Bygging ráðhúss í Reykjavíkurtjörn
Mánudaginn 07. nóvember 1988

     Hjörleifur Guttormsson:
    Virðulegur forseti. Eftir að ég ræddi þetta mál hér fyrr við umræðuna sl. mánudag féllu nokkur vinsamleg orð í minn garð og þess álits sem ég túlkaði í mínu máli þetta varðandi. Það var hv. þm. Geir H. Haarde sem sá ástæðu til þess að víkja að mínu máli á mjög hlýlegan hátt sem liggur fyrir í þingtíðindum. Og síðan kom hv. fyrrv. forseti Sþ., Þorv. Garðar Kristjánsson, og vísaði til þess sem hv. 17. þm. Reykv. Geir H. Haarde hafði mælt í minn garð því hann hefði tekið af sér ómakið, eins og hv. þm. orðaði það, að svara ofstæki og köpuryrðum hv. 2. þm. Austurl. út af þessu máli.
    Hvað skyldi nú valda þessum ummælum hv. þm. sem við þekkjum að hógværð einni í málflutningi? Voru það köpuryrði sem ég lét falla í garð hv. þm.? Ég tel ekki svo vera. Ég tel að ég hafi rætt þetta mál hér á efnislegum forsendum og hafi þetta eitthvað komið við hv. þm., þá eru það einhverjar aðrar ástæður sem lágu þar að baki heldur en fram komu í mínu máli. Enda gerði hv. 17. þm. Reykv. ekki tilraun til að rökstyðja sitt mál, nánast minni tilraun, ef hægt er að stigbreyta, heldur en hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson sem talaði fyrr við umræðuna.
    Það er alveg ljóst að hv. þm. Reykv., sem hér sitja á virðulegu Alþingi, eiga eitthvað erfitt með samvisku sína í sambandi við þetta mál, virðast a.m.k. hafa ástæðu til þess að koma hér í ræðustól til að skjóta skildi fyrir ákvörðun meiri hluta borgarstjórnar Reykjavíkur varðandi byggingu ráðhúss í norðurenda Tjarnarinnar í Reykjavík. Ég skil það ósköp vel að þessum þm. --- fyrst þeir á annað borð kjósa að reyna að skjóta skildi fyrir þennan meiri hluta borgarstjórnar Reykjavíkur --- sé ekki beinlínis rótt.
    Hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson kom hins vegar öllu meira á óvart í sínum málflutningi. Hann staðhæfði þar m.a. orðrétt, með leyfi virðulegs forseta: ,,Á þeim rúmum 20 árum sem síðan eru liðin [þ.e. frá staðfestingu aðalskipulags Reykjavíkur] veit ég ekki til að nokkru sinni hafi Alþingi gert athugasemd við þessa ákvörðun eða mótmælt henni. Ég veit ekki heldur um mótmæli eða athugasemdir einstakra þm.``
    Ég verð að segja að mér finnst þetta nokkuð langt seilst hjá hv. þm. í málflutningi þegar hér liggja fyrir í umræðu næstliðinna ára, 1986 og 1987, ákveðnar og sumpart alvarlegar athugasemdir af hálfu einstakra þm. varðandi fyrirhugaða byggingu bæði ráðhúss og þinghúss og einkum litið á þessi mál í samhengi, þ.e. hið skerta svigrúm fyrir Alþingi með ákvörðun meiri hluta borgarstjórnar Reykjavíkur að reisa og, ég hef orðað það svo, að troða niður ráðhúsi Reykjavíkurborgar hér í næsta nágrenni þingsins.
    Ég hef hér handa á milli þessar þingumræður sem fóru fram m.a. við umræðu frv. til fjárlaga fyrir árið 1987, þ.e. í desembermánuði 1986. Það fer kannski ekkert illa á því að ég vitni aðeins, virðulegur forseti, í þá umræðu og velji þá hv. sessunaut þáv. hæstv. virðulegs forseta Sþ., þ.e. ummæli hv. þm. Eyjólfs Konráðs Jónssonar, sem mælti svo þegar hann gerði grein fyrir atkvæði sínu:

