott að finna og mörg góð áform en einn var þó hængur á. Frysting launa og afnám samningsréttar var hornsteinn þessa stjórnarsáttmála, það eina sem ekki skyldi hvikað frá. Undir engum kringumstæðum vildi Kvennalistinn eiga aðild að slíkri ríkisstjórn og þótt dagsetningum væri breytt, þ.e. samningsbanni aflétt nokkrum vikum fyrr en til stóð, breytti það ekki afstöðu Kvennalistans. Um afnám svo mikilvægra réttinda sem samningsréttur launafólks er setur maður einfaldlega ekki lög, ekki einu sinni til bráðabirgða.
    Kvennalistinn setti fram hugmynd um þjóðstjórn sem hefði þrjú meginmarkmið. Nauðsynlegustu bráðabirgðaráðstafanir til að afstýra gjaldþroti og hruni undirstöðuatvinnuveganna, að ógilda bráðabirgðalög um frystingu launa og afnám samningsréttar og efna síðan til kosninga.
    Þessi hugmynd um þjóðstjórn var ekki sett fram í bríaríi eins og ýmsir hafa látið í veðri vaka, heldur á grundvelli þeirrar skoðunar að þegar siglt er í strand fari allir í björgunarbátana og leggist á árar, hvorki þeir einir sem báru ábyrgð á strandinu né hinir sem ekki voru við stýrið heldur --- allir. Þannig bregst fólk við á neyðarstundum. En, nei, gamla karlaveldinu er um megn að skilja slíkar hugmyndir samábyrgðar og samvinnu. Þar virðist mikilvægara að marka sér sérstöðu, efla óvinaímyndir og skipa í andstæðar fylkingar. Svo hlægileg fannst þeim þessi kvenlega og óábyrga hugmynd að þeir nenntu ekki einu sinni að ræða hana. Gömlu leikreglurnar sem miða að því að finna fremur hvað sundrar en sameinar eru í fullu gildi alveg gagnstætt hugmyndafræði Kvennalistans sem leggur áherslu á að konur leiti að því sem sameinar þær en einblíni ekki á það sem sundrar. Og

rétt eins og það hefur reynst konum bæði auðveldara og árangursríkara en þær kannski héldu að leita að og finna hið sameiginlega gæti hið sama gerst í stjórnmálum ef það væri reynt. Nei, samkeppni og óvinaímyndir skulu það vera.
    Þegar ljóst var að enginn vildi líta við þessari bráðsnjöllu hugmynd Kvennalistans viðurkenndum við okkur ofurliði bornar og lýstum okkur reiðubúnar til að ganga til samstarfs við hverja þá sem vildu leggja til grundvallar sömu atriði og fyrr var greint frá. Í fyrsta lagi voru það bráðabirgðaráðstafanir af sama toga og nú standa fyrir dyrum, þ.e. að afla fjár með lánum og millifærslum af ýmsu tagi til að styrkja útflutningsatvinnuvegina og um þetta voru allir sammála. Menn greindi að vísu örlítið á um leiðir, en ekki meira en svo að um þær hefði mátt ná samkomulagi. Í öðru lagi afnám bráðabirgðalaganna og í þriðja lagi kosningar. Um þessi mál náðist ekki samkomulag og því fór sem fór hvað varðar þátttöku Kvennalistans í ríkisstjórn.
    Ég ætla ekki að fjölyrða frekar um afstöðu Kvennalistans til bráðabirgðalaganna og til afnáms samningsréttarins. Það er deginum ljósara að þar hvikuðum við aldrei, teljum okkur enda ekki geta tekið okkur þann rétt að ráðast á grundvallarrétt annarra, enda stendur það nærri konum að skilja hversu mikilvægt það er að standa vörð um áunnin réttindi. Það tók þær langan tíma að ná þeim rétti sem þær nú hafa til jafns við karla í orði þó ekki sé á borði og því fráleitt að þær ljái máls á því að skerða mannréttindi. Maður skyldi hafa hugfast að sértu tilbúinn að taka eitt skref er ekkert sem tryggir að ekki sé hægt að færa rök að því að nauðsynlegt sé að taka annað --- og hver veit hver treðst undir í því skrefi!
