Flm. (Ásgeir Hannes Eiríksson):
    Hæstv. herra forseti, hv. alþingismenn. Ég flyt hér þáltill. um að láta endurskoða varnarsamning milli þjóðanna Íslands og Bandaríkjanna. Það eru fimm flm. frá Borgarafl. að þessari till. og margar ástæður fyrir því að hver og einn þeirra vill láta endurskoða þennan samning. Hver mun gera grein fyrir sinni ástæðu þannig að ég tala hér algjörlega og eingöngu frá eigin brjósti en ekki í nafni flokksins í heild.
    Ég held að það sé kominn tími til þess að við hættum að blekkja okkur sjálf í utanríkismálum. Varnarsamningurinn við Bandaríkin er líklega einhver þýðingarmesti þáttur utanríkismála þjóðarinnar og hann á sína sögu að rekja aftur til þess tímabils þegar Ísland var hernumið í seinni heimsstyrjöldinni af annarri vinaþjóð og Bandaríkjamenn komu síðan og tóku hér við hervörnum.
    Allt frá því að erlent setulið kom hingað til landsins þá höfum við umgengist það með mjög sérstökum hætti. Við höfum sýnt allt of mikla undanlátssemi í samskiptum okkar við þessar tvær þjóðir. Þegar Bretar koma hingað til lands þá byggja þeir flugvöll inni í miðri Reykjavík. Flugbrautirnar liggja frá dyrum Landspítalans að dyrum Háskólans. Og þeir byggja íbúðarbragga hermannanna nánast inni í húsagörðum, hvar sem var að finna auðan blett. Þegar þeir fara síðan af landi brott með sitt setulið, þá skilja þeir eftir alls kyns mannvirki um allt landið. Og Íslendingar féllust á að kaupa þau fyrir 700 þús. kr., í staðinn fyrir að krefja um stórar fjárhæðir fyrir að fjarlægja þessar minjar af yfirborði landsins.
    Bandaríkin eru gömul hernaðarþjóð þó þau sé ung þjóð í fjölskyldu núverandi þjóða. Maður þarf ekki að ganga lengi um götur í Washington til að sjá hverja þegna landsins Bandaríkjamenn sjá sérstaka ástæðu til þess að heiðra. Stytturnar í borginni eru flestar af gömlum vígamönnum. Fáar, ef nokkrar, eru af skáldum eða öðrum andans mönnum. Það er hernaðurinn sem situr þarna í fyrirrúmi. Og þar gína þeir hæst sem hafa gengið harðast fram í að berja á nágrönnum sínum í þrælastríðinu. Því stærsta styttan er af sjálfum Grant hershöfðingja.
    Í lok seinni heimsstyrjaldar voru Bandaríkin með herstöðvar vítt og breitt um Evrópu og raunar um allan heim. Þau sóttust eftir því að fá að halda þessum stöðvum og leituðu m.a. til Íslendinga en þeirri beiðni var hafnað á þeim tíma. Þá gripu Bandaríkjamenn til þess snilldarbragðs að beita sér fyrir stofnun Atlantshafsbandalagsins. Það var síðan notað sem stærsti Trójuhestur sögunnar til þess að færa Bandaríkjamönnum lyklana að bakdyrum Evrópu. Sú bandaríska herstöð, sem var hafnað hér á landi undir bandarískum fána, var síðan reist hér undir NATO-fána. Enda er ljóst að mikill ávinningur var fólginn í því hjá Bandaríkjamönnum að kalla saman aðrar þjóðir Evrópu til þess að standa saman að NATO-sáttmálanum. Bandaríkin þurftu þá ekki að standa ein í þeirri varðstöðu sem þau höfðu stillt sér upp í í heiminum heldur kölluðu þau aðrar þjóðir Vestur-Evrópu til að standa með sér og hlutu fyrir

bragðið yfirráð yfir sameiginlegum herafla þeirra í ófriði, áhrif á utanríkismálastefnuna og fleiri þætti. Færðu meðal annars víglínu sína frá ströndum Bandaríkjanna norður fyrir Ísland í Atlantshafi, norður fyrir Kanada og austur að járntjaldi í miðri Evrópu.
