Bygging ráðhúss í Reykjavíkurtjörn
Mánudaginn 07. nóvember 1988

     Geir H. Haarde:
    Virðulegi forseti. Það má til sanns vegar færa að hv. 2. þm. Vestf. hefur teygt þessa umræðu nokkuð um víðan völl, eins og hans var reyndar von og vísa. Er jafnan á vísan að róa í því efni þegar hann er annars vegar. Ég vildi nú benda honum á í allri vinsemd, þar sem hann fór hér með nokkrar fræðilegar röksemdir um þrískiptingu valdsins, að það er rétt að um þetta ráðhús hefur ekki verið fjallað fyrir dómstólum.
    Valdið greinist í löggjafar-, framkvæmdar- og dómsvald og þetta mál hefur ekki komið til kasta dómsvaldsins. En það er auðvitað ósköp einföld ástæða fyrir því, hv. þm., og hún er sú að enginn hefur séð ástæðu til þess að kæra eða stefna þessu máli fyrir dómstóla. Það telur enginn þannig á sér brotinn rétt að ástæða sé til þess að fara með málið fyrir dómstólana, ekki einu sinni hinn meinti eigandi að Tjörninni í Reykjavík. Hann hefur ekki gefið sig fram eða kvartað undan því við borgaryfirvöld í Reykjavík að verið sé að ganga á hlut hans eða vega að eignarréttindum viðkomandi aðila. Sá aðili hefur ósköp einfaldlega ekki gefið sig fram, ef það skyldi hafa farið fram hjá hv. 6. þm. Norðurl. e.
    Nei, það er rétt sem komið hefur fram í þessum umræðum, m.a. hjá hv. 14. þm. Reykv., að við Reykvíkingar frábiðjum okkur till. og málflutning af þessu tagi. Þetta mál hefur verið til rækilegri umfjöllunar en mörg mál önnur og á réttum vettvangi. Þetta mál er margúrskurðað hjá réttum aðilum, hjá yfirvöldum skipulagsmála í landinu, þ.e. hjá félmrn., og það var vissulega ánægjulegt að félmrh., sem hefur rannsakað þetta mál flestum öðrum betur ásamt sínu starfsfólki í ráðuneytinu, tók hér af öll tvímæli í þessu máli í umræðunni fyrir viku síðan. En það er ekki að heyra að hv. flm. eða aðrir stuðningsmenn þessarar till. hafi tekið eftir því. Þeir láta bara eins og sá úrskurður liggi ekkert fyrir eða að hann að minnsta kosti komi þessu máli ekkert við. Er það auðvitað í samræmi við annað í þessum málatilbúnaði.