Hjörleifur Guttormsson:
    Virðulegur forseti. Þegar tekin er til umræðu till. á þskj. 55 um endurskoðun á varnarsamningi milli lýðveldisins Íslands og Bandaríkjanna á grundvelli Norður-Atlantshafssamningsins fer ekki hjá því að maður leiði hugann að þeirri smán sem gekk yfir þessa þjóð á vordögum 1951 þegar þrír þingflokkar hittust utan Alþingis á leynifundi til þess að ganga frá hernámi Íslands af hálfu Bandaríkjanna og höfðu ekki þor til þess að kveðja Alþingi saman og standa Alþingi reikningsskil gjörða sinna fyrr en eftir á. Við þessa smán höfum við búið í 37 ár og haldið hefur verið við af talsmönnum þessara flokka, því að andstæðingar sem fundust meðal þeirra hafa gerst æ færri eftir því sem árin hafa liðið, þeirri blekkingu að dvöl þessa herliðs hér í landinu væri vörn fyrir Íslendinga, vörn fyrir íslenskt sjálfstæði, vörn fyrir íslenskt fólk.
    Alþb. hefur á þessum tíma og Sósíalistaflokkurinn á meðan hann starfaði verið einn þingflokka, ásamt Þjóðvarnarflokknum sem var hér við lýði um skeið, til þess að standa gegn ítökum Bandaríkjamanna hérlendis, að standa gegn herstöðvum þeirra hér í landinu, að vera andstæður aðild Íslands að hernaðarbandalagi, Norður-Atlantshafsbandalaginu og hverju öðru bandalagi sem til greina kæmi. Þetta hefur verið afstaða Alþb. alla þessa tíð og ég hlýt að rifja hana upp þegar mál eru tekin til umræðu um endurskoðun þessa samnings, svokallaðs varnarsamnings, undir þeim formerkjum sem mál þetta er hér flutt undir.
    Vissulega hefur það engum dulist á þessum 37 árum að efnahagsleg ítök Bandaríkjanna í gegnum þennan samning hafa verið mikil og hafa farið vaxandi með auknum umsvifum og aukinni hernaðaruppbyggingu hérlendis. Ég hef ekki handa á milli tölur til þess að vitna í um hversu stór hluti af tekjum íslenska þjóðarbúsins kemur í gegnum herstöðvarnar í landinu, en það eru umtalsverðar upphæðir. Einhvern tíma var nefnd talan 10% af þjóðarframleiðslu eða þar um bil, en ég vil ekki fara með hana hér svo óyggjandi sé. Auðvitað skipta þessi efnahagslegu ítök sem þarna eru á ferðinni mjög miklu máli fyrir stöðu Bandaríkjanna hérlendis, fyrir möguleika þeirra á að halda þessari aðstöðu hér, og það dylst auðvitað engum að hugmyndir herforingjanna í Pentagon og valdamanna í Washington eru að gera Ísland að viðvarandi herstöð, að viðvarandi hlekk í hernaðaruppbyggingu Bandaríkjanna á Norður-Atlantshafi.
    Það hefur lítið verið spurt um það af talsmönnum þessa svokallaða varnarsamstarfs hvernig búið hafi verið um hnútana að því er snertir öryggi fyrir íslenska þjóð. Þeir hafa í rauninni ekki hætt sér út á þann hála ís að spyrja: Er einhver vörn fyrir almenning á Íslandi í þessum samningi, í þessum herstöðvum, í veru Bandaríkjahers hérlendis og því kerfi sem þeir viðhalda í kringum landið? Þeir hafa vikið sér undan því að ræða þau mál og þeir vita að því er mér best er kunnugt furðulega lítið um hina

raunverulegu stöðu og hernaðaráætlanir Bandaríkjanna á Norður-Atlantshafi.
    Í utanrmn. Alþingis hef ég ítrekað óskað eftir því að þessi mál, hernaðaruppbyggingin á Norður-Atlantshafi, yrðu tekin til umræðu og vandlegrar yfirferðar á vegum utanrmn. þingsins. Við því hafa menn ekki orðið til þessa, en ég vona að úr rætist, m.a. í krafti þess ákvæðis í stjórnarsáttmála núv. ríkisstjórnar að fram fari óháð mat á hernaðaruppbyggingunni á Norður-Atlantshafi. Það gerist ekki nema með vandlegri umræðu og vitnaleiðslum innan utanrmn. þingsins og auðvitað víðar þar sem menn teldu rétt að taka á þessum málum. Það er sannarlega tímabært að það sé gert og það sé leitast við að svipta frá hulunni og blekkingunum sem haldið er fram af talsmönnum þessa samnings í umræðum hér innan lands, umræðum þar sem þeir í rauninni ljá ekki máls á því að fara ofan í saumana á þessum þáttum út frá þessu sjónarhorni, þ.e. öryggis fyrir Íslendinga.
    Ég er satt að segja undrandi á að hv. 1. flm. þessa máls, sem talaði hér áðan, skuli telja það nauðsynlegt að fara ofan í saumana á þessu máli, jafnauðsætt og það ætti að vera út frá þeim forsendum sem hann mælir út frá að það hefur aldrei verið ætlunin, það hefur aldrei staðið til með þessum samningi að tryggja öryggi íslenskra borgara í stríði, í því atómstríði sem Bandaríkjamenn og gagnaðilar þeirra eru þátttakendur í að halda á dagskrá með gagnkvæmri ógnun, með gagnkvæmri fælingu og þeirri hernaðaruppbyggingu sem þeir hafa staðið að á norðanverðu Atlantshafi og víða um heim.
    Hitt er svo enn óhuggulegra að heyra þm. hér á Alþingi Íslendinga flytja mál af því tagi sem hv. 1. flm. hafði uppi hér áðan, að láta ekki það eitt nægja sem að er gert í sambandi við efnahagsleg ítök Bandaríkjanna í gegnum herstöðvarnar hérlendis, heldur að krefjast endurskoðunar samningsins til þess að geta farið á uppboðsmarkaðinn með opinskárri hætti en gerist nú, með því að falbjóða Ísland í heild sinni sem vettvang fyrir þessi hernaðarumsvif sem menn hafa samningsbundð og meiri hluti á Alþingi Íslendinga hefur haldið hlífiskildi yfir. Og svo er þessi hv. talsmaður jafnhliða að ræða um sjálfstæði Íslands og efnahagslegt sjálfstæði Íslands sem hann beri fyrir brjósti. Ég veit satt að segja ekki hvernig hugmyndirnar ganga í heilabúi hv.
þm., hvernig boðleiðirnar eru þar, en það væri kannski þess virði að biðja hann um að rökstyðja það eitthvað nánar hvernig hann sér efnahagslegu sjálfstæði Íslands betur borgið með því að við verðum enn meira háðir gýligjöfum frá Bandaríkjunum fyrir þá hernaðaraðstöðu sem þeir hafa tryggt sér hér og þóknast að tryggja sér hér í framtíðinni, ef ekki verða breytt viðhorf til þessara mála á Alþingi Íslendinga og hjá íslenskum stjórnvöldum í heild sinni.
    Ég hef í rauninni ekki geð í mér til þess að ræða mikið þessi mál undir slíkum formerkjum. Ég hef talið það illskárra þegar menn hafa leitast við að einangra herstöðvarnar, þegar menn hafa reist það

