Flm. (Ásgeir Hannes Eiríksson):
    Hæstv. forseti. Ég fagna sérstaklega áhuga Alþingis á þessu umræðuefni svo sem sést hér í tómum þingsölum. Mér þykir það með eindæmum hversu margir þingmenn sýna endurskoðun á varnarsamningi þjóðanna tveggja áhuga sinn með því að mæta ekki hér. En við því verður ekki gert. Í málflutningi hv. alþingismanna hér áðan kom afskaplega lítið fram sem ég get upplýst betur héðan úr pontu núna í lok fyrri umræðu um þetta mál. Ég vil þó leyfa mér að vera sammála hv. 2. þm. Austurl. Hjörleifi Guttormssyni um það að bandaríski herinn er ekki hér til þess að vernda Íslendinga. Ég fagna þeim liðsauka. Ég er líka sammála honum þegar hann skildi ekki innbúið í höfðinu á mér, ég skil það ekki oft sjálfur og hef ekkert á móti því að það sé skoðað. Þingið skilaði e.t.v. betri árangri ef þingmenn væru almennt skoðaðir að innan og endurskoðaðir ekki síður en varnarsamningurinn.
    Hv. 6. þm. Reykv. Guðrún Agnarsdóttir skildi ekki alveg samhengið hjá mér hvernig hægt væri að forðast efnahagsleg tengsl í eitt skipti fyrir öll með því að gera nú samning við Bandaríkin. Þjóð okkar rambar á barmi gjaldþrots. Við erum um það bil að verða gjaldþrota. Við höfum verið háð Bandaríkjum Norður-Ameríku á margan hátt og misjafnan, og hirði ég ekki um að nefna einstök dæmi því til stuðnings á þessum tíma. En mín tillaga er sú, svo ég ítreki hana hér, að við göngum til samninga við Bandaríkin í eitt skipti fyrir öll til þess að losna undan þeim skuldum sem eru að gera okkur það háð, ekki bara Bandaríkjunum heldur öðrum þjóðum, að við okkur blasir að við þurfum að segja okkur á hinn alþjóðlega hrepp, sem er Alþjóðabankinn, en það er hann sem tekur við þjóðum sem missa fótanna. Þar með lít ég svo á að við getum losnað við þessi efnahagslegu tengsl í eitt skipti fyrir öll og byrjað á nýjan leik að reyna að fóta okkur sjálf hér í samfélagi þjóðanna.
    Mér er alveg sama hvernig alþingismenn rökstyðja sitt mál hér, hvort þeir eru sammála mér eða ekki, svo lengi sem þeir taka undir það að varnarsamningurinn sé eins og önnur mannanna verk til þess fallinn að endurskoða í rás tímans við breyttar aðstæður og við breytt viðhorf. Það er númer eitt í þessari tillögugerð.
    Ég lít svo á að við séum í ákveðinni nauðvörn, við séum komin upp að vegg og þess vegna vil ég ljúka þessum málflutningi mínum með þeirri skoðun minni að þegar stjórnmálaforustan í landinu hefur brugðist við að sjá landinu farborða með sjálft Alþingi í broddi fylkingar þá hefur þjóðin sjálf bæði réttinn og skylduna til þess að bjarga sér sjálf. Og svo er nú komið fyrir okkur í dag, því miður.
    Að svo mæltu þakka ég fyrir tækifærið til þess að mæla fyrir þessari till. og bið þingheim vel að lifa.