Bygging ráðhúss í Reykjavíkurtjörn
Mánudaginn 07. nóvember 1988

     Hjörleifur Guttormsson:
    Virðulegur forseti. Ég hef ekki vefengt rétt Reykjavíkurborgar, meiri hluta borgarstjórnar Reykjavíkur til að taka ákvarðanir um byggingu ráðhúss Reykjavíkur. Það hef ég ekki gert í þessari umræðu. Ég hef hins vegar leyft mér að benda á sérstöðu Reykjavíkur sem sveitarfélags. Sveitarfélags sem hefur tekið að sér þær skyldur sem fylgja því, að mínu mati, að vera höfuðstaður Íslands. Og ég tel að það hafi ekki verið hugað að því sem skyldi varðandi byggingu ráðhússins af ráðamönnum í Reykjavík. Ég efast satt að segja um að borgarfulltrúar í Reykjavík sem tekið hafa þátt í þessari ákvörðun hafi gert sér ljóst að hún gæti leitt til þess --- líkurnar eru kannski mismunandi miklar að mati manna --- að Alþingi yrði að endurskoða afstöðu sína varðandi aðsetur þingsins hér í miðborg Reykjavíkur. Það er það sem hér er til umræðu af minni hálfu. Það eru afleiðingarnar af því sem gerst hefur og ég harma að menn skuli ekki hafa haft víðsýni til þess að skoða þessi mál í því samhengi sem þeim ber.