    Þriðja atriðið, kosningar, ætla ég að ræða örlítið nánar. Rök okkar fyrir kosningum voru þau fyrst og fremst að þjóðin ætti rétt á því að láta í ljós álit á því ástandi sem ríkir og fella þann dóm sem hún kysi. En hinu er ekki að leyna að við höfðum ástæðu til að ætla að Kvennalistanum yxi ásmegin í kosningum. Ef svo færi opnaðist leið til áhrifa og það er einmitt markmið
Kvennalistans. Við sækjumst ekki eftir völdum heldur áhrifum. Við lærðum þá lexíu í stjórnarmyndunarviðræðunum eftir kosningarnar 1987 að við gætum fengið valdastóla til að setjast í en harla lítil áhrif. Sama var uppi á teningnum nú. Við áttum kost á valdastólum og síðan voru óljós loforð um áhrif þegar búið væri að kippa efnahagsmálunum í lag! Þetta hefur allt of oft einkennt samskipti kynjanna í stjórnmálum og svo sem víðar. Karlarnir hafa sí og æ beðið konur að hjálpa sér þegar mikið hefur legið við og lofað svo gulli og grænum skógum að launum ef þær bara vilji bíða um sinn með kvennamálin. Og konurnar, ,,góðu stúlkurnar``, hafa hlaupið til eins og ,,góðum stúlkum`` ber, en allt of oft rekið sig á að þegar upp var staðið reyndist flest mikilvægara en þær.
    Konur hafa hjálpað körlum til að gera byltingar,

staðið bak við þá í stríðum, háð með þeim verkalýðs- og mannréttindabaráttu fyrir utan alla vinnuna sem þær hafa innt af höndum auk þess smáræðis að hafa borið og annast allt mannkynið en hafa sjaldan haft erindi sem erfiði. Jafnvel í kristninni eru dæmin glögg. Fáa bandamenn átti Kristur traustari en konur, enda lá honum alltaf hlýtt orð til kvenna. Þær lögðu mikið af mörkum í frumkristninni, en þegar hin kristna kirkja hafði komið undir sig fótunum og varð stofnun var konum launað með því að dæma þær óæðri, óhreinar og skipað að þegja í bænahúsunum. Þetta þagnarbindindi, sem konur voru settar í, varð langvarandi og teygði sig langt út fyrir bænahúsin, m.a. inn á vettvang stjórnmálanna. Þetta þagnarbindindi eru nú konur óðum að rjúfa, en það vefst fyrir körlunum að hlusta því að þeir eru svo óvanir því. En þá verða konur að gæta þess að bregðast ekki við heyrnarleysinu með því að fara að breyta tungutaki eða rómi til þess eins að ná eyrum karla. Þær verða að kenna þeim að hlusta og nema þó tungumálið sé þeim framandi í fyrstu. Á sama hátt verða þær að hætta að hlaupa til og hjálpa, styðja við eða standa bak við því aldrei virðist skorta rökin fyrir biðinni. Ef það eru ekki heimsmálin þá eru það landsmálin. Ef það eru ekki landsmálin þá eru það efnahagsmálin, ef ekki efnahagsmálin þá launamálin, að vísu einhverra annarra en kvenna, o.s.frv. o.s.frv. og þegar allt um þrýtur eru það byggðasjónarmiðin. Já, rökin eru óendanleg og biðin verður það líka ef konur taka sífellt þessum rökum.
    Ég get ekki stillt mig um að ræða örlítið meira um hlustun og hlustunarskilyrði og hvernig skortur á forvitni og einhvers konar heyrnarleysi fara oft saman. Í sumar sem leið hittust um það bil 10 þúsund konur frá Norðurlöndum og reyndar víðar að í Osló. Þarna voru flutt erindi í hundraðatali um allt milli himins og jarðar auk heitra umræðna alls staðar á undan, eftir og milli erinda. Auðvitað gafst hverri og einni ekki tóm til að fylgjast með nema örlitlu broti af því sem þarna var til umfjöllunar, en óhætt er að fullyrða að konurnar létu sér ekkert mannlegt óviðkomandi. Ég þykist vita að sú jákvæðni, samstaða og gleði, sem þarna réðu ríkjum, verði öllum konum ógleymanleg. En það vegarnesti sem þær fóru með heim var í stórum dráttum þetta:
    Alls staðar þar sem mér gafst tóm til að fylgjast með voru konur að ræða sína framtíðarsýn og hún var um margt ólík þeirri nútíð sem við lifum í. Þeim ofbýður ofbeldið, þjösnaskapurinn og fyrirhyggjuleysið í ákvörðunum þar sem skammtímasjónarmið, stundarhagsmunir og hámarksgróði sitja í fyrirrúmi og allt verður undan að láta, menn, dýr og náttúra. Þær sjá fyrir sér þjóðfélag þar sem menn búa í sátt við aðra menn og umhverfi, samstarf og samhjálp ríki í stað samkeppni, menn leysi mál með orðum en ekki ófriði. Ef þessi framtíðarsýn rætist ekki stefni í óefni, jafnvel endalok. Og allar sögðu þær að kvenleg sjónarmið yrðu að komast að og jafnvel verða ríkjandi ef framtíðarsýnin ætti að verða að veruleika.