    NATO-sáttmálinn, sem Íslendingar skrifuðu undir á sínum tíma, er því miður loðið plagg. Sérstaklega er orðalagið loðið í 5. gr., sem er þýðingarmest fyrir land á borð við Ísland, þar sem kveður á um skyldur varnarliðs í svokölluðu gistilandi. Þar verður ekki í fljótu bragði séð hvort varnarliðinu beri að verja landið ef á það er ráðist. Orðalagið er á þann veg, sem segir á ensku: ,,as it deems necessary``, eða: ,,sem það telur nauðsynlegt.`` Ekki verður séð á samhenginu hvort þar er átt við gistilandið eða varnarliðið. Það vill segja að það er ekki ljóst af orðalaginu hvort grípa megi til þeirra vopna eða aðgerða sem gistilandið telur nauðsynlegar eða varnarliðið telur nauðsynlegar. Og mikill munur er á því hvað Íslendingar geta talið nauðsynlegt í stöðunni þegar ráðist er á landið og því sem Bandaríkjamenn geta talið nauðsynlegt þegar gripið er til varna.
    Þetta er einn mikilvægasti þátturinn sem ég vil fá á hreint með endurskoðun. Hvort það sé Íslendingum einhvers virði eða hvort við þurfum að velkjast í vafa um það hvort landið sé í rauninni varið þó að hér sé varnarlið. Hvort varnarliðið sé hér til að verja Íslendinga eða hvort það sé hér til þess að verja Bandaríkin. Hvaða heimild þurfa yfirvöld í Bandaríkjunum til þess að varnarliðið megi grípi til vopna? Er nóg að forsetinn gefi fyrirmæli eða þarf að leggja slíka ákvörðun fyrir bandaríska þingið?
    Það hefur löngum verið mín skoðun að varnarliðið sé hér fyrst og fremst til þess að verja vígstöðu Bandaríkjamanna í heiminum en kæri sig minna um þarfir Íslendinga á því sviði. Við höfum hingað til búið við að allar varnarframkvæmdir á landinu miði við að vernda landið fyrir árás en það er minna gert til að vernda sjálfa þjóðina. Nú skal ég ekki draga úr mikilvægi þess að sjálft landið, sjálf moldin sé vernduð. En ég vil á móti benda á það að mörgum okkar kann að þykja það harla lítil vernd sem er fólgin í því að
verja eingöngu landið á meðan fólkinu er ekki séð fyrir þeirri vernd sem dugir í hernaði. Hér er hvergi á vegum varnarliðsins nokkur sú vernd, nokkurt það skjól eða nokkur aðstaða fyrir fólkið. Það hlýtur þó að vera meginkrafa okkar að sem flestir Íslendingar lifi af hugsanleg hernaðarátök í landi sínu.
    Bandaríska herstöðin á Íslandi hefur oft og einatt komið til tals á hinum ýmsu málþingum og meðal annars lét Joseph Luns, þáverandi framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, þau orð falla árið 1976 að Ísland væri eins og ósökkvandi flugmóðurskip. Þá var talan 40 milljarðar bandaríkjadollara nefnd sem kostnaður við að koma upp flota af þeim styrk sem gæti haldið uppi sambærilegum vörnum hér á norðurslóðum og mundi það þó hvergi, hvergi nærri koma að sömu notum fyrir Atlantshafsbandalagið og Ísland gerir í dag.

    Varnir lands á borð við Ísland eru ekki bara spurning um hervarnir. Land eins og Ísland þarf líka að geta varið sig efnahagslega. Við erum núna stödd á vissum tímamótum í efnahagssögu okkar þar sem erlendar skuldir eru að ná hættumörkum svo áhöld eru um það hvort landið sé ekki á barmi gjaldþrots. Hvort við getum gripið til nokkurra ráða hér til að forða því yfirvofandi gjaldþroti eftir þeim leiðum sem við höfum starfað eftir hingað til. Það er ekki að sjá á því frv. til fjárlaga sem nú liggur fyrir þinginu að þar sé gripið til nýrra leiða, til nýrra ráða, heldur er þar verið að reka áfram flóttann.
