Nýtt hús fyrir Alþingi Íslendinga
Mánudaginn 07. nóvember 1988

     Þorv. Garðar Kristjánsson:
    Hæstv. forseti. Mig langaði aðeins að tjá mig um þessa till. með örfáum orðum. Þessi till. er allóvenjuleg. Það eru nokkur atriði sem lagt er fyrir að gera samkvæmt till.
    Það er í fyrsta lagi að hætta þegar í stað greiðslum til þess að undirbúa byggingu nýs húss fyrir starfsemi þingsins við Kirkjustræti og Austurvöll eins og fyrirliggjandi teikningar gera ráð fyrir. Ég vek athygli á því að þetta er nokkuð einkennileg aðferð við það að breyta ákvörðun fjárlaga en fer ekki nánar út í það.
    Í öðru lagi er lagt til að það skuli reisa nýtt alþingishús á lóð Alþingis við Vonarstræti. Það er og athyglisvert við það að það hús á að vera nákvæm eftirmynd af því húsi sem við stöndum hér í. Ég hef aldrei heyrt slíka hugmynd fyrr og ég leyfi mér að efast um hvað raunhæf slík hugmynd er.
    Þá er í till. gert ráð fyrir að Alþingi komist yfir ráðhúsgrunninn í Tjörninni og geri að bílageymslu. Það er frumleg tillaga. Það verður að færa henni það til lofs.
    Og það verður að segja að hv. flm. reiðir hátt til höggs. Hann segir í lok sinnar grg. með þessari till. þegar hann er búinn að reifa hvað hann ætlar að gera: ,,Þannig er hægt að slá þrjár flugur í einu höggi í Reykjavík. Setja niður deilur um þrjú opinber hús í borginni.`` Hér mun vera átt við það hús sem hefur verið teiknað fyrir Alþingi, ráðhúsið og svo húsið sem gert er ráð fyrir á hitaveitutönkunum.
    Ég ætla ekki að ræða frekar um þetta. En ég vil vekja athygli á því, og það vita raunar allir, að þetta er ekki í fyrsta sinn sem rædd eru húsnæðismál Alþingis hér í þessum sölum. Það hefur verið ákaflega mikið rætt um þessi mál, ekki einungis á síðustu árum og ekki sérstaklega mikið á síðustu árum, oft og tíðum mikið á síðustu áratugum. Og það vill svo til að þá deildu menn um flest sem þessum húsnæðismálum kom við. Menn deildu m.a.s. um það hvort Alþingi ætti að vera til frambúðar í Reykjavík. Menn deildu um það hvort Alþingi ætti að vera á þeim stað sem Alþingishúsið er núna eða annars staðar í Reykjavík og þannig var deilt um þessi mál. En þó að það væri deilt um þessi mál, þá töluðu menn ekki af neinu ábyrgðarleysi. Þetta voru hjartans mál þingmanna og þingmenn úr öllum flokkum sýndu mikla ábyrgðartilfinningu í raun og veru alltaf þegar þessi mál voru rædd. Þau voru rædd í mörgum samböndum, í sambandi við tillöguflutning, í sambandi við fyrirspurnir o.s.frv. En það fengust engin úrslit í þessu máli og það var mjög bagalegt og í raun og veru alvarlegt fyrir Alþingi.
    Þá kemur það herrans ár 1981. Á 100 ára afmæli Alþingishússins, sem við notum nú, var að tillögu forseta þingsins samþykkt, ágreiningslaust, að fram skyldi fara samkeppni um hús fyrir Alþingi til þess að rúma þá starfsemi sem ekki gæti rúmast í Alþingishúsinu sjálfu. Þetta var mjög merkileg tillaga og mjög merkileg ákvörðun því að þarna var ekki einungis um það að ræða að ákveða að gera útboð að teikningu. Það var tekin ákvörðun um það að það hús

sem við notum í dag skuli vera til frambúðar, í næstu framtíð, Alþingishús og hið nýja hús Alþingis átti að vera einungis til þess að gera þetta mögulegt. Með tilliti til þessa var gert ráð fyrir að staðsetning hins nýja húss væri við Kirkjustræti og Tjarnargötu til þess að halda opnu og ónotuðu svæðinu við Vonarstræti því að þar gæti þá verið alþingishús framtíðarinnar, ef mönnum sýndist svo, þegar þar að kæmi.
    Hv. flm. snýr þessu við. Hann vill ekki hafa hús við Kirkjustræti til þess að gera mögulegt að nota gamla alþingishúsið. Hann vill byggja nýtt alþingishús nú þegar við Vonarstræti. Um leið bendir hv. þm. á að það þurfi að fara varlega í að eyða fjármunum ríkisins í hús, en mér sýnist að þessar hugrenningar hans standist nú ekki það sjónarmið.
    Það er rétt að það komi hér fram að eftir að samkeppnin, eins og menn vita, að nýju húsi fyrir Alþingi fór fram, ákváðu forsetar Alþingis að láta útfæra þá teikningu nokkuð til þess að Alþingi gæti tekið efnislega afstöðu til þess hvort það ætti að fullhanna hús samkvæmt þeirri teikningu. Nú er þessi undirbúningur kominn það langt að það er hægt að taka efnislega afstöðu til þessa. En ef það verður tekin efnisleg afstaða á þann veg að fullhanna skuli þessa byggingu, þá tekur það tvö til þrjú ár og þá þarf að taka aðra ákvörðun um það að byggja húsið og hvenær það verður gert.
    Ég vil aðeins vekja athygli á þessu, hvernig þetta mál stendur því að það kemur auðvitað við þessari þáltill. Það er lagt til að hætta að framfylgja ákvörðun Alþingis frá 1981 sem var samstaða um eftir allt sem á undan var gengið, það er lagt til að kasta þessu til hliðar.
    Og eins og ég hef lagt áherslu á, þá hefur jafnan verið leitast við hér á þinginu að ná sem víðtækastri samstöðu um það sem varðar framtíðarhúsnæði Alþingis. Hv. flm. þessarar till. hefur setið sem varaþm. hér á Alþingi í fáeina daga. Hann gerir hér tillögu um þessi viðamiklu og viðkvæmu mál. Ég geri ekki þessa skynditillögu að frekara umræðuefni. Þessi málatilbúnaður dæmir sig sjálfur.