    Þetta framtíðarþjóðfélag nefndu margar konur

umönnunarþjóðfélagið og skýrir það sig sjálft og jafnframt hversu mikið mið það tekur af kvennamenningunni. Þetta umönnunarþjóðfélag var ofarlega í hugum kvenna hvort sem þær ræddu efnahagsmál, atvinnumál, mennta- og menningarmál, umhverfismál, uppeldismál, friðarmál og svo mætti lengi telja.
    En hvað gerðu svo hinir karlstýrðu fjölmiðlar? Þeir sýndu þessu lítinn sem engan áhuga, gerðu frekar grín að ef þeir gátu eða einblíndu á litla hópa eða undantekningar. Kannski vegna þess að þeir heyrðu ekki, hlustuðu ekki, voru ekki forvitnir. Þessi skortur á forvitni og erfiðu hlustunarskilyrði gætu orðið mannkyninu skeinuhætt.
    Því geri ég þessa framtíðarsýn að umtalsefni hér að varla er orð um slíkt að finna í ræðu hæstv. forsrh. Hann óskar okkur öllum að vísu efnahagslegs velfarnaðar, þó sumir eigi að bíða hans lengur en aðrir, sem er auðvitað ágætt svo langt sem það nær. Velferð er nefnilega svo afstætt hugtak og byggist ekki á efnahagnum einum en svo mætti ætla af ræðunni umtöluðu. Efnahagsmál og aftur efnahagsmál, varla orð um annað.
    Það er erfitt að haga orðum sínum þannig að ekki verði dregin sú ályktun að maður telji þau engu skipta en þess skal þó freistað. Með efnahagslegum rökum einum er auðvelt að reikna Ísland út af landakortinu. Það hníga fá
skynsamleg rök að því að búa í þessu landi. Eflaust væri hægt að draga fiskinn sem við öll lifum á úr sjónum með miklu ódýrari hætti en nú er. Hagkvæmara væri eflaust að landið yrði eins og hver önnur verstöð. Erlendar stórþjóðir gætu sent menn í ver til Íslands, sjálfsagt sótt ódýrara vinnuafl en nú er suður um álfur og komist hjá því að halda uppi rándýru þjóðfélagi kringum verin. En af hverju viljum við þetta ekki fyrst það er bæði ódýrara og hagkvæmara? Vegna þess að við erum Íslendingar, tölum enn sem komið er íslenska tungu og eigum okkur sameiginlegan arf og menningu. Það eru einu rökin fyrir tilvist okkar sem þjóðar og búsetunni í þessu landi.
    En til þess að þau rök haldist í fullu gildi verður að styrkja þann grunn sem við byggjum á sem þjóð. Sá grunnur er lagður í uppeldi barna okkar. Þau verða að læra að elska þetta land, virða tungu, menningu og arf þjóðarinnar. En hart er nú vegið að börnum og unglingum. Yfir þau er hellt síbylju erlends afþreyingarefnis sem einkennist oftar en ekki af ofbeldi og svo undrast menn ofbeldið allt í kring. Skólar eiga í vök að verjast, fjölskyldan er að kikna undan álagi, menningin og arfurinn fara fyrir lítið, enda litlu til kostað. Þetta ástand er afleiðing stjórnarhátta sem virða frelsi fjármagns meir en líðan fólks, efnahagslífið meir en mannlífið, rétt hins sterka meir en þess veika. Yfir þetta allt er til orð sem mikið er notað þessa dagana og ekki að ófyrirsynju. Orðið er ofbeldi.
    Virðulegi forseti. Ég minntist á það í upphafi að margt væri um góð áform í stjórnarsáttmála núv.

ríkisstjórnar og mörg til þess fallin að draga úr því efnahagslega ofbeldi sem nú ríkir öllum til skaða og munum við Kvennalistakonur styðja þessa ríkisstjórn af heilum hug til allra góðra verka. Mig langaði einungis til að beina þeim orðum til hæstv. forsrh. og ríkisstjórnar hans að gleyma ekki undirstöðunum í ákafanum við að laga yfirbygginguna. Ég þakka áheyrnina. --- Góða nótt.