    Það hefur stundum komið til tals allt frá því Bandaríkjamenn voru hér á sínum tíma að breyta og finna nýjar leiðir sem tengjast þeim samningum sem við gerðum við Bandaríkin. Það hefur verið rætt um tvíhliða samkomulag við Bandaríkin, annars vegar um varnir og hins vegar á viðskiptasviðinu. Jónas Jónsson frá Hriflu, fyrrv. alþingismaður og ráðherra, talaði fyrir þessum málum á sínum tíma. Hann vildi gera hér tvo jafnhliða samninga til 25 ára í senn. Með öðrum samningnum vildi hann tryggja varnir en með hinum samningnum vildi hann tryggja þjóðinni fjárhagslegt sjálfstæði. Ég veit ekki hvort Jónas hefur þá séð fyrir þennan dag en hann var framsýnn maður og líklega framsýnasti stjórnmálamaður þjóðarinnar. Hann hefur líklega séð fyrir sér þá stöðu sem Íslendingar eru í í dag. Fjárhagslegt sjálfstæði þjóðarinnar er u.þ.b. að líða undir lok ef ekki verður þegar gripið í taumana og tekið til nýrra ráða.
    Ég tel að Íslendingar séu í dag í rauninni að komast út í horn. Hér duga ekki lengur þau ráð sem gripið hefur verið til áður til þess að tryggja okkur áframhaldandi búsetu hér sem sjálfstæð þjóð, heldur þurfum við í eitt skipti fyrir öll að reyna að losa okkur við þann skuldabagga sem hvílir á þjóðinni. Þær hugmyndir hafa komið fram áður hér á landi að semja við Bandaríkjamenn, standa uppréttir og semja við þá en vera ekki stöðugt í bónbjargarstellingum. Láta duga þá mola sem hrökkva af þeirra borðum: Flugstöð hér, Helguvík þar og jafnvel notaðar bækur. Að við séum ekki stöðugt að þiggja af þeim með útrétta höndina í stað þess að semja við þá í eitt skipti fyrir öll, horfast í augu við þá augliti til auglitis og gera við þá tvíhliða samning. Vilji þeir halda áfram að hafa herstöðvar hér í landi þá sé það sjálfsagt mál enda sé í leiðinni samið um að tryggja þessari þjóð fjárhagslegt sjálfstæði. Því við erum um það bil að síast smátt og smátt inn í eitthvert þjóðabandalag fyrir vestan eða fyrir austan Atlantshaf vegna þess að við kunnum fótum okkar ekki lengur forráð. Við erum eiginlega komin að þeim tímamótum að við þurfum að skoða í fyllstu alvöru í hvora blokkina, Evrópu eða Vesturheim, við erum að renna inn í. Gjaldþrotafordæmin eru til í Atlantshafi. Það er ekki lengra en að Nýfundnalandi sem er eyja og býr á margan hátt við svipuð kjör og svipaðan kost og við.
    Ég vil láta endurskoða þennan varnarsamning og ég vil gera þær kröfur strax að úr því fáist skorið að

Bandaríkjamenn megi og geti verndað landið þegar í stað ef á það er ráðist.
    Ég vil í öðru lagi að Bandaríkjamenn og Atlantshafsbandalagið búi þannig um hnútana hér heima að þjóðin sjálf sé vernduð en ekki bara moldin. Fólk en ekki bara fold. Ég vil láta sjá okkur fyrir vegum út af mesta hættusvæðinu hér við Reykjanes og við Faxaflóasvæðið sem yrði fyrsta skotmark í ófriði. Ég vil að það fólk sem hér býr eigi greiðan aðgang burtu af svæðinu og ég vil að til séu öruggir staðir uppi við hálendið eða í uppsveitum Suðurlands þar sem hægt er að taka á móti slösuðu og sjúku fólki eftir hernaðarátök hér í grennd við tvo aðalflugvellina á landinu.
