Guðrún Agnarsdóttir:
    Hæstv. forseti. Áður en ég vík að efni þessarar till. langar mig aðeins að undrast það ávarp sem hv. 1. flm. till. hafði við forseta. Það kunna að hafa verið mistök, eins og oft verða þegar maður snýr sér ekki við í stólnum, en ég hélt nú að það væri svo vel kynnt staðreynd að hér fara þrjár konur með stjórn þingsins að mér fannst undarlegt að heyra konu ávarpaða ,,herra`` og hélt að það væri augljós mótsögn, hversu svo sem kynferði orðsins forseta er varið.
    Ég tel eðlilegt að endurskoðun fari fram á því, sem nefnt hefur verið varnarsamningur á milli lýðveldisins Íslands og Bandaríkjanna, og þó fyrr hefði verið, en fyrir því liggja reyndar margar orsakir. Ég vil leggja áherslu á það sem kom fram í máli hv. 2. þm. Austurl. en það eru áhyggjur vegna vaxandi vígbúnaðaruppbyggingar í Norður-Atlantshafi.
    Ég átti þess nýlega kost að sækja ráðstefnu í Kanada þar sem fjallað var almennt um málefni heimskautsins. Þar voru saman komnir ýmsir vísindamenn frá öllum þeim löndum sem liggja að eða á norðurheimskautinu. Í máli þeirra og rannsóknum kom glögglega í ljós hve vígbúnaður hefur aukist mikið á norðurslóðum. Það kom einnig í ljós hve lífríkið og umhverfið allt er viðkvæmt og hversu miklu það varðar fyrir jörðina alla ef slys verða, t.d. á kjarnorkukafbátum, eða ef mikil mengun verður á þessu svæði. Þetta er mál sem varðar okkur Íslendinga eins og aðrar þjóðir sem eiga land að heimskautinu og væri einmitt mjög áhugavert ef utanrmn. gæti tekið upp sérstaka umræðu um þetta áhyggjuefni á sínum vettvangi og fært hana inn á þingið.
    Ég get ekki séð að hér sé í raun um varnarsamning fyrir Íslendinga sérstaklega að ræða og ég veit ekki um neinn viðbúnað í herstöðinni í Keflavík sem miðar að því að verja fólkið sem býr á Íslandi. Ég bar þessa spurningu fram í heimsókn utanrmn. á sínum tíma við þann hershöfðingja sem var í forsvari á herstöðinni og hann gat engin dæmi nefnt mér um sérstakan viðbúnað sem væri beinlínis fyrir fólkið á Íslandi ef til árásar kæmi á landið. Herstöðin er í raun miklu fremur hlekkur í eftirlitskerfi Atlantshafsbandalagsins en varnarstöð til að verja þjóðina okkar. Þessu held ég að menn verði að gera sér grein fyrir hver svo sem afstaða þeirra er til herstöðvarinnar eða verunnar í Atlantshafsbandalaginu.
    Mér finnst einnig fráleitt að hugsa sér að hægt sé að verjast þeim vopnum sem vega þyngst í því ógnarjafnvægi sem stórveldin tefla. Ég held að flestir viti það nú orðið að það er ekki hægt að verjast kjarnorkuvopnum. Þau eru ekki eins og hefðbundin vopn og við verðum að ítreka það fyrir okkur sjálfum og öðrum hversu fráleitt það hugsun er, að færa hugsun um hefðbundin vopn yfir á kjarnorkuvopn sem eru allt, allt annars eðlis.
    Til þessa vígbúnaðar rennur óhemjulegt fé. Svo mikið að flestar venjulegar manneskjur geta ekki gert sér í hugarlund hversu mikið það er og hef ég iðulega úr þessum ræðustól nefnt ýmis dæmi um slíkt sem ég ætla ekki að tíunda nú. Þetta fé nýtist að sjálfsögðu

ekki daglegum nauðþurftum jarðarbúa allra, en vígbúnaðarkapphlaupið bitnar ekki bara á stórveldunum. Efnahagskerfi heimsins er svo samslungið og þjóðirnar svo nátengdar hver annarri í þeirri efnahagslegu samvirkni sem ríkir að það bergmálar út um alla heimsbyggðina. Skuldir þróunarlandanna t.d. við hinar ríkari þjóðir í heiminum eru að ýmsu leyti til komnar einmitt vegna vopnakaupa og stórveldin nota þróunarlöndin í tafli sínu til þess að, við skulum segja, tappa af ákveðinni spennu sem ríkir á milli þeirra. Við erum nefnilega öll í litlu þorpi þar sem við búum á jörðunni.
    Varnir almennt hafa jafnan verið skilgreindar afar þröngt. Þær varnir sem mönnum eru nauðsynlegar eru ekki einungis gegn hervæðingu eða gegn grimmd og yfirráðum annarra manna. Hugtakið varnir og öryggi er í raun miklu víðtækara og nær til varna gegn sjúkdómum, hungri, fátækt, atvinnuleysi, misrétti og fáfræði. Þetta skyldum við hafa í huga þegar við tölum um öryggi þjóða, öryggi landa, öryggi einstaklinga sem ýmis bandalög eiga að tryggja. Leiðin til þessa almenna öryggis liggur ekki í gegnum hernaðarbandalög, hernaðarbandalög sem nærast á virkum óvinaímyndum, sundrungu og því sem aðskilur menn og þjóðir. Hún liggur miklu fremur í því að byggja brýr á milli manna og þjóða, efla skilning, auka jafnrétti og jöfnuð.
    Ég tek undir þá hugmynd að fram fari endurskoðun á þessum samningi og það virðist e.t.v. vera gott tækifæri til þess að fá slíka till. samþykkta í tíð þeirrar félagshyggjustjórnar sem nú situr. Hins vegar hlýtur sú endurskoðun að leiða ýmislegt í ljós sem orðið getur tilefni til breyttrar afstöðu þings og þjóðar og þess vegna er auðvitað ekki hægt að gefa sér niðurstöður endurskoðunarinnar fyrir fram, eins og mér fannst koma fram í málflutningi hv. 1. flm.
    Mér finnst fráleitt og ég legg ríka áherslu á það að ég tel að það komi ekki til greina að við Íslendingar verðum efnahagslega háðari hervæðingu en nú þegar er orðið og get því alls ekki tekið undir þann málflutning hv. 1. flm. Kvennalistakonur telja það og hafa ævinlega talið mjög alvarlegt hve efnahagslega háðir herstöðinni við Íslendingar erum nú þegar og teljum brýna nauðsyn að draga úr þessum áhrifum frekar en að auka þau.