Stefnuræða forsætisráðherra
Fimmtudaginn 03. nóvember 1988

     Guðrún Agnarsdóttir:
    Hæstv. forseti. Góðir áheyrendur. Stefnuræða nýrrar ríkisstjónar lýsir þeim efnahagsvanda sem hlotist hefur af stjórn og óstjórn undanfarinna ára, einkum þó í tíð síðustu ríkisstjórnar. Þar er að vanda einblínt á efnahagsmál og ófagrar lýsingarnar. En stöldrum við. Þarna talar vanur maður og er að lýsa árangri af starfi ríkisstjórna sem hann hefur ýmist leitt eða fylgt. Þær efnahagslegu þrengingar sem nú blasa við féllu ekki niður úr skýjunum nú á haustdögum. Þær eiga sér aðdraganda og feril. Til þeirra hefur verið sáð.
    Við Íslendingar höfum nú búið við betri tíð um nokkurra ára bil en oft áður. Við höfum notið hvers metaflaársins á fætur öðru og efnahagssérfræðingarnir hafa óspart reiknað yfir okkur góðæri. Jafnvel í ár munu þjóðartekjur ætlaðar svipaðar og áður. Samt er atvinnulífið og, gleymum því ekki, mörg heimili svo illa stödd sem raun ber vitni. Hvað segir það okkur um þá vönu menn sem hér hafa stýrt þjóðarskútunni, karlana í brúnni, eins og þeir hafa kokhraustir kallað sig sumir, áhafnir þeirra og ekki síst stefnu þeirra og vinnubrögð? Með stefnuræðunni lýsa þeir sjálfum sér og eigin verkum. Hæstv. forsrh. þarf því ekki að vera svona undrandi á því að hans eigin verk og samstarfsmanna skuli nú vera farin að bera ávöxt. Hins vegar skil ég vel að honum blöskri. En þeir bjóða sig blygðunarlaust fram aftur til að bjarga málum á nýjan leik, ráðherrar Framsfl. og Alþfl., eins og ekkert hafi í skorist og allt hafi verið einhverjum öðrum að kenna. Svo segjast þeir líka ætla að læra af reynslu undanfarinna ára og leitast við að halda jafnvægi í þjóðarbúinu með aðhaldi í ríkisfjármálum og peningamálum. Það var og. Nú eru þeir líka komnir í annan félagsskap, með alþýðubandalagsmönnum og jafnvel álfum, leita nýrra hliða á sjálfum sér og kenna sig við jafnrétti og félagshyggju.
    Mörgum fannst þó lítið fara fyrir jafnréttinu við þessi stjórnarskipti og fyrstu verk þessarar ríkisstjórnar eiga fátt skylt við félagshyggju. Margt segist hún þó vilja vel gera og styðjum við hana til allra góðra verka. Henni bar nauðsyn til að bregðast við því ástandi atvinnulífsins sem við blasti því vissulega var úrbóta þörf. Langtímasjónarmið virðast þó eins og fyrri daginn eiga erfitt uppdráttar og við megum í sífellu horfa upp á skyndilausnir í formi bráðabirgðalaga þar sem verið er að bjarga þjóðinni eða stjórninni undan holskeflu yfirvofandi neyðarástands.
    Setning bráðabirgðalaga er í raun bæði ólýðræðisleg og óþingræðisleg. En setning þessara laga er einkum gagnrýni verð vegna þeirra kjaraskerðinga sem þau boða og vegna þess að ekki er ljóst hvort fyrir þeim er nægur þingstuðningur. Enn fremur vegna þess að einungis tvær vikur voru til þingsetningar og hefði vel mátt kalla þing saman til að fjalla um frv. Oft grípa menn til þess ráðs að bæta gráu ofan á svart með því að nota lögin til að ganga á rétt einstaklinganna, dýrmætan óvefengjanlegan rétt

