Bygging ráðhúss í Reykjavíkurtjörn
Mánudaginn 07. nóvember 1988

     Hreggviður Jónsson:
    Hæstv. forseti. Ég hafði ekki ætlað mér að taka þátt í umræðunni um þessa tillögu, en finnst að það sé rétt. Ég tel að hér hafi með óréttmætum hætti verið ráðist á meiri hluta borgarstjórnar Reykjavíkur. Því það er nú einu sinni þannig að hver sveitarstjórn, hver sem hún er og hvar sem hún er, ef hún hefur meiri hluta, þá hefur hún leyfi til að byggja hvort sem það er ráðhús, dagheimili eða einhver önnur stofnun. Það er hennar ákvörðun. Ég held að það fari ekki á milli mála að borgarstjórn Reykjavíkur hefur meiri hluta og þess vegna getur hún tekið þessa ákvörðun hvort sem mönnum líkar það betur eða verr.
    Ég tel líka að hér hafi fallið heldur hörð ummæli um meiri hluta borgarstjórnar og borgarstjóra sem hefðu verið betur geymd. Það virðist sem hér hafi öfundsýki í garð Reykjavíkur orðið til að auka á spennu milli landsbyggðarinnar og Stór-Reykjavíkursvæðisins sem er alls ekki gott. Það hafa verið byggð hús úti á landsbyggðinni. Ég minni á stjórnsýsluhúsið á Ísafirði, en ef við færum að umreikna það miðað við stærð gætum við endalaust komist að þeirri niðurstöðu að ráðhúsið hérna væri náttúrlega allt of lítið. Það hefur enginn fjallað um það hér. (Gripið fram í.) Það er alveg ljóst að svo verður að vera að sveitarstjórn ákveður sín mál sjálf og það án okkar hér á Alþingi.
    Hitt er svo annað mál hvort við erum með eða móti ráðhúsi eða hvort við erum með þessari staðsetningu á ráðhúsi sem slíku. Það er allt annar hlutur og það getum við rætt um sem slíkt. Við eigum auðvitað að ræða um það hvort við teljum að Alþingi hafi hér rými í framtíðinni eins og okkur þykir réttmætt eftir byggingu þessa ráðhúss. Það er allt annar hlutur. En ákvörðun sveitarstjórnar verður ekki hnekkt að þessu leyti. Hún hlýtur að ákveða það sjálf. Hún er kosin til þess og hefur meiri hluta og það er meira en núv. ríkisstjórn hefur. Hún hefur ekki meiri hluta hér á Alþingi.
    Ég minni líka á ýmsar hugmyndir um að færa Alþingi, t.d. að Þingvöllum, sem hafa oft komið upp. Það er hugmynd sem menn gæla við. En hitt er annað mál að oftast eru þingin í höfuðborgum og við verðum að telja þetta höfuðborg okkar. Þannig að ef við lítum til lengri tíma, þá held ég að við hljótum að hafa Alþingi hér á þessu svæði.
    En ég gat ekki látið hjá líða að taka til máls við þessa umræðu því að ég tel að þessar árásir á borgarstjórn, hvort sem ég er sammála því eða ekki, séu ekki réttmætar. Ég held að menn hefðu átt að beina spjótum sínum að öðrum stjórnum sem ekki hafa meiri hluta.