Bygging ráðhúss í Reykjavíkurtjörn
Mánudaginn 07. nóvember 1988

     Eiður Guðnason:
    Virðulegi forseti. Mér er það minnisstætt úr umfjöllun um þetta mál þegar fréttamaður sjónvarps sagði sem svo: Hvað er landsbyggðarþingmaður að blanda sér í þessi mál? Þar fannst mér fáránlega spurt. Hann hefði að sjálfsögðu átt að orða sína spurningu sem svo: Hvað er þingmaður að skipta sér af því sem sveitarstjórn eða borgarstjórn Reykjavíkur er að gera? Það er ekki hægt að skipta þm. upp með þeim hætti sem fréttamaðurinn gerði, þm. hafa auðvitað allir sama rétt til þess að blanda sér í og hefja umræður um þau mál sem þeir telja skynsamleg. Ég veit t.d. ekki hvar ég sem þetta mæli mundi lenda í þessari flokkun sjónvarpsins þar sem ég er þm. fyrir landsbyggðarkjördæmi en hef alla mína ævi átt lögheimili hér í Reykjavík og á enn.
    Ég held að þessi till. sé ekki mjög skynsamleg, það er mín skoðun. Aðallega vegna þess að hún er allt, allt of seint fram komin ef menn vildu hafa einhver áhrif á framgang þessa máls. Það hefur komið hér fram skýrt og skilmerkilega að borgarstjórn Reykjavíkur hefur í einu og öllu farið að lögum og hefur fullan rétt til að gera það sem þarna er verið að gera. Það er ekkert hægt að draga það í efa. Það er hægt að hafa ýmsar skoðanir á því hvort það sé skynsamleg ákvörðun að byggja svona hús á þessum stað. En það er ákvörðun réttra yfirvalda í Reykjavík og hún hefur verið tekin. Og ég satt að segja á svolítið erfitt með að skilja það þegar hv. þm. koma hér og segja að ástæða sé jafnvel til að setja sérstaka rannsóknarnefnd þingsins vegna þessa máls. Mér finnst það öldungis fráleitt. Menn geta deilt endalaust um ágæti þessarar ákvörðunar en hún var tekin af réttum aðila og hún var rétt tekin. Það er það sem stendur upp úr og það verðum við þm. að virða og ber auðvitað skylda til. En sem skattgreiðanda í Reykjavík hefði mér ekkert fundist óeðlilegt að reykvískir útsvarsgreiðendur fengju að greiða atkvæði um þetta mál, eins og leyft var t.d. að greiða atkvæði um hundahald í borginni. Það hefði mér fundist mjög eðlilegt og einnig mætti greiða atkvæði um ýmsar meiri háttar framkvæmdir borgarinnar eða borgarfyrirtækja sem kosta mörg hundruð milljónir. Það er hægt að spyrja borgarana að því hvort þeir vilji hafa hunda hér eða ekki en það væri vissulega ástæða til að spyrja þá um það sem meira er, það finnst mér vera umhugsunarefni og kannski gagnrýni vert. En að fara að skipa einhverja sérstaka rannsóknarnefnd Alþingis til að fjalla um þetta mál finnst mér vera gjörsamlega út í hött.
    Það getur vel verið að einhverjir árekstrar verði vegna ráðhúsbyggingarinnar og fyrirhugaðrar nýbyggingar Alþingis, það getur vel verið. Ég hef ekki þau gögn í höndum til að geta myndað mér skoðun á því. Ég hygg að þessar byggingar geti báðar þarna verið og þar að auki, ef fallið verður frá því að reisa þessa nýbyggingu fyrir Alþingi, eru margar leiðir til þess að leysa húsnæðisvanda Alþingis hér á þessu svæði. Þetta er ekki eina leiðin. Það eru margar aðrar leiðir til þess og ef niðurstaðan verður sú að þessi hús

útiloki hvort annað, eins og sumir halda fram, er það mín skoðun að Alþingi og alþingismenn eigi að huga að nýjum leiðum hér á þessu svæði. Mín skoðun er sú að hér í þessu gamla, virðulega og sögufræga húsi eigi Alþingi að starfa.