    ,,Herra forseti. Samkvæmt tillögu þessari er gert ráð fyrir að hefja hönnun húss sem aldrei hefur verið samþykkt að byggja. Málið hefur aldrei verið rætt á Alþingi, aðeins kynnt í þingflokkum. Þar að auki er fásinna að byggja hér hús af þessari stærð, gerð og útliti sem engin þörf er á vegna starfa Alþingis og verður vonandi aldrei byggt. Ég segi nei.``
    Þetta var fyrirvari þessa hv. þm. og þannig má rekja mann eftir mann sem steig hér í stól til þess að gera athugasemdir, en svo kemur þáv. forseti þingsins og segir að hann hafi bara í 20 ár ekki heyrt athugasemdir frá þm. Þetta er langt seilst. Ég get vel trúað því að svona eftir á að hyggja sé hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson kannski ekkert mjög hreykinn af sinni frammistöðu sem forseti þingsins eins og hún liggur fyrir í fskj. með þeirri tillögu sem hér liggur fyrir til umræðu. Í orðsendingu frá forsetum Alþingis, af því að ekki gátu þeir svarað beint erindi hv. þm. Stefáns Valgeirssonar heldur kusu að nota Morgunblaðið til þess að svara óbeint í óbeinni ræðu því erindi sem hann hafði beint til þm., segir með leyfi forseta:
    ,,Gert er ráð fyrir að núverandi Alþingishús verði notað til frambúðar. En til þess að svo megi verða er nauðsynlegt að byggja hús í nálægð Alþingishússins fyrir þá starfsemi sem rúmast ekki þar. Þeim húsum er ætlaður staður á landspildunni sem Alþingi hefur til umráða, annars vegar á milli Kirkjustrætis og Vonarstrætis og hins vegar milli Templarasunds og Tjarnargötu.
    Alþingi leggur áherslu á að tekið verði fullt tillit til þarfa þess við ráðstöfun byggingarlóða í næsta nágrenni Alþingishússins.``
    Þetta segir orðrétt í orðsendingunni frá forsetum Alþingis og síðan er vísað til umsagnar. Og hverjir fengu málið til umsagnar? Það var húsameistari ríkisins og sá arkitekt sem hafði unnið 1. verðlaun í samkeppni um húsið. Í umsögn húsameistara ríkisins, sem vísað er til sem rökstuðnings af forsetum Alþingis á þessum tíma, segir m.a., virðulegur forseti:
    ,,Að sjálfsögðu hefði verið æskilegt fyrir Alþingi, sem á nánast allar lóðir milli Vonarstrætis og Kirkjustrætis, að engin bygging hefði risið milli
lóða Alþingis og Tjarnarinnar. Þá hefðu byggingar Alþingis í reynd staðið áfram á Tjarnarbakkanum, svo sem Alþingishúsið gerði þegar það var reist.
    Síðan fyrrnefnt aðalskipulag var staðfest hefur mátt búast við byggingu ráðhúss á þessu svæði, þótt sú ákvörðun hafi í gegnum árin átt misjafnlega miklu fylgi að fagna. Sé horfst í augu við þá staðreynd að ráðhús gæti risið við Tjörnina, sem í reynd var gert í samkeppni Alþingis um nýbyggingu fyrir starfsemi Alþingis á árinu 1986, þá ætti Alþingi eftir atvikum að geta vel við unað fyrirliggjandi tillögu að ráðhúsi.``
    Þetta eru stórmannleg viðbrögð sem þarna liggja fyrir. Alþingi á hnjánum gagnvart meiri hluta borgarstjórnar Reykjavíkur og lætur bjóða sér það sem nú blasir við.
    Og í niðurstöðu húsameistara ríkisins þar sem að þessu er vikið er talað um að þessi bygging ,,hafi

engin veruleg áhrif á hugmyndir Alþingis um nýtingu sinna lóða``. Ja, með mörgum hætti má orða hlutina. Því gerir húsameistari ríkisins ekki sérstaka athugasemd við byggingu nýs ráðhúss?
    Arkitektinn vísar bara í að þarna skapist einhver viðbótar tjarnarpollur í sambandi við nýja húsbyggingu fyrir Alþingi og ég vísa hv. þm. á að lesa sér til um það í fskj. á bls. 6 í þskj. 34.
    Virðulegur forseti. Það er upplýst í dagblöðum að undirbúningskostnaður vegna nýrrar byggingar fyrir Alþingi nemi nú um 32 millj. kr. Það liggur jafnframt fyrir að margir hafa ekki trú á því að þetta hús eigi eftir að rísa, virðulegur forseti, eftir þær ákvarðanir sem teknar hafa verið af meiri hluta borgarstjórnar Reykjavíkur, það sé verið að kasta þessum fjármunum á glæ. Ég er í hópi þeirra sem líta svo til að því miður sé búið að loka á það svigrúm sem Alþingi þurfti að hafa hér fyrir sína starfsemi í Kvosinni í Reykjavík og þess vegna hljóti Alþingi að taka þetta mál til umræðu og ákvörðunar í ljósi þess offors sem gætt hefur hjá meiri hluta borgarstjórnar Reykjavíkur í sambandi við ráðhúsið og þær ákvarðanir sem þar liggja fyrir. Ég geri ekki ráð fyrir því að menn sjái að sér og moki ofan í gryfjuna sem er hér í norðurenda Tjarnarinnar um þessar mundir.
    Virðulegi forseti. Það hefði kannski verið ráðlegra í ljósi þessara staðreynda sem við blasa að forsetar þingsins notuðu frekar fjármuni til þess að hressa upp á beitarhúsin okkar hérna í kringum þinghúsið, þ.e. þessi sex hús sem Alþingi hefur starfsemi sína í hér í grenndinni, í staðinn fyrir að verja því í hönnun á húsi sem trúlega á ekki eftir að rísa. Ástand þessara húsa hér á Alþingislóðinni, eigna Alþingis, er þinginu ekki til sóma og ég held að það væri verðugt fyrir virðulegan forseta að fara með þingheim í vettvangskönnun um lóðir og lendur þingsins og líta á það. Og gjarnan mætti virðulegur forseti bjóða borgarstjóranum í Reykjavík að vera leiðsögumaður nr. eitt í þeirri ferð.