launafólks, samningsréttinn. Nær væri mönnunum þó að nota lögin til að tryggja sæmandi lágmarkslaun í landinu.
    Það kom fram hjá gamalreyndum verkalýðsforingja á dögunum að honum þótti of lítil umræða um grundvallaratriði í stjórnmálum. Allt snerist um hagfræðikenningar á hagfræðimáli. Kvennalistakonur geta tekið undir þetta sjónarmið, en við lítum einmitt á setningu bráðabirgðalaga, launafrystingu og afnám samningsréttar launafólks sem grundvallaratriði. Grundvallaratriði sem varða lýðræði og mannréttindi. Grundvallaratriði sem ber að virða og fara vel með. Fyrir bragðið hafa sumir stjórnmálamenn, fjölmiðlamenn og aðrir talið kvennalistakonur óraunsæjar, jafnvel ábyrgðarlausar. En það eru sem betur fer fleiri sama sinnis og við því að fjölmörg samtök launþega hafa á undanförnum vikum sent frá sér harðorð mótmæli gegn kjaraskerðingum og telja að hinn almenni launamaður beri ekki sök á offjárfestingu og óráðsíu þjóðfélagsins.
    Það er heldur ekki lengra síðan en í ágústlok að enn fleiri voru samþykkir því að samningsrétturinn skipti máli. Þá sendu alþýðubandalagsmenn frá sér skorinorðar tillögur frá Hallormsstað sem byggðust á því að ekki kæmi til kjaraskerðinga og þar sem Alþb. taldi nauðsynlegt að verkalýðshreyfingin fengi á ný samningsréttinn með því að afnema bráðabirgðalögin. Og hvernig getur svo launafólk treyst því að bráðabirgðalög verði ekki aftur sett á næsta ári og afnám samningsréttar framlengt, svo og launafrysting? Hvaða tryggingu hefur launafólk fyrir því, því nú var verið að framlengja bráðabirgðalög?
    Réttindi kvenna eru í raun nýfengin og mörgum dýrmæt. Kvennalistakonur eiga ung samtök og eru enn að berjast fyrir réttindum. Við tökum því kannski hátíðlegar grundvallaratriði eins og samningsréttinn en þeir sem telja sig reyndari í stjórnmálum. Þeir og aðrir telja það jafnvel barnalegt að við skulum virða þessi grundvallaratriði í samskiptum fólks og ekki vilja versla með þau. En hafa menn hugleitt það ferli sem leiðir misrétti til valdbeitingar og valdbeitingu til ofbeldis? Hafa menn gætt að því hve óljós mörk eru þarna á milli og hvernig eitt leiðir af öðru? Hafa menn hugleitt þá hættu sem felst í því að sætta sig við misrétti, gera málamiðlun um aðgerðir sem í raun boða valdbeitingu?
    Við teljum okkur hiklaust til siðmenntaðra þjóða og viljum án efa vera
það. Misrétti fer þó vaxandi í þjóðfélagi okkar og mikil tekjutilfærsla orðið á undanförnum árum. Áætlað er að vísitölufjölskyldan þyrfti tæpar 188 000 kr. í mánaðarlaun til framfærslu en vegið meðaltal mánaðarlauna launafólks tæpar 74 000 kr. Á sama tíma er nú á einni fasteignasölu til leigu verslunar- og skrifstofuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu sem svarar tveimur Kringlum. Hvað segir þetta okkur um áherslur í fjárfestingu í þjóðfélaginu? Launamunur karla og kvenna er enn ótrúlega mikill hérlendis og vinnuálag meira en gerist með nágrannaþjóðum. Fyrir hvern er svo öll þessi mikla vinna, allt þetta strit okkar og púl,

spurði kona nokkur og svaraði sjálfri sér: Það er auðvitað fyrir börnin. Fyrir fjölskylduna. Og fyrir hvern eru svo allar efnahagslausnirnar og hagfræðikenningarnar þegar öllu er á botninn hvolft, spyr ég. Eru þær ekki fyrir börnin og fyrir fjölskylduna?
    Á undanförnum áratugum hefur sú geislavirkni sem mælist í umhverfi okkar aukist til muna vegna tilrauna með kjarnorkuvopn og slysa í kjarnorkuverum. Þessi grunngeislun er notuð sem viðmiðun fyrir allar mælingar á annarri geislavirkni. Sú geislavirkni sem við þannig teljum náttúrulega og eðlilega er því talsvert meiri nú en áður vegna þess að umhverfi okkar er mengaðra. Á svipaðan hátt venjumst við nú misrétti, valdbeitingu og ofbeldi í daglegu umhverfi í ríkara mæli en áður. Af erlendum vettvangi berast okkur hörmulegar sýnir af átökum milli manna og þjóða. Langoftast bitnar ofbeldið einmitt verst á þeim er síst skyldi, óvopnuðu saklausu fólki og ekki síst konum og börnum.
    Fjölmiðlar skipa stóran sess sem afþreying barna og margir óttast neikvæð uppeldisáhrif þess efnis sem oft er hlaðið ofbeldi og þannig berst að ómótuðum hugum barna. Lífsstíll okkar einkennist um of af streitu og hraða, samkeppni, hörku og kröfum um velgengni. Í slíku samfélagi verða allt of margir undir og bera skerta sjálfsvirðingu og sumir snúast til varnar með ofbeldi. Ein grófasta birting ofbeldis, líka hér á landi, lýsir sér í nauðgun og kynferðislegri misnotkun á börnum. En á meðan við höfum talað hér í kvöld um landsmálin og þjóðmálin hefur einmitt verið sýndur þáttur um þetta efni á Stöð 2.
    Kvennalistakonur eru oft spurðar hvort við höfum haft erindi sem erfiði með þátttöku okkar í stjórnmálum. Fyrsta mál sem við fengum samþykkt á þingi 1984 var einmitt þál. um skipun nefndar til að kanna hvernig háttað er rannsókn og meðferð nauðgunarmála og gera tillögur í þeim efnum. Sú nefnd hefur nú lokið störfum og skilað viðamiklum tillögum til úrbóta sem einnig taka á vanda þessara óhamingjusömu barna. Þetta er árangur af viðleitni okkar en aðeins eitt lítið skref í átt til þess umönnunarþjóðfélags sem kvennalistakonur vilja byggja, þjóðfélag samvinnu og samábyrgðar ofar samkeppni og sérhyggju, þjóðfélag þar sem sjónarmið og reynsla kvenna er jafngild til stefnumótunar og sjónarmið og reynsla karla.
    Ég þakka áheyrnina og býð góða nótt.