Bygging ráðhúss í Reykjavíkurtjörn
Mánudaginn 07. nóvember 1988

     Þorv. Garðar Kristjánsson:
    Hæstv. forseti. Hv. 2. þm. Austurl. vék nokkrum orðum til mín í ræðu sinni og þótti ég hafa verið nokkuð óforsetalegur og stórorður þegar ég mælti til hans. Hv. þm. verður að gera sér grein fyrir því að þegar ég var forseti, þá var það mitt hlutverk að gæta þess að hann gæti talað fyrir sínu máli, hvers eðlis sem það var, hindrunarlaust. En þegar ég er ekki forseti, þá er það skylda mín að ræða efnislega um þau mál sem hann er að tala um og það gaf mér tilefni til þess sem ég sagði. Og það má hver sem er lá mér þó ég taki nokkuð upp í mig í tilefni af því að hv. þm. er að gera því skóna að Alþingi Íslendinga flytji austur á Fljótsdalshérað út af því máli sem við hér ræðum.
    Hv. þm. vitnaði í hv. 8. þm. Reykv. þegar hann gerði grein fyrir atkvæði sínu við atkvæðagreiðslu um fjárveitingu til nýbyggingar Alþingis. Hann las það sem hv. þm. sagði. Ég veit að hv. þm. nú hafa tekið eftir því sama og ég, að hv. 8. þm. Reykv. var ekki að tala um ráðhúsið í Reykjavík enda minntist hann ekki einu orði á það. Það er nokkuð langt seilst hjá hv. þm. að teygja sig í slíkar tilvitnanir. Það er líka nokkuð langt seilst, svo að ég noti hans eigin orð, þegar hann vitnar í umsögn húsameistara ríkisins, fer með nokkrar setningar slitnar úr samhengi en varast að fara með lokaorð í áliti húsameistara sem eru á þessa leið: ,,Undirritaður telur því ekki að Alþingi hafi sérstaka ástæðu til þess nú að gera athugasemd við byggingu nýs ráðhúss við norðurenda Tjarnarinnar í Reykjavík.`` --- Ekki meira um hv. 2. þm. Austurl.
    Hv. flm. þessarar till., 6. þm. Norðurl. e., kvartar líka undan því að ég hafi gerst nokkuð harðorður í þessum umræðum og vitnar til þess sem áður var þegar ég var forseti þingsins. Það er mér ekki til ama þó að vitnað sé til þess, en ég ætla ekki að fara að svara einstökum fullyrðingum hv. flm. tillögunnar í ræðu hans hér áðan. Ég ætla ekki að fara neinum orðum um það sem hann kallaði háðstón minn um netlög Alþingis í Tjörninni. Ég ætla að leiða þetta hjá mér.
    En ég vil koma að einu sem ég vil ekki láta ómótmælt. Hv. þm. sagði að ég hefði dróttað því, eins og hann orðaði það, að hæstv. forseta að hann hefði ekki staðið í stöðu sinni og hann hefði átt að vísa frá þeirri þáltill. sem hér er til umræðu. Ég vil taka það skýrt fram að ef ég hefði verið í forsetaembætti, þá hefði ég ekki vísað þessari þáltill. frá. Það verður nefnilega oft að gera fleira en gott þykir. ( SV: Þá er hún þinghæf.) Já, frá því sjónarmiði er hún þinghæf þó að það sé meira en réttlætanlegt að segja að hún sé það naumlega. Og það er það sem ég hef lagt áherslu á.
    Mér finnst þessar umræður vera að fara of mikið á dreif og við missum sjónar á aðalatriðum þessa máls. Og það er að samkvæmt aðalskipulagi Reykjavíkur hefur verið gert ráð fyrir ráðhúsi síðan 1967 við norðurenda Tjarnarinnar. Þetta er það fyrsta sem við skulum hafa í huga. Í öðru lagi skulum við hafa í huga: Engin mótmæli hefur Alþingi sjálft haft

uppi gegn þessu í 20 ár. Í þriðja lagi: Í samkeppni Alþingis um nýbyggingu fyrir starfsemi Alþingis, sem fram fór 1986, var gert ráð fyrir ráðhúsinu þar sem það er nú í byggingu.
    Í þáltill. þeirri sem við nú ræðum leggur svo hv. 6. þm. Norðurl. e. til að Alþingi kanni öll lagaleg atriði ráðhúsmálsins, óski eftir því við borgarstjórn að framkvæmdir verði stöðvaðar án tafar. Og hér dugar ekkert múður. Ef borgarstjórn ekki hlýðir skal Alþingi láta dómstóla stöðva framkvæmdir. Þetta er ekkert að vefjast fyrir hv. þm. þó að málsmeðferð og allar ákvarðanir um byggingu ráðhússins hafi verið teknar eftir lögformlegum leiðum.
    Hv. 6. þm. Norðurl. e. finnst, eins og ég áður vék að, að ég hafi farið hörðum orðum um þessa tillögu hans. Ég segi: Því miður. Tillagan og málatilbúnaður gefa svo vissulega tilefni til þess og ég fæ mig ekki til þess að segja að Alþingi sé virðing að máli þessu. En hv. þm. hefur sérstaklega haldið því fram að hann vilji standa vörð um virðingu Alþingis, sérstaklega sem aldursforseti Alþingis. Hv. þm. gerir það ekki með þessum tillöguflutningi. Ég fæ mig ekki, hvort sem hv. þm. líkar betur eða verr, til að tala mér um hug um þetta atriði. Hitt er nær sanni að tillagan sé eins og ég hef orðað það: naumast þinghæf.