Júlíus Sólnes:
    Virðulegur forseti. Ég er einn af meðflm. að þessari tillögu og ég vil ítreka það og taka það fram að í stefnuskrá Borgfl., sem var lögð fram í kosningunum vorið 1987, eru í kaflanum um utanríkismál skýr ákvæði þess efnis að endurskoðun varnarsamningsins fari fram reglulega, ekki aðeins núna, eins og við leggjum til í okkar till., heldur verði samningurinn í heild sinni athugaður og endurskoðaður með vissu millibili. Við vekjum fyrst og fremst athygli á því að það hefur nánast ekkert verið litið á þennan samning, sem nú er orðinn 37 ára gamall, öll þessi ár. Þetta hefur verið talið heilagt plagg og ekki mátt hreyfa þar við einum bókstaf þó að það séu gjörbreyttir tímar, allt aðrar aðstæður og allt annað þjóðfélag hér á þessu landi en var þegar varnarsamningurinn var gerður 1951.
    Ég persónulega hef aldrei verið áhugamaður um að hér sé erlendur her og mig hryggir það í raun að hér skuli þurfa að vera erlendur her á friðartímum, þó svo að aðstæður og það öryggisleysi sem við búum við í alþjóðamálum hafi gert það nauðsynlegt. Ég vil t.d. vekja athygli á því að nú fer að verða liðin undir lok síðasta kynslóðin á Íslandi sem man Ísland án nokkurrar hersetu. Þeim fer ört fækkandi sem lifað hafa í þessu ágæta landi án þess að hér hafi verið herseta og brátt líður að því að hér búi enginn maður sem upplifað hefur það Ísland sem var án nokkurrar hersetu. Ég vildi heils hugar geta staðið að því að þessum varnarsamningi yrði breytt í þá veru að herinn gæti farið héðan. Ég vildi svo sannarlega óska að eins fljótt og framast væri unnt skapaðist það ástand í alþjóðamálum að hér yrði ekki lengur þörf fyrir hersetu.
    Eitt af þeim atriðum sem að sjálfsögðu ber að skoða reglulega, og einmitt út frá ástandi í alþjóðamálum, er hvort ekki sé hægt að endurskoða samninginn með tilliti til þess m.a. að fækka megi í herliðinu, það megi draga úr umsvifum varnarliðsins. Ekkert af þessu hefur verið gert og engar tillögur þess efnis komið fram.
    Hv. 2. þm. Austurl. vakti lítillega athygli á því í máli sínu með hvaða hætti samningurinn barst til okkar á sínum tíma. Það er rétt að rifja það upp að samningurinn var gerður að lögum með bráðabirgðalögum --- og svona af því að við höfum töluvert fjallað um setningu bráðabirgðalaga upp á síðkastið, þá rekum við okkur enn einu sinni á það að einhverjar mikilvægustu athafnir og ráðstafanir sem gerðar eru af íslenskum stjórnvöldum eru hér sem endranær gerðar með bráðabirgðalögum, án þess þó að ég ætli að fara frekar út í það eða rekja það hvers vegna það var gert.
    En það er alveg augljóst þegar samningurinn er lesinn yfir að ýmis ákvæði í honum eru að verulegu leyti orðin úrelt og mjög nauðsynlegt er að endurskoða ýmis ákvæði. T.d. eru mörg atriði mjög óljós, sérstaklega þó þau sem koma fram í fylgiskjali með samningnum sem heitir ,,Viðbætir um réttarstöðu liðs Bandaríkjanna og eignir þeirra``. Þar eru mjög

mörg óljós ákvæði, t.d. með hvaða hætti skuli fara með innflutning á vegum varnarliðsins og hvernig eigi að tollafgreiða slíkan innflutning. Þegar samningurinn er lesinn mjög nákvæmlega verður ekki betur séð en að verulegu leyti sé um tollskyldu að ræða og það vakna upp ýmsar spurningar. Hefur ekki verið um það að ræða að innflutningur til varnarliðsins hafi verið undanþeginn tollum á ólögmætan hátt, þar sem samningurinn segir skýlaust til um að hann skuli vera tollaður?
    Mig langar til að taka hér dæmi úr 8. gr. þessa viðbætis, nánar tiltekið í 6. tölul., með leyfi forseta, sem hljóðar svo: Nú flytja menn úr liði Bandaríkjanna eða skylduliði þeirra inn aðrar vörur en þær sem greindar eru í töluliðum 4 og 5 þessarar greinar, þar með taldar sendingar fyrir atbeina pósthúsa Bandaríkjanna, og skal þá slíkur innflutningur samkvæmt þessari grein ekki undanþeginn tolli eða öðrum skilyrðum.
    Það eru mörg ákvæði í þessa veru sem mér býður í grun að séu þverbrotin daglega og þetta vil ég m.a. láta athuga. Ég hef aldrei verið því fylgjandi að gjaldtaka sé fyrir þá aðstöðu sem varnarliðinu er látin í té hér á Íslandi. Að því leytinu til get ég tekið undir með hv. 2. þm. Austurl. Að sjálfsögðu er æskilegt að reyna að halda varnarliðinu aðskildu frá íslensku efnahagslífi hvað varðar efnahagsmál. Hins vegar finnst mér jafnnauðsynlegt að á meðan varnarliðið er hér í landinu séu þeir Bandaríkjamenn sem dvelja hér á vegum varnarliðsins háðir íslenskum lögum og verði að beygja sig undir öll þau tollaákvæði sem við búum við, a.m.k. að því leyti sem ekki er um að ræða hreina og klára undanþágu í samningsgreinunum.
    Að lokum vil ég svo taka það fram að ég vona svo sannarlega að líða fari að að því að ástand í alþjóðamálum bjóði upp á að draga megi verulega úr umsvifum varnarliðsins hér á landi og það líði að því að á Íslandi verði enginn her.