    Almannavarnir hafa sýnt fram á að það eru geysilega miklar lífslíkur og miklir möguleikar að lifa af atómstyrjöld og vil ég í því sambandi minna á sérstaka æfingu sem var gerð á sínum tíma. Ef sprengja mundi springa út af Skagatá þá dugar það fyrir Siglfirðinga að komast inn í Strákagöng og þá gætu þeir varið sig allir fyrir geislavirku úrfelli. Á sama hátt má fara um Eyjafjörðinn. Ef nægilegt skjól er í héruðunum þar þá má draga verulega úr því að íbúar á því svæði verði fyrir miklu heilsutjóni af völdum kjarnorkusprengju sem spryngi út af Skagatá. Ég nefni þetta sem dæmi. Ég vil að þetta verði tryggt.
    Í þriðja stað tel ég að varnarstöðin á Íslandi og allur annar hernaðarviðbúnaður Bandaríkjanna sé hér fyrst og fremst til þess að tryggja vígbúnaðarhagsmuni Bandaríkjanna sjálfra. Við erum varðturn í þeirra fremstu víglínu. Þess vegna vil ég að þeir greiði okkur gjald fyrir þessi afnot síðustu árin sem nemur kannski 10% af þeim kostnaði sem þeir þyrftu að leggja út í ef þeir ætluðu að setja hér upp flota af flugmóðurskipum til að halda uppi svipaðri varðstöðu, og mætti þá draga frá kostnaðinn við ýmis mannvirki hér á landinu, hernaðarmannvirkin, en eftir stæði samt sú fjárhæð sem nemur öllum skuldum íslenska ríkisins.
    Íslendingar fluttu hingað á sínum tíma aðallega frá Skandinavíu en tóku sem betur fer með sér írska þræla sem kunnu bæði að lesa og skrifa. Við glötuðum fljótlega sjálfstæðinu og töpuðum því í ein 800 ár. Danir sáu þá um mál okkar lengst af og þeir héldu í okkur lífinu. Þó svo að við höfum hér árum saman talað um það í okkar sjálfstæðisbaráttu að þeir hafi kúgað okkur og selt okkur maðkétið mjöl, þá er það nú einu sinni danskinum að þakka að við lifðum fram á þessa öld. Það ber ekki að vanmeta það. En þessi 800 ár reyndi ekki á þá hvöt í Íslendingum að standa á eigin fótum þannig að þegar við endanlega hverfum úr nýlenduveldi Dana og gerumst í stríðinu hluti af herveldi bandamanna, þá bjuggum við ekki yfir þeim eiginleika sem þarf til að standa á eigin fótum. Þrátt fyrir það að við hefðum þá þegið 700 millj. kr. í Marshall-aðstoð og þótt við hefðum hagnast verulega á sjálfu stríðinu töpuðum við þessum peningum fljótlega. Við höfum sólundað þeim. Við höfum þegið fleiri gjafir frá Bandaríkjunum. Öll bandarísk sekkjavara, tóbak, korn og annað, var send

okkur að gjöf í ein 12 ár. Þjóðin hefur ekki enn þá náð að efla í sér þá taug sem þarf til þess að standa á eigin fótum.
    Vonandi kemur að því í framtíðinni að við getum staðið fjárhagslega undir okkur því fólkið er fúst til að vinna og tækifærin eru hér mörg og blasa hvarvetna við. En ef við töpum fjárhagslegu sjálfstæði skiptir annað sjálfstæði þjóðarinnar harla litlu máli. Fjárhagslega ósjálfstæð þjóð er líka ósjálfstæð að öllu öðru leyti í fjölskyldu þjóðanna. Þetta vil ég taka með í reikninginn þegar við óskum eftir endurskoðun á varnarsamningnum. Margir aðrir vilja líka láta endurskoða varnarsamninginn vegna fjölmargra annarra atriða, en ég hef drepið á þau helstu sem ég vil að verði lögð til grundvallar þegar við göngum til samninga við Bandaríkin á nýjan leik.