merki, þó ekki reiðubúnir til þess að reka herinn eins og ætti að gera, til þess að vísa hernum úr landi, að menn hefðu þá burði í sér til þess að reyna að halda herstöðvunum frá íslensku þjóðlífi og einhverja viðleitni í þá átt að halda umsvifum hersins frá íslensku efnahagslífi.
    Vissulega væri það skref í rétta átt að krefjast endurskoðunar á samningnum eins og lagt er til í þessari þáltill. En í 7. gr. þess samnings, sem hefur lagagildi með lögum nr. 110 frá 19. des. 1951, einum 8 mánuðum eftir að Bandaríkjaher kom hingað öðru sinni og tryggði sér aðstöðuna á Miðnesheiði, segir, svo að ég vitni til þess --- ég tók ekki eftir að hv. frummælandi gerði það, á hverju hann reisti sinn málflutning um endurskoðun, hann vísaði almennt í Norður-Atlantshafssamninginn --- með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Hvor ríkisstjórnin getur hvenær sem er að undanfarinni tilkynningu til hinnar ríkisstjórnarinnar farið þess á leit við ráð Norður-Atlantshafsbandalagsins að það endurskoði hvort lengur þurfi á að halda framangreindri aðstöðu og geri tillögur til beggja ríkisstjórnanna um það hvort samningur þessi skuli gilda áfram. Ef slík málaleitan um endurskoðun leiðir ekki til þess að ríkisstjórnirnar verði ásáttar innan 6 mánaða frá því að málaleitunin var borin fram getur hvor ríkisstjórnin hvenær sem er eftir það sagt samningnum upp og skal hann þá falla úr gildi 12 mánuðum síðar.``
    En í framhaldi af þessari grein er síðan vikið að 5. og 6. gr. sem fjalla um svokallaðar skyldur Bandaríkjanna gagnvart þessum samningi og um afnotin af Keflavíkurflugvelli og fleiri svæðum hérlendis. Hér er hins vegar verið að tala um að endurskoðun af hálfu Alþingis ljúki fyrir lok ársins 1991 svo að það virðist svo sem hv. flm. ætli ekki einu sinni ákvæðunum skv. 7. gr. að gilda í þessu máli, heldur skuli það dregið lengur en þar er ráð fyrir gert að afstaða liggi fyrir.
    Það kemur einnig fram í málflutningi talsmanna þessarar tillögu sem hér liggur fyrir að hugmynd þeirra lýtur ekki að því að losa Ísland við herstöðvarnar, heldur að framselja Ísland endanlega í hendur Bandaríkjanna, hernaðarlega og efnahagslega með því að krefjast beinnar gjaldtöku fyrir heimild til handa Bandaríkjunum til þess að hafa herstöðvar hér í landinu. Það er kannski ágætt að menn komi út úr skúmaskotunum með slíkan málflutning, það er kannski ágætt. Og það kannski sviptir hulunni af þeim dulbúnu efnahagslegu tengslum, sem ættu raunar að liggja dagljóst fyrir, sem eru til staðar og eru besta tryggingin sem Bandaríkin hafa hér til að viðhalda aðstöðu sinni. Þar þekkjum við helmingaskiptin, þar þekkjum við enn fleiri sem vilja komast þar að, eins og við höfum heyrt, til að skipta kökunni, því að það eru ekki aðeins Framsfl. og Sjálfstfl. sem bera ábyrgð á veru Bandaríkjaliðs hér, heldur einnig Alþfl. sem hefur verið síst minni talsmaður þessa máls og stundum kaþólskari í því efni en jafnvel sjálft íhaldið.
    Ég vænti þess, virðulegur forseti, að við getum

tekið á þessum málum hér á Alþingi fyrr en seinna undir öðrum formerkjum í ljósi þeirra breyttu viðhorfa sem orðið hafa á alþjóðavettvangi á undanförnum árum, í ljósi þeirrar nauðsynjar sem er á því fyrir Ísland að breyta í grundvallaratriðum afstöðu sinni til hernaðarbandalaga og veru erlends hers í landi sínu. Sá tími er vonandi skemur undan